Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Um Kögur-Grím

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Um Kögur-Grím

Þorvarður Bjarnarson skafinn bjó eftir föður sinn í Njarðvík. Hann hélt rausnarbú mikið, hafði áhöld öll til bús sterk og varanleg. Hann átti rambyggt skip sem hann lét á sjó ganga. Þess er getið eitthvört sinn að hann réri á hafmið sem heitir Djúpiklettur. En þá hann hafði setið um hríð skelldi yfir þoku svo hvörgi sá frá borði og undireins féll á fall svo mikið að ekki varð haldið við miðið. Þorvarður bað háseta róa á. En það tókst ekki hversu sem til var reynt. Skipið rann áfram líkt og í árstraumi. Þetta gekk langan tíma unz skipverjar sáu grilla í land, og þá nálægðist landið sáu menn að skipið bar upp að vog einum norðarlega við Njarðvíkurafrétt sem heitir síðan Kögurvogur. Hellir stór er upp frá vog þessum, Kögur-Grímshellir kallaður. Skipið rann sem í stríðum straumi inn á voginn. Þá Þorvarður sá hvað skipið stefndi bað hann háseta sína vera viðbúna með duglega krókstjaka er skipinu fylgdu að stjaka því út úr vognum, kynni þess vera kostur. En hann þreif öxi mikla er lá í skipinu og hljóp fram í. Skipinu fleygði inn í hellirsmunnann. En undireins og niður kenndi skipið þreif stórvaxin hönd í hnýfil skipsins. En Þorvarður hjó á fingurna svo þær féllu inn í skipið, en hásetar vóru tilbúnir með krókstjakana og komust svo út í vogskjaftinn. Þá vissu skipverjar ekki fyrr en bjarg mikið kom innan úr hellinum og kom niður innan við skipið svo það varð fyrir stóráföllum. Fóru þeir svo leiðar sinnar inn á nes það sem Skálanes heitir og hvíldu sig þar nokkrun tíma, réru síðan út aftur og fiskuðu vel. Hafði Þorvarður fingurna til sýnis, og þóttu afar miklir.