Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Gyðingurinn gangandi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Gyðingurinn gangandi

Það var Gyðingur einn sem hét Assverus. Hann var eins og fleiri staddur við krossfestingu drottins vors Jesú Christi og hrópaði með öðrum þessi orð fyrir Pilato: „Krossfestu hann, en gef Barabam lausan.“ Þessi Gyðingur er sagt að hafi aldrei komizt inn í borgina Jerúsalem eftir að drottinn var krossfestur né heldur fundið eftir það konu sína eða börn, en ávallt síðan verið á gangi, og lifi hann allt til þessa dags, hann hafi sézt í ýmsum stöðum og þar á meðal í Hamborg 1599 og dvalið þar nokkurn hluta vetrarins. Á Íslandi hefur hann einnig sézt, en mjög er það sjaldan. Af þessu ferðalagi er hann kallaður „Gyðingurinn gangandi“ því ávallt er hann gangandi og er hann nú genginn upp að knjám. Hann hefur staf í hendi og mal einn lítinn um öxl.

Söguskrifarinn segir þessi rök til göngu Gyðingsins: „Paulus, lærifaðir heilagrar skriftar og biskup í Danzig, kjörinn þar til af hertoga Adolp(h)o, hefur sagt mér og öðrum stúdentum að í æsku sinni þegar hann var í skóla og til náms settur í Guttenborg hafi hann eitt sinn um veturinn 1542 ferðazt til Hamborgar á fund foreldra sinna og næsta dag efti hafi hann þá séð einn mann [næst prédikunarstólnum,[1] furðanlega stóran með síðu hári á herðar niður, bólginn á fótum. Hann hafi hlýtt prédikuninni með miklu athygli og aldrei hafi hann frá henni hvarflað, og í hvert sinn sem Jesús hafi verið nefndur hafi hann beygt kné sín, barið sér á brjóst og andvarpað þunglega. Engin föt hafi hann haft þann vetrartíma sem hann var í Hamborg nema eina hökulsokka og hempu á kné niður og kápu síða, og hann hafi verið álits sem hann væri fimmtugur að aldri eða því nær. Af því Paulus segist hafa undrazt vöxt hans, klæðaburð og athöfn segist hann hafa grennslazt eftir hjá öðrum hver þessi maður væri eða hvernig hans efnum væri varið, og hafi sér verið sagt að þessi maður hefði dvalið þar nokkrar vikur fyrrgreindan vetur og látið á sér heyra að hann væri fæddur í Jerúsalem og uppalinn á Gyðingalandi, héti Assverus og hefði sjálfur persónulega verið við Christi krossfestingu; en frá þeim tíma og allt þar til þá var komið hafi hann farið um mörg lönd og kóngaríki, einnig til Tyrkjanna, að sanna sögu þessa. Þar með kunni hann og að gjöra glögga grein á því sem hvorki guðspjallamennirnir né sagnameistararnir neitt um skrifa, lútandi að því sem við hefði borið þegar Kristur var fangaður og hafður fyrir Pilatum og síðast krossfestur, svo og marga þá atburði sem orðið höfðu í löndum og lýðastjórnum í austurálfu heims nokkrum hundruð árum eftir Christi pínu, svo og um postulana hvar hver hefði verið, prédikað og kennt og hvernig þeir hefðu síðast verið líflátnir. Þessi Paulus undraðist þetta næsta mjög og leitaði því færis að ná Gyðing þenna tali og þegar honum tókst það um síðir hefur Gyðingurinn sagt honum allt þetta, opinberað og auglýst að á þeim tíma sem Jesús kenndi hér og prédikaði hafi hann búið í Jerúsalem og verið einn af óvinum og ofsóknarmönnum Jesú Christi og haldið hann fyrir einn villumann og forráðara, því hann hefði ei betur vitað og svo hefði sér verið kennt af Phariseum og skriftlærðum, og því lagt hið mesta kapp á það að þessi falsari væri af dögum ráðinn. Hann sagðist hafa veitt þeim aðstoð til að fanga Jesúm og leiða hann til prestahöfðingjanna og hafi hann áklagað hann fyrir Pílatusi, einnig yfir honum hrópað: „Krossfestu hann, krossfestu hann; en gef oss Barabam lausan,“ og styrkt til alls þessa með öðrum, allt til þess