Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Vermennirnir og álfabiskupinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er upphaf þessarar frásögu að vestur í Dýrafirði var einu sinni haldið til vers sem vanalegt er; þetta var um vetrartíma. Þar eru tveir menn nafngreindir; þeir voru af innstu bæjum í firðinum. Hét annar Jón, en hinn Sigurður. Þeir vóru vinir og báðir bláfátækir, en ágætlega vel að sér, einkum Sigurður; hann var bæði mesti námsmaður og dyggðugur eftir því. Þess er getið að vermennirnir tóku sér náttstað á nærliggjandi bæjum, en Sigurður hvarf í fyrsta sinn þegar róið var, strax þegar búið var að setja skipið, en þegar lagsmenn hans komu í fjöruna morguninn eftir þá var Sigurður þar fyrir. Þeir spurðu hann hvar verið hefði um nóttina. Sigurður kvað það öngvu skipta. Svona gekk á hverju kveldi hvursu vel sem þeir höfðu gætur á honum að aldrei vissu þeir hvað af honum varð. En á hvurjum morgni er þeir komu til skips var Sigurður þar fyrir. Þeir sögðu við Jón að þar Sigurður væri vinur hans mundi hann segja honum sannleikann ef hann spyrði hann að því, – „og skaltu þá segja okkur aftur það er þú verður vís.“

Það var eitt sinn er þeir Jón og Sigurður eru tveir sér, þá spyr hann Sigurð hvar hann sé á nóttunni og biður hann jafnvel að lofa sér að vera þar sem hann er eina nótt. Sigurður tekur því fálega. Þó er það eitt kvöld þegar verið er að setja skipið að Sigurður segir við Jón að hann skuli halda sér við sig meðan verið er að gjöra gott aflanum ef hann vilji fara með sér. Jón gjörir það og þegar allt er búið fer það sem vant er að þeir hafa augun á Sigurði sem mest þeir geta, en Jón er fast við hliðina á honum. Bregður þá Sigurður hendi yfir Jón og gengur suður eftir sandi því uppsátrið var í krók norðan megin við fjarðarbotn, og þegar Jón sér það flýtir hann sér á eftir honum. Þykist hann vita að nú muni enginn sjá þá. Sigurður gengur undan, en Jón eftir, þar til þeir koma hinumegin í krókinn og þar út með háum klettum nokkra stund þar til Sigurður stendur kyrr og tekur upp hjá sér sprota og klappar á bergið. Óðar opnast dyr á klettinum og stúlka fríð og góðmannleg kemur fram í dyrnar. Sigurður heilsar henni. Jón hugsar með sér að betur muni fara að hann heilsi henni líka, Hún tekur kveðju hans þægilega. Síðan gengur Sigurður inn fyrir dyrnar, en hún tekur annarri hendi í hurðina eins og hún ætli að láta aftur, en lítur til Jóns eins og hún gefi honum bending að koma; svo hann gengur inn, en hún skellir aftur og hurðin fellur við bergið svo ei sjást nývirki. Sér hann sig kominn í þiljað hús sem þau Sigurður ganga eftir. Jón gjörir sig djarfan og fylgir þeim eftir. Hún gengur að hurð sem hún lýkur upp sem þau fara inn fyrir og hún lítur til Jóns svo hann kemur á eftir, og með það er skellt aftur. Svo kemur önnur og þriðja hurð er þau fara inn fyrir og Jón á eftir og svo kemur fjórða hurð sem þau hraða sér inn fyrir, en Jón verður eftir fyrir framan og hurðin skellur aftur.

