Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Umskiptingurinn í Sogni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Umskiptingurinn í Sogni

Einu sinni var tvíbýli í Sogni í Kjós og hét annar bóndinn Gísli; hann átti son sem ekki þótti vera með öllum mjalla. Hvorki lærði hann neitt til munns né handa né hafðist að, en lá alltaf í rúminu og þótti vera í meira lagi matfrekur. Menn gjörðu sér helzt í grun um pilt þenna að hann væri umskiptingur, en lengi var það fram eftir að það þótti ekki fullvíst. Þegar piltur þessi var kominn um venjulegan fermingaraldur stóð svo á einu sinni um vetur að allt fólk fór úr baðstofunni út til gegninga nema þessi drengur; hann lá eftir í rúmi sínu eins og vant var og konan á hinu búinu sem lá á sæng og barnið hjá henni; allt var þetta í sömu baðstofunni. Þegar fólkið var farið út heyrði sængurkonan að geispa mikla fór að setja að drengnum svo henni fór að þykja nóg um og koma í hana ónotahrollur af látunum í honum. Því næst heyrir hún að hann fer að hafa umbrot í rúminu og teygja sig; verður hún þess þá vör þegar eftir að hann er staðinn upp í rúminu og teygir þá úr sér svo að hann nær upp í rjáfur í baðstofunni. En baðstofan var byggð á bekk og skammbitar í sperrum ofarlega. Setur þá enn að honum geispakast og hallast hann um leið með andlitið upp að skammbitanum einum, og ber bitann rétt upp í opið ginið á honum er hann gapti á geispanum og gein hann svo yfir bitann að efri skolturinn lá ofan á honum, en hinn undir; þar með varð hann svo herfilega ljótur og leiður ásýndum að konan varð dauðhrædd og hljóðaði upp yfir sig af angist að sjá þetta og vita sig eina með honum í baðstofunni, og var hún lengi ístöðulítil eftir þessa ósjón. En undireins og konan rak upp hljóðið hrökk hann við sem byssubrenndur og ofan í bæli sitt aftur og komst í samt lag áður en fólkið kom inn frá gegningunum. Eftir þetta þótti það ekkert efamál að drengurinn væri umskiptingur.

Svo stendur á teygjum umskiptinga að til þess að þeir sýnist litlir sem vöggubarn hnoða álfkonur þá og kýta saman áður en þær leggja þá í vögguna fyrir barnið sem þær taka. En þótt þeir sýnist eins litlir og börn þurfa þeir öðru hvoru að teygja úr sér því þeir geta ekki alveg afneitað sinni fyrri náttúru, og sæta þeir því lagi að gjöra það þegar þeir ætla að enginn sé nálægur eða sjái til sín.