Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Una og Bjartmar

Úr Wikiheimild

Á Byrgi í Kelduhverfi bjó einu sinni ríkur bóndi; eigi er þess getið hvað hann hét. Svo bar til að á Fjöllum í sömu sveit voru tvö frændsystkin að nafni Jón og Hafþóra; hann var – að mig minnir – föðurbróðir hennar. Þau voru jafnaldra og unnust hugástum og þegar þau voru um tvítugt vildi svo til að Hafþóra varð barnshafandi af völdum frænda síns. Þetta var ólífissök í þann tíma, en varð þó uppvíst. Ól hún meybarn og var kallað Una. Síðan voru þau bæði dæmd til dauða og aflífuð þar sem nú stendur bærinn á Fjöllum, og sjást þau þar enn á reiki í stofunni þegar veður er kyrrt og myrkt eða tungl veður í skýjum og hefur margur orðið hræddur við svipi þessa. Þau eru þá alblóðug og stundum grátandi (líka hefir sézt þar hinn þriðji svipur og vita menn eigi hver hann er); stundum heyrast líka þungar stunur þar í gilinu fyrir ofan bæinn og stundum því líkast sem væri grátkjökur og heitir kossar milli tveggja sem eru að barma sér og hyggja menn það af sömu rótum runnið. Dóttir þeirra Unu vildi enginn hafa í húsum sínum og hugðu að hún mundi færa ógæfu yfir heimili sitt og synd foreldranna fylgja henni gegnum lífið. Loksins varð hinn auðugi Byrgisbóndi til að veita henni ásjá og ólst hún upp hjá honum þar til hún var 17 ára. Hún var jafnan látin gjöra það sem erfiðast var og við hvert tækifæri brigzlað um það að hún væri í meinum fædd og afkvæmi afbrotamanna. Vanaverk hennar á sumrum var að smala fé bónda í hinu alkunna Ásbyrgi og það hlaut hún að gjöra hvernig sem veður var.

Það var einn dag í óveðri miklu að hún var að smala fé í Byrginu mjög hrygg í huga yfir lífskjörum sínum að hún sá að ungur maður vel búinn stóð undir reynirunni einum, fríður sýnum og glaðlegur; hann orti þessum orðum á hana: „Veslings Una mín, vertu nú eigi lengur að hrekjast á milli mannanna sem eru heimskir og vondir og kunna ei að meta fegurð þína og vænleik; þeir fyrirlíta þig af því þú ert barn ógæfusamra foreldra. Komdu með mér og vertu hjá mér þar sem þú verður virt og elskuð og þér aldrei verður brigzlað um foreldra eða fátækt þína.“ Una varð í fyrstu hrædd, en gat þó eigi að sér gjört að taka boði hins fríða unglings sem lét hana vita að hann væri álfur og byggi þar í björgunum. Fylgdist hún með honum inn í bjargið og varð þar margra hluta vísari. Þar var fjölmenni mikið og herbergi fleiri en hún gat talið; allir menn voru þar skrautbúnir og engan sá hún þar með hryggu bragði. Þessi ungi maður sagðist heita Bjartmar og vera sonur eðalmanns þar í bjarginu sem væri dauður fyrir löngu, en móðir átti hann á lífi; hún var öldruð og nokkuð svipþung. Eigi leið á löngu að hinn ríki og tiginborni álfur giftist unga munaðarleysingjanum úr mannheimi og tókust með þeim góðar ástir. Eigi var móður Bjartmars um þenna ráðahag, en lét þó svo búið standa. Hvarf hún litlu síðar og þókti líkast að hún myndi hafa týnt sér af óyndi. Bjuggu þau hjónin þannig saman í þrjú ár og fýsti Unu aldrei til mannabyggða, enda var maður hennar henni mjög ástúðlegur og á þessu tímabili fæddust þeim tvö börn harla fögur.

í Eyjarnöf bjó prestur einn; hann átti dóttir eina er Þóra hét; hún var fríð sýnum, en lauslynd og brellin; henni leizt mjög vel á Bjartmar og vill fyrir hvern mun eignast hann fyrir mann. Venur hún komur sínar að Ljóshvoli (svo hét bær Unu) og tók Una henni jafnan með blíðu, en þó var sem einhver óljós grunur spáði henni illu um komur hennar þangað, enda fór svo að hún gat snúið hug Bjartmars frá Unu svo hann tók að unna Þóru, og um síðir rak hann frá sér konu sína og hreif af henni bæði börn hennar grátandi, reif af henni skrautbúning hennar og lét hana fara í tötrum frá sér. Ráfaði hún svo heim að Byrgi, en þar var henni úthýst; og so fór á hverjum bæ ofan Hverfið unz hún kom að Garði. Þar bjó prestur nokkur og átti dóttur eina væna og fagra; hún sá aumur á Unu og skaut yfir hana skjólhúsi. Dvaldi hún þar vetrarlangt og sagði henni sögu sína, en engum öðrum. Um vorið kenndi hún sér sóttar og ól barn eitt sem andvana fæddist, og sjálf lézt hún einnig af afleiðingum barnsfararinnar. Síðan var hún kistulögð og borin út í kirkju. Kveldinu áður en átti að jarðsetja hana gekk prestdóttirin út í kirkju og sá hún þá að maður nokkur í sorgarbúningi lá á knjám við líkkistuna og gjörði bæn sína. En er hann varð var um prestdóttur spratt hann upp og gekk snúðugt út úr kirkjunni, en um leið og hann fór fram hjá henni klappaði hann henni á kinnina og sagði: „Þú skalt verða biskupsfrú á Hólum fyrir meðferðina á henni Unu minni,“ og um leið og hann nefndi Unu stukku honum tár af augum. Prestdóttir þessi varð og biskupsfrú á Hólum.

Um sumarið eftir lát Unu heyrði smalamaður frá Ási sem var á gangi á bjargabrúnunum að þetta var kveðið fyrir neðan hann í bjarginu:

Sakna ég þín Una,
leið ertu mér Þóra,
þú vilt mig véla,
gráta börn mín bæði.
Nú er Una á himnum hjá guði
og biður barnið frá Betlehem
að bjarga mér frá vítiskvölum.

Og ætla menn það hafa verið Bjartmar á Ljóshvoli er grét og kveinaði af yfirsjón sinni.