Jón hugsar með sér að þetta eigi að verða sinn náttstaður og þykist nú illa staddur að vera svo inniluktur í þessum hamrasölum og eiga kannske aldrei þaðan lausnar von. Hann þreifar fyrir sér og finnur ofurlitla rifu, leggur svo þar við eyrað hvurt hann heyri ekkert og heyrir hann nú mannamál, leggur nú augað við rifuna og sér í ljósbirtu og í stórt hús allt þiljað í hólf og gólf. Situr þar Sigurður öðrumegin við borð og stúlkan að taka af honum sjófötin. Hinumegin við borðið situr gamall maður, fríður og höfðinglegur svo hann hafði ekki slíkan séð, með gleraugu á nefi og stór bók lá á borðinu frammi fyrir honum. Hann var brosleitur að tala við Sigurð. Matur var á borði sem Sigurður var að éta, en þegar hann hætti því stóð hann upp og kyssti gamla manninn. Síðan tók stúlkan í hendina á honum og leiddi hann í burtu. Eftir það sá Jón engan í húsinu nema gamla manninn sem fór að lesa aftur í bókinni. Jón stendur þarna og virðir hann fyrir sér, en allt í einu lítur gamli maðurinn upp úr bókinni og Jóni virðist hann horfa beint á sig, kallar nokkuð hátt og spyr hvurt stúlkur séu þar; kemur ein strax hlaupandi og spyr hvað hann vilji. Hann segir það sé ljótt að mannskepnan standi einn frammi, – „og skaltu,“ segir hann, „fylgja honum hérna inn.“ Stúlkan lýkur upp og heilsa þau hvurt öðru og hún leiðir hann inn að borðinu. Jón heilsar gamla manninum; hann tekur því vel og segir: „Seztu þarna mannskepna og éttu svo sem þú vilt því þér er það óhætt eins og þú værir heima hjá þér.“ Jón þekktist það; þar var nógur matur og góður og át hann sig saddan og þakkaði svo matinn. „Þig sakar ekkert,“ segir gamli maðurinn, „og notaðu þér næturgreiðann og berðu þig að sofa vært.“ Síðan bauð hann Jóni góða nótt, en stúlkan tekur í hendina á honum og leiðir hann burt með ljós í hinni hendi, lýkur upp hurð á þilinu og leiðir hann þar um göng nokkurn spöl þar til hún gengur í enda á stóru húsi, víkur honum til hliðar í húsinu og að rúmi og segir: „Þarna áttu að leggja þig út af.“ Hann stígur upp á skör og sezt framan á rúmið, en hún setur ljósið á hillu upp yfir dyrunum og fer að draga af honum sjóklæðin, fær honum aftur þurra sokka og bendir honum til að leggjast út af upp í rúmið, tekur síðan ljósið og fer fram með fötin á handleggnum. Síðan leggur Jón sig upp í rúmið og finnur að þar er maður fyrir; hann hafði, meðan ljósið var, litið um húsið og sá tuttugu rúm, sín tíu með hvurri hlið; honum þótti það mikið hús. Liggur hann vakandi og kunni ekki við sig. Hann heyrir að maðurinn sefur vært fyrir ofan sig.

Líður so og bíður þar til Jón heldur að komið sé undir dag; þá vaknar rekkjunautur hans og fer ofan á gólfið til þarfinda sinna og svo upp í rúmið aftur. Hann talar til Jóns og segir: „Ég trúi þú getir ekki sofið lagsmaður, þér er það þó óhætt, þú þarft hér ekkert að óttast. Viltu ekki ég vaki þér til skemmtunar það sem eftir er nætur?“ Jón segir: „Vandi mun mér að neita því.“ Hinn segir: „Þú munt þykjast illa staddur að vera kominn hér, en ekkert illt muntu þó af því hafa og hefur heldur ekki hugsað það þegar þú varst að þrábæna Sigurð stallbróður þinn að lofa þér með sér, því þó þú ímyndir þér kannske að þú ættir að vera hér alla ævi mundirðu einkis í sakna, hvað ei verður líkt því; þú ferð héðan á morgun og átt ekki hingað afturkvæmt þó vildir, því biskupinn gjörði það einungis af góðmennsku sinni að lofa þér að vita hvar vinur þinn væri. Og skal ég nú segja þér að gamli maðurinn sem sat með bókina við borðið er biskup okkar og á hann nú skammt eftir ólifað. Stúlkan sem fylgdi ykkur inn er hans eina barn. Ætlar hann að gifta Sigurði hana og kenna honum og vígja hann svo til biskups áður en hann deyr.“ Þá segir Jón: „Það læt ég nú vera, hann Sigurður sem ekkert á, ekki fötin upp á sig.