Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Valbrá huldustúlka

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Valbrá huldustúlka

Hér um bil tuttugu árum eftir næstliðin aldamót [1800] var vinnumaður að nafni Eyjólfur í Breiðdal austur. Eitt kvöld í tunglsljósi um vetur gekk hann frá Jórvík og suður að Ánastöðum, aðrir segja Flögu. En er hann var kominn yfrá eyrarnar sér hann hvar kallmaður og kvenmaður koma og stefna í veg fyrir hann; en hann gefur engan gaum að þessu og hugsar þetta séu menn frá einhverjum bænum inn í dalnum. En sem hann hugsar um þetta eru þau komin fast að honum. Sér hann þá að þetta eru ei mennskir menn, heldur nokkurs konar bergbúar. Stúlkan kastar kveðju á Eyjólf. Hann tekur því og spyr hana að nafni. Hún kvaðst heita Valbrá; – „eða hvert ertú giftur maður?“ „Hvað er þér því?“ mælti Eyjólfur. „Ég atlaði að biðja þig,“ mælti hún, „að fara til mín.“ „Það vil ég ekki – og get ekki,“ mælti hann; „eður hvar áttu heima?“ „Í innsta gili á Hamarsdal,“ mælti stúlkan. Biður hún hann þá ósköp vel að fara til sín þangað og eiga sig; segir líka hann skuli mega halda trú sinni og öllu frelsi. En Eyjólfur þverneitar bæn hennar. Kallinn faðir stúlkunnar stóð gegnt þeim og hlýddi á samtal þeirra; sýndist Eyjólfi hann nú orðinn þykkjulegur. Þá mælti karl: „Skiptum ei lengur orðum við hann. Skal ég drepa hann og launa þannig fyrir þig, dóttir mín!“ Hún bað hann ei gjöra slíkt. „Segist þessi maður vera trúlofaður og er þá ei von hann gjöri þetta fyrir mig,“ og ennfremur mælti hún til Eyjólfs: „En ef þú lýgur þessu að mér skaltu sjálfan þig fyrir hitta.“ Bað hún þá föður sinn að víkja burt með sér, en karl var orðinn hinn reiðasti og réðst þegar á Eyjólf. Varð þeirra aðgangur hinn harðasti því hundur Eyjólfs réð líka á karlinn og reif hold úr kálfum hans og um síðir gekk Eyjólfur af karli dauðum; var þá og hundurinn dauður af völdum kalls. Var Eyjólfur svo máttfarinn að hann naumast gat hreyft sig, en sneri þó til næsta bæjar og sá það seinast til Valbráar að hún bar föður sinn dauðan burtu hrygg í huga. Og er Eyjólfur kom til bæjar sagði hann frá þessum atburði, en menn trúðu honum ei og fóru morguninn eftir að tilvísan hans þangað sem þeir áttust við. Fundu menn þar hundinn dauðan og sáu mjög mikið traðk og víða blóð í því, því lognsnær lá á jörðu. Þótti mönnum þetta sanna sögu Eyjólfs. En frá honum er það sagt að hann lá nær allan þann vetur og varð aldrei síðan jafnhraustur, og um vorið þótti viðkomandi yfirvaldi nauðsyn til bera að koma honum í hjónaband. Var þá fengin kvenpersóna handa honum og þau strax saman vígð. Hún hét Sunnefa. Buggu þau á Krossi á Berufjarðarströnd lengi síðan. En Valbrá vitjaði hans aldrei eftir þetta.