hann var til dauða dæmdur. Þegar dómurinn var upp sagður sagðist hann hafa gengið með skyndi heim til sín þar sem leiða átti drottin um strætið út til aftökustaðarins, og sagðist hafa auglýst fólki sínu dómstitilinn uppsagðan og skipað því að koma fram í dyrnar til að skoða þenna Christum, en sett sjálfur lítið barn á handlegg sér og verið fyrir utan dyrnar svo það sæi einnig Jesúm. Þegar herrann Jesús var leiddur þar fram hjá og hann bar sitt þunga krosstré hafi hann nokkuð staldrað við og stutt sig við dyrnar á húsi Gyðingsins, þá kvaðst hann til vandlætingar og með meiri alvöru, dómsherrunum til vilja, herranum Jesú hafa þaðan burt hrundið með harðúð og frekara frá vísað, en sagt hann skyldi burt þaðan og í gálgann sem honum til heyrð. Þá hefði herrann starað á sig fastlega og mælt til sín þessum orðum: „Ég vil hvílast, en þú skalt ganga.“[2] Þá sagðist Gyðingurinn hafa þegar í stað sett af sér barnið og hvorki komið né getað verið í þeim húsum framar, heldur gengið út þaðan og fylgt þeim eftir sem fóru með Jesú; hann hafi bæði heyrt og séð hvernig herrann var krossfestur. En þegar allt var fullkomnað hafi sér verið ómögulegt að komast inn í borgina aftur og þaðan í frá hvorki séð konu sína né börn, en farið burtu í fjarlæg lönd og svo hvert af öðru og síðan ávallt um runnið, allt til þess þá var komið. Þegar hann hefði komið aftur til Júðalands og Jerúsalem, eftir mörg hundruð ár, hafi þar allt verið umturnað, niðurbrotið og foreytt svo hann hafi eigi þekkt þar neitt. En hvað guð áformi með sig framvegis eða því hann láti sig svo lengi hjara í þessu lífi það viti hann ekki. Í dagfari sínu og umgengni var hann fáorður og kyrrlátur, ræddi ekkert nauðsynjalaust og ekkert án þess á hann væri yrt. Þegar hann var borinn til máltíðar neytti hann með hófsemi, át lítið og drakk. Þegar menn sæmdu hann gjöfum meðtók hann þær lítillátlega, en þáði ekki meira en tveggja eða þriggja skildinga virði og útbýtti þeim innan skamms meðal fátækra, svo mælandi að hann þyrfti þess ei við, guð mundi ala önn fyrir sér. Allan þann tíma sem hann var í Hamborg hafði enginn séð hann hlæja né brosa. Hann kunni tungu hvers lands sem hann í kom. Þegar hann var í Hamborg talaði hann þýzku sem hann væri þar barnfæddur. Forbænir og blót mátti hann ekki heyra, og þegar hann heyrði menn blóta eða sverja við guðs nafn sagði hann með gremju og reiðisvip: „Þú aumur maður, áttu svo að brúka nafn guðs og pínu og dauða hans sonar? Já, hefðir þú heyrt og séð eins og ég hversu þung og erfið herranum Jesú var hans pína þá mundir þú ekki tala svona herfilega.“

Þetta hefur sá heiðurlegi doctor Paulus mér og öðrum útþýtt og margir það sannindi sagt. Það er og sagt að þessi Gyðingur hafi haft svo þykkt iljaskinn að menn hafi mælt það þrjá þumlunga á þykkt og svo hart sem horn. Hann sást í Danzig 1599.

  1. Munnmælasagan segir að Gyðingasetrið eigi að standa við kirkjustafinn og fara frá kirkjunni undireins og prestur kemur ofan úr stól.
  2. Munnmælasögnin segir að Jesús hafi sagt við hann að upp frá þeirri stundu skyldi hann alltaf vera á ferð og hrekjast um allan heim. Hann skyldi svo ganga til dómsdags og aldrei njóta hvíldar nema þá stund sem prestur væri í stól á messudögum ef hann gæti hitt svo á að vera þá í kirkju; en ekki er sagt hann megi bíða ef ekki er tekið til þegar hann kemur í kirkju. Þetta er mismunurinn á útlendu og innlendu sögusögninni um Gyðinginn; því eftir hinni útlendu sögn virðist hann mega dvelja tímum saman í sama stað, en alls ekki eftir hinni íslenzku. En báðar hafa látið orð Krists verða að áhrínsorðum á honum.