“ „Þetta þekki ég vel,“ segir hinn, „svona láti þið, að fara eftir auði, ættum og útvortis atgervi, það er nú ólíkt biskupinum okkar. Hann þóttist líka nógu auðugur þó hann bætti ekki við; hann er svo ríkur að enginn á landinu sem þú þekkir er eins ríkur og hann; fyrir utan hans mikla lén þá sækir óvenja að úr mörgum sveitum til sjóróðra; hér í þessu húsi eru fjörutíu menn og eru allt gestir; það eru vermenn og tekur biskupinn þá alla á sinn kost árlega. Þeir fá þess slags mat á hvurju kvöldi svo sem þeir vilja eins og þú fékkst í gærkvöld, en pottkanna af nýrri kúamjólk hjá hvurjum manni sem hann drekkur áður fer á sjóinn á morgnana; þeir vilja ekki annað. Tíu kvenmenn heldur hann til að þjóna þessum mönnum; þær vaka á nóttunni til að þvo og þurrka föt þeirra og fá þeim þau þurr og hrein á hvurjum morgni. Fyrir þetta allt tekur biskupinn hlut af hvurju skipi, hvurt sem aflast mikið eða lítið, og lætur hann það vera sinn skaða og geturðu því nærri að það stappar lítið við hinu þar sem eru sex til níu menn á hverju skipi.“ „Það er satt,“ segir Jón, „í öðru eins óskapa aflaleysi eins og núna er.“ „Guð fyrirgefi þér,“ segir hinn, „að kalla aflalaust núna þar sem við næstum hlöðum á hvurjum degi; það er ekki fyrir það að þú segir þetta satt um ykkur; það er grátlegt að sjá hvurnig þið látið; þið róið um sjóinn og rennið ekki nema í vissum stöðum, en við rennum hvar sem verða vill þegar komið er út á dýpið og öflum við alténd; nú og oftar er svo aflafar að fiskur er um allan sjó. Þið haldið að aflinn kunni ekki að vera eins og féð um fjöllin, það dreifir sér þegar gott er, en í ófærum veðrum kann það að draga sig saman. Þó er þar ekkert upp á að ætla frekar en aflann.“ Jón segir: „Ég get naumast trúað því sem þú segir mér um hann Sigurð, að hann skuli eiga að verða eigandi að öllum þeim auðæfum sem mér skilst að hér muni vera og þar að auki biskup.“ „Það er þó satt,“ segir hinn. „Nú var hann þó vistaður á bæ í Önundarfirði,“ segir Jón, „og fer þangað í vor.“ „Við vitum það,“ segir hinn, „svo er ráð fyrir gjört að hann gangi úr vistinni daginn fyrir krossmessu með þessar litlu tuskur á bakinu sem hann á í eigu sinni, og kemur aldrei til skila. Verður síðan safnað mönnum og leitað, en ekki lengi því bráðum finnst dulubagginn og stafurinn hans í brotum neðan undir klettunum og verður þá haldið að hann hafi farizt þar og hætt leitinni.“ Jón segir: „Mér þykir ætla að verða munur á láninu okkar stallbræðranna.“ „Hvað ert þú,“ segir hinn, „að tala um lánleysið þitt þar sem þú verður mágur hans Ögmundar ríka á Sæbóli og eigandi að öllum auðnum hans?“ „Það er nú víst ætlað öðrum en mér,“ segir Jón. „Því tekurðu af þessu,“ segir hinn, „þú heldur kannske ég viti það ekki, en ég skal þá segja þér rök til þess. Að fimm árum liðnum þá ræðstu til Ögmundar fyrir vinnumann; verður ukkur þá vel á milli Þórunni dóttur hans og þér og svo fer að þú átt barn með henni, og verður bóndi illur við fyrst, en fyrir það að þú kemur þér vel og hann vill ekki missa þig af bænum og hún stöðug og trygg við þig þá verður það úr að þú giftist henni. Tveim vetrum þar eftir deyr Ögmundur og takið þið Þórunn þá við eigum hans öllum sem eru miklar því hann á tíu jarðir í Önundarfirði og skip vel útbúið og of lausafjár.“ Jón segir: „Ég trúi því nú naumast að þetta lán liggi fyrir mér.“ „Það verður nú samt,“ segir hinn, „en þvílíkt lán og Sigurður hlýtur gat þig ekki hent því þú hafðir ekki gáfur til þess.“ Jón segir: „Það var mikið að biskupinn skyldi heldur velja Sigurð til þessa heldur en einhvurn úr ykkar flokki.“ Hinn segir: „Það bar til þess að hann vissi valla eins dyggðauðugan mann og Sigurður er, því hann fer mest eftir því, en ekki auð og áliti eins og þið.“ Jón segir: „Þetta ætlar að verða mér skemmtilegri nótt en ég gat ímyndað mér.“ Hinn segir: „Betur væri það ef þú værir hjá okkur lengur.“ Jón segir: „Það er mikið að þið huldumenn vitið óorðna hluti, en við vitum ekkert.