Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Vígð Drangey (1)

Úr Wikiheimild

Drangey liggur hér um bil á miðjum Skagafirði nema hvað hún er miklu nær vesturlandi en austurlandinu. Hún er svo nefnd af því að drangar tveir standa sinn hvorum megin við hana, annar fyrir utan eyna og er sagt að hann sé nú að mestu hruninn fyrir hér um bil 80 árum, en hinn fyrir sunnan hana, og greina þá báða mjó sund frá megineynni. Eyjan sjálf er eins og drangarnir vegghamar einn og er það 100 faðma hátt standberg þar sem það er hæst, sumstaðar ofan í sjó, en sumstaðar með fjöruborði nokkru undir niðri, t. a. m. að vestanverðu. Hvergi verður upp komizt á eyna sjálfa stigalaust eða vaða sem bæði er kunnugt af Grettis sögu og eins má ráða af fyrr sagðri hæð á berginu. Þegar upp er komið er eyjan ákaflega grösug og svo víðáttumikil að hún er talin jafnstór túninu á Hólum í Hjaltadal, en það á að vera 96 dagsláttur.[1] Ekki hafa menn nú orðið aðrar nytjar grassins á eynni en þær að þeir sem hana eiga setja í hana fé til hagagöngu á haustin, og gengur það þar af allan veturinn ef ekki er því harðari, enda ber nes eitt á eynni gegnt landsuðri nafn af því og heitir Lambhöfði. Enginn hefur að staðaldri átt byggð í Drangey síðan þeir Grettir voru þar, enda er hún að sumu leyti ekki mjög byggileg þar sem þar er mjög eldiviðarlítið nema það eitt er af sjó rekur. Allt að einu er eyjan ekki kostalaus og því er þar mjög fjölmennt á vorum; þá gjöra menn sig út þangað bæði til fuglaveiða sem þar er óþrjótandi í berginu og umhverfis eyna, og einnig til fiskiróðra.

Áður en Grettir kom í Drangey var hún almenningur, en eftir það hann var drepinn (1030 hér um bil) komst hún undir biskupsstólinn á Hólum í Hjaltadal, og höfðu því Hólabiskupar mest umráð yfir eynni og mestar nytjar af fugli og fiskiafla. En ekki var fuglatekjan annmarkalaus í þá daga því Drangey lítur út sem fyrr segir eins og sæbrattur klettur upp úr sjónum á allar hliðar hvar sem á er litið. Framan af meðan hér á landi voru fullhugar og ötulir aflamenn sigu þeir mjög í bergið og sáust lítt fyrir enda var þá fuglatekjan ólíkt meiri en nú, og urðu tíðum að því ógurlegir mannskaðar og slys; fórust menn úr vöðum og sigum, sprungu á niðurfallinu, lentu á klettum svo hvert bein mölbrotnaði. Þess þóttust menn og brátt vísir verða að jafnt fórust þeir úr berginu sem góðar festar höfðu og hinir sem lakari vaði höfðu, og þótti það ekki einleikið; voru festar þeirra þverkubbaðar sundur er upp voru dregnar eins og þær væru annaðhvort höggnar sundur með exi eða skornar með öðru eggjárni, og ekki var trútt um að mönnum heyrðist ekki högg í berginu rétt áður en menn fórust úr festum og í því festarnar fóru í sundur. Lagðist því það orð á að þeir einir mundu í berginu búa sem ekki vildu að landsmenn drægju allan afla úr höndum þeim og þóttust eiga eyjargagnið eins vel og aðskotadýrin.

