Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Yfirsetukonan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Yfirsetukonan

Litlu fyrir síðustu aldamót bjó í Landeyjum á bæ þeim er Kúhóll heitir bóndi sá er Sigurður hét; hann átti konu þá er Signý hét, þessi kona var yfirsetukona þar í sókninni. Svo bar til eitthvört sumar að Sigurður bóndi átti bæði illt og lítið hey.

Svo bar til eitt kvöld öndverðan vetur að þau hjón voru nýháttuð; þótti konunni sem maður kæmi að rúmstokknum. Þessi maður biður hana koma fljótlega á fætur, en talar þó fremur lágt. Konan spyr hvað hún eigi að vilja. Komumaður svarar hún eigi að hjálpa konu sinni sem liggi á barnssæng og sé harðlega haldin, en vegurinn sé ekki langur og muni hún verða skamma stund. Konan kveðst þá verða að vekja Sigurð svo hann viti af burtferð sinni. Komumaður kvað þess ei þurfa því vegurinn sé máske skemmri en hún ætli. Síðan býst konan með manninum og tekur skæri sem hún var vön að hafa þegar hún fór í þess konar ferðir.

Þau ganga síðan út, en skammt út í túninu var hóll nokkur; þangað stefnir maðurinn. Þegar þangað er komið opnast hóllinn og þar gengur hinn ókunni maður inn og konan eftir hönum. Þar eru þokkaleg hús og þar liggur kona á sæng, mjög hart haldin. Börn eru þar tvö nokkuð stálpuð. Signý fer nú að hjálpa konunni og gengur það vel og fljótt. Þegar barnið er komið biður Signý bónda að hita laugarvatn. En sængurkonan kvað þess ei þurfa, heldur skyldi hún fara eins með barnið og hún færi með kálfana hjá kúnum sínum; lét Signý þá barnið undireins í faðm móður sinnar, og sagði þá húsbóndinn að hún þyrfti nú að flýta sér heim svo hún kæmi áður en Sigurður bóndi hennar vaknaði.

Síðan fylgdi maðurinn henni út og heim að bænum. En á leiðinni sagði hann við Signýju: „Ég get fátækar vegna ekki borgað þér ómakið, en þó skal ég sjá svo um að þó þú eigir bæði slæmt og lítið hey þá munu kýrnar þínar bæði þrífast sæmilega og mjólka ekki verr en vant er.“ Síðan skildu þau; fór konan inn og háttaði hjá bónda sínum.

Bóndi vaknaði og spurði þá konu sína hvört hún hefði farið. En hún kveðst hvörgi hafa farið. Bóndi segir að hún hafi ekki verið í rúminu nokkra stund og þar til séu skórnir hennar snjóugir og biður hana satt segja. Hún synjar að hún hafi nokkuð farið, en dreymt hafi sig draum, og segir hvað fyrir sig hafi borið. Bóndi trúir ekki þessu og biður hana að ljúga ekki að sér. Þá segir Signý að hún minnist þess að þegar hún skildi á milli í svefninum þá hafi hún stungið skærunum blóðugum í vasa sinn og muni þau bera vitni, hvört hún hafi nokkuð farið. Síðan leitar hún í vasa sínum, og þar finnur hún blóðug skærin; trúði þá bóndi sögu hennar.

En svo hefur Signý sagt frá að aldrei hafi hún fengið jafnmikinn og góðan ávöxt af kúnum sínum eins og þann vetur. Segja þeir svo frá sem þekktu Signýju að hún hafi verið fámælt og siðsöm og þykir því víst að saga hennar sé sönn.