Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Veiðimanna þáttur

Úr Wikiheimild

Snið:Header Bjarni er maður nefndur Jónsson; hann bjó á Húsafelli í Borgarfirði. Hann lagði sig í æsku til veiðiskapar á Arnarvatnsheiði og hafði fyrir lagsmann gamlan karl að nafni Þórhalla og fór með honum á hausti hverju fram á fjall að veiða á dorg.

Einn dag þá Bjarni hafði leitað víða um tjarnirnar fór hann til skála þeirra að kveldi og beið svo lengi á nótt fram eftir lagsmanni sínum. Heyrði hann dunur miklar og hark úti hvað hann lét sig ekki hræða. Loks kom Þórhalli inn blár og blóðugur. Bjarni spyr hvað burtveru hans og býsnum hann heyrði ollað hefði. Hann kvað tröllkarl hafa komið og viljað taka af sér veiði sína og haft í hótum að drepa sig ef hann neitaði, en sagðist hafa varið veiðina með brunnvökunni, sært tröllið og ráðizt síðan á það og að lyktum sigrað það og drepið. Framar mælti hann: „Þú þarft ei að undrast þó kerling hans komi einhvern tíma að hefna bónda síns og glími við þig.“

Nokkrum árum síðar deyði Þórhalli karl, en Bjarni gjörðist foringi veiðimanna og hafði marga félaga. Eitt haust mæltu þeir mót með sér hvenær fara skyldi til veiðiskaparins, en þann dag var veður váligt[1] svo þeir fóru hvergi. En sem á daginn leið batnaði veður; tók þá Bjarni sig að heiman og meinti að félagar sínir mundu koma; hélt svo áfram til fiskiskálans. Var þá enginn þeirra þar kominn. Tók hann þá af hestum sínum, bjóst um í skálanum, kveikti eld og mataðist, lagðist síðan til svefns, og jafnskjótt sem hann sofnar heyrir hann dunur og hark mikið og virtist honum sem skálinn myndi ofan hrynja, og það svo hastarlega að hann fékk naumlega tíma til að rísa á fætur. Ekkert hafði hann vopna utan ísbroddstaf sinn; grípur Bjarni hann og minnist nú forspá Þórhalla karls og hleypur út í dyrnar að verja sig. Sér hann þá hvar tröllkona stígur stórum að dyrunum, og sem hún sér hann með broddstafinn í hendi verður henni hverft, snerist við, rétti bakhlutann á móti dyrunum, leysti vind og hugði að kæfa hann með óþefan þeirri. Bjarni fann þessa banvænu fýlu, gekk fram og eggjaði skessuna til einvígis, en hún óttaðist fleininn og fór undan. Elti hann hana þess ákaflegar um auðn og sanda sem hún hvataði meir undanhaldinu þar til hann skaut broddinum milli herða henni svo hann gekk á hol, en hún deyði. Bjarni tók stafinn úr sárinu, sneri heim til skála síns og varð ei svefnsamt það eftir var nætur, tók sig upp að morgni og fór heim í byggð til fylgjara sinna. Bjarni þessi var skáld og kvað margt ýmislegt, og lýkur svo frá honum að segja.

  1. Aðrir: ósýnt.