“ Hinn segir: „Þið eru sjálfir skuld í því. Öllum var gefinn jafn vísdómur í upphafi, en þegar fólkið aðskildist þá héldum við og höldum enn við sömu siði og kennum það nákvæmlega börnum okkar og útbreiðum meðal allra, en þið hafi verið svo einrænir að hvur hefur haft sína kreddu og ekki viljað kenna öðrum og því er allur forn vísdómur dáinn út hjá ykkur.“ Jón segir: „Mér er forvitni á að vita hvenær fólkið aðskildist sem þú talar um.“ Hinn segir: „Ég segi þér það sem mér var kennt og þér er óhætt að trúa að eitt sinn þegar Adam var að róta jörð og erfiða sig þreyttan, en Eva var heima við aðsetur þeirra með börnin, voru fimmtán úti hjá henni og eins mörg inni. Þá birtist drottinn henni og spurði hana hvurt þetta væru öll börnin þeirra, en hún fyrirvarð sig hvað mörg hún var búin að eiga og sagði: „Já.“ Þá sagði drottinn: „Það sem þú vilt hylja fyrir mér nú, það skal verða hulið og þeirra afkomendur fyrir hinum og þeirra afkomendum til dómsdags.“ Síðan hefur drottinn skýlt okkur í jarðarinnar fylgsnum og jafnt ykkur hefur guð sýnt okkur miskunn og erum við Messías endurlausnar aðnjótandi eins og þið. Margt af ykkur trúir ekki að við séum til sem okkur stendur á sama, en vara skylduð þið ykkur á því að tala okkur illa til, því það er heimskulegt að tala illa um það sem ekkert er. En það áttu öngum að segja að þú hafir hjá okkur verið þessa nótt, en breytir þú af því verður það þitt ólán, en eftir þig dauðan máttu láta það liggja ef þú vilt.“

Að þessu töluðu heyrir hann umgang og sér ljósbirtu leggja og með það koma inn tíu kvenmenn og hefur hvur fatabagga á handlegg og með þrjú ljós komu þær. Með það rísa tveir menn úr hverju rúmi og lízt honum vel á allt fólkið. Sú sem fylgdi honum til rúms kvöldið áður kom nú og fékk honum föt sín þurr og hrein og hafði hún gert við saum á buxum hans og fest hnapp á þær. Allir klæddu sig fljótt og gengu út eftir að þeir höfðu drukkið mjólkina. En Jón og rekkjunautur hans urðu lítið eftirstanza; tekur hann þá könnu og drekkur og býður Jóni líka og segir hann muni ekki verða of fullur í kvöld og drakk Jón vild sína. Síðan gengu þeir fram og leiðir hann Jón með sér. Jón segist ekki kunna við að þakka ekki biskupinum fyrir næturgreiðann. Hinn segir það á öngvu ríða, „því hann ætlast ekki til þess,“ fara síðan sama veg út og þeir fóru inn um kvöldið. En þegar hann kom út hvarf honum maðurinn og sá hann þá ekki annað en klettana og fjörugrjótið, en heyrði bæði áraglam og mannahjaldur. Stóð hann svo litla stund undir klettunum og langaði til að tala við þá og finna aftur. Veit hann þá ekki fyr en Sigurður stendur hjá honum og gengur hann þegjandi af stað. Jón hugsar að bezt muni fyrir sig að fara á eftir honum, og fara þar til þeir koma að skipunum. Bregður þá Sigurður hendi yfir hann og þykist Jón vita að þeir muni vera sýnilegir. Sigurður segir: „Láttu nú öngvan vita af þessu hvurnig sem þú verður spurður.“ Í því þustu vermenn að heldur brosleitir. Svo var róið um daginn sem vant var, en um kveldið fer sem vant er, að Sigurður hverfur þegar aðra minnst varir, en Jón stendur eftir. Fara þá vermenn að spyrja Jón, en það er til einskis því hann sagði hvurt það mundi vera ómögulegt að hann hefði sofið undir steinunum á naustunum, „en um Sigurð segi ég ekki eða veit meir en áður“.

Líður svo af vertíðin að ekki ber til frétta. Fór eins um Sigurð um krossmessuna og áður er sagt og eins fyrir Jóni og honum hafði verið spáð að hann varð næsti bóndi á Sæbóli og þótti Þórunn og hann merkishjón á sinni tíð. Stóð bú þeirra með blóma þó þau gæfi á báðar hendur. Jón hélt út skipi því er Ögmundur hafði átt og aflaði ætíð, oft þar sem ólíklegast þótti því hann hafði ráð ljúflingsins að renna hvar sem fyrir varð. Varð hann gamall bóndi og að honum látnum fannst þessi saga í bréfarusli hans og er hún hér með enduð.