Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Upptök Drangeyjar (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Upptök Drangeyjar

Á fyrri dögum áttu nátttröll tvö heima í Hegranesi; var það karl og kerling; ekki fóru miklar sögur af þeim fyrr en þessi gjörðist. Það bar til eitt sinn að kýr þeirra varð yxna, en hvort sem það hefur verið af því að þau áttu eigi öðrum á að skipa eða af hinu að þau trúðu sjálfum sér bezt fóru þau og leiddu sjálf kúna svo að hún skyldi ekki missa tíma. Karlinn teymdi hana, en kerling rak á eftir sem venja er til. Héldu þau svo með kúna út Hegranes og út á Skagafjörð góðan kipp. Þegar þau áttu enn eftir býsna spotta til þess að hálfna fjörðinn sáu þau að dagur ljómaði austan megin fjarðarins í fjallaskörðum og yfir fjallabrúnum. En með því það er bráður bani nátttrölla ef þau dagar uppi varð þeim dagsbirtan að fjörlesti svo þau urðu sitt að hvorum steindranga, og eru það nú drangar þeir sem standa annar fyrir utan Drangey og er það karlinn, en hinn fyrir innan eyna og er það kerlingin; draga drangar þessir af því nafn og heita enn í dag Karl og Kerling. En úr kúnni varð eyjan sjálf og þótt þess sé ekki getið að kýrin hafi verið búin að taka við fangi í för karls og kerlingar hefur hún þó einatt orðið Skagfirðingum arðsöm vorbæra sem fyrr er sagt.

Það er eldgamall siður sem enn helzt við að allir þeir sem til Drangeyjar fara í fyrsta sinni á vorin heilsi henni og allt eins Kerlingu og Karli. Byrjar formaður það fyrstur á hverju skipi og segir: „Heil og sæl (eða happasæl), Drangey mín, og allir þínir fylgjarar; heil og sæl (eða happasæl), Kerling mín, og allir þínir fylgjarar; heill og sæll (eða happasæll), Karl minn, og allir þínir fylgjarar.“ Síðan hefur hver háseti á skipinu og eins þeir sem yfirskips eru allan hinn sama formála. Þó það megi vel vera að þetta sé nú gjört meir af gamni en alvöru þykir þó mega ganga að því vísu að slíkt séu leifar af hinni fornu trú á landvætti Drangeyjar og siður þessi hafi haldizt frá aldaöðli eða þá að minnsta kosti frá því er þar urðu slysfarirnar miklu sem fyrr er getið áður en Guðmundur biskup vígði eyna.