Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Upptök Drangeyjar (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Upptök Drangeyjar

Í Þórðarhöfða í Skagafirði sem hefir 150 faðma háa sjóarhamra bjuggu forðum kall og kelling sem voru nátttröll, og áttu þau eina kú sér til bjargar. Eitt sinn bar það til eina nótt að kýrin var yxna, en þá var ekki naut við hennar hæfi nær en í Tindastól hinumegin fjarðarins. Fóru þau þá á stað með kúna og óðu skemmstu leið yfir fjörðinn, en það er um fjórar vikur sjóar, og héldu henni undir bolann úr Tindastól. Héldu þau svo aftur sömu leið til baka. En þegar þau voru valla komin á miðjan fjörð dagaði þau uppi, og urðu þau þá að steini á firðinum og kýrin með og sjást þau þar öll enn í dag. Kýrin er Drangey, en kallinn stendur norðan við hana, en kellingin sunnan og vestan til.