Við manntjóni þessu vannst engin líkn langan tíma og var svo komið að menn voru heldur farnir að heykjast á að fara eins almennt til eyjarinnar og fyrst hafði tíðkazt sökum mannskaða þeirra er þar urðu. Leið svo þar til Guðmundur góði Arason varð biskup á Hólum. Guðmundur biskup var sem kunnugt er af sögu hans nytsemdarmaður mikill með yfirsöngvum og vígslum og vann með því löndum sínum löngum líkn og bót margra meina og réð af margar illar vættir. Guðmundur biskup var góður við snauða menn, og tók hann þá bæði marga heim á staðinn þegar hann sat þar og hafði jafnan margt af þeim heim með sér er hann reið um land. Af þessu varð stundum vorsníkja hjá honum á staðnum og þurfti föng til að fá hvar sem fást máttu. Hann lét menn sína sækja mjög til Drangeyjar á vorum bæði til fiskifanga og fuglatekju, og fór brátt að bera á því að vættir þeir er á eynni voru gengu eins í berhögg við biskupsmenn sem aðra og urðu af því mannskaðar stórir.

Biskupi er sagt til hvern mannskaða hann líði við eyna og ræður hann það þá af að hann fer til eyjarinnar með klerkalýð sinn og vígt vatn. Í Uppgönguvík er steinstalli nokkur sem lítur svo út sem hlaðinn væri og er hann kallaður Gvendaraltari. Þegar biskup steig af skipsfjöl segja menn að hann hafi sungið messu og haft þenna stalla fyrir altari, en aðrir segja að hann hafi aðeins gjört þar bæn sína; þeim sið halda menn og enn í dag að enginn fer sá upp á Drangey eða ofan af henni að hann gjöri ekki bæn sína við stalla þenna. En að því búnu fór hann til og vígði eyna og byrjaði nokkuð fyrir norðan Hæringshlaup útsunnanvert á eynni þar sem byrgin eru nú niður undan og hélt vígslunni fram til hægri handar eða andsælis jafnt uppi sem niðri og þar með fram á sjó sem hann komst ekki undir í fjörunni og svo einnig með því að síga niður í bergið og fór þannig umhverfis alla eyna með yfirlestrum og söngvum og vígðu vatni og klerkar hans með honum. Ekki er þess getið að hann hafi neinstaðar orðið neinna meinvætta var fyrr en hann var kominn vestur fyrir norðurhorn eyjarinnar að Uppgönguvík aftur. Þar seig hann í bergið sem víðar og er hann er kominn svo langt niður sem honum þótti hæfilegt byrjar hann þar sem annarstaðar vígslu og yfirlestra. En er hann hefur litla stund lesið kemur loppa ein stór bæði grá og loðin með rauðri ermi út úr berginu og heldur á stórri skálm og biturlegri er hún bregður á festina sem biskup var í og tekur hún þegar í sundur tvo þætti festarinnar; en það vildi biskupi til lífs að skálmin beit ekki á þriðja þáttinn því hann var þaulvígður. Í því heyrir biskup rödd úr berginu segja: „Vígðu nú ekki meira Gvendur biskup; einhverstaðar verða vondir að vera.“ Lét biskup þá taka upp festina og sjálfan sig í og sagðist ekki mundi vígja það sem eftir var bergsins þaðan til Byrgisvíkur, en kvaðst ætla að allt sem þá var vígt mundi hvorki verða sínum mönnum né öðrum að meini þaðan af, og hefur það þótt rætast til þessa. Kafli sá sem Guðmundur biskup skildi við óvígðan af berginu er óvígður enn í dag og heitir hann síðan Heiðnaberg og segja menn að þar sé fuglinn langmestur í öllu Drangeyjarbjargi, og er sú trú enn á að menn sígi trautt í Heiðnaberg.

Það beit snemma illa á landvættir að Guðmundur biskup mundi verða þeim þungur í skauti. Eftir það Brandur biskup Sæmundsson dó (1201) var tröllkona ein stödd á Fljótahorni fyrir norðan; hún kallaði til annarar tröllkonu, sem stóð á Strandhala, og sagði með feginsrómi svo hátt að heyrðist um öll héruð er milli liggja: „Nú er Hólabiskupinn dauður.“ En tröllkonan á Strandhala svaraði: „Sá kemur aftur sem ekki er betri, og það er hann Gvöndur.“

  1. Ferðabók Eggerts og Bjarna getur þess að Drangey sé 400 ferhyrningsfaðmar ummáls ofan, en eigendurnir segja að hún gefi af sér jafnmikið hey og 72 dagsláttur.