Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Ég sit á mínu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Ég sit á mínu“

Maður er nefndur Pétur; ekki er getið um ættarnafn hans eða föðurnafn, en jafnan var hann nefndur Pétur smiður, enda var hann aðkvæðamaður mikill við járnsmíðar. Hann var rammur að afli og fylginn sér. Það var líka ómögulegt fyrir hann að fá steðja er þyldi högg hans; fyrir því varð honum minna að verki en ella.

Það þótti Pétri leitt að hafa eigi full not dugnaðar síns og hugsar ráð sitt. Hann tók nú það ráð að gera samnning við kölska, þannig að kölski fær honum steðja svo góðan að engi hafði séð slíkan. Hann átti heldur ekki að vera gefinn því að Pétur átti að ganga á vald kölska eftir tíu ár. Brátt fannst það er reynt var hvílíkur dugnaðarsteðji þetta var, en ekki var allt fengið að heldur. Nú bar það til að enginn hamar þoldi að mæta slíkum steðja; urðu því minni not að honum. Liðu svo tíu ár.

Á ákveðnum tíma kemur kölski að vitja Péturs og vill að hann fari með sér eftir samningnum. Pétur leiddi kölska það fyrir sjónir hve lítil not hann hefði haft steðjans er hann vantaði hamar af sama tagi, og hvort sem nú Pétur bað eða krafðist fór það svo að lokum að kölski lét undan sanngirniskröfu Péturs og lét hann fá hamar móti því skýlausa loforði að ganga kölska til handa eftir önnur tíu ár. Eftir þetta gekk allt að óskum fyrir Pétri smið. Kölski sjálfur hefði ekki verið meiri dugnaðarári að smíða heldur en Pétur var, því að nú hæfði hamar steðja, og er fljótt yfir sögu að fara, það leið sá ákveðni tími.

Þegar tíu ár eru liðin kemur kölski enn að vitja samningsins. Pétur var í smiðju sinni að vanda og skorast hann ekki undan að fylla upp samninginn, en mælist aðeins til þess af kölska að hann geri fyrir sig eina bón. Það er ekki að spyrja að eftirlátsseminni hjá kölska; hann lofar því þegar. Pétur mæltist til að hann gefi sér pung þann er hafi þá náttúru að í hann hverfi allt sem þangað sé óskað. Kölski afhendir punginn þegar. Pétur skoðar hann í krók og kring og opnar hann. Allt í einu steypist kölski ofan í punginn. Pétur grípur fyrir opið, leggur punginn með innihaldi á steðjann kölskanaut, þrífur hamarinn kölskanaut og hamrar nú svo óþyrmilega á óvininum að aldrei hefur hamar eða steðji fyrr fengið að kenna á slíkum höggum. Kölski emjaði og öskraði, bar sig allaumlega og bað Pétur vægðar. Pétur gaf engan kost á vægð nema með því einu móti að hann væri laus allra sinna mála við kölska og hann snerti ekki eitt hár á höfði hans framar. Hvort sem nú kölska þótti þetta ljúft eða leitt varð svo að vera sem Pétur vildi; kölski varð að lofa því hátíðlega að gera aldrei kröfu til Péturs fyrr né síðar og ekki ónáða hann á nokkurn hátt. Lét Pétur hann þá lausan og hélt kölski orð sín, en Pétur naut vel hamars og steðja.

Ekki er þess getið hve lengi Pétur smiður lifði eftir þetta, en þegar hann dó fór hann til himnaríkis að beiðast þar vistar. Sankti-Pétur kom til dyra og varð fyrir svörum. Kvað hann Pétur smið hafa gert samning við húsráðandann í víti og þar yrði hann að fá sér vistarveru, í himnaríki fengi hann ekki að koma. Pétur smiður leitaði því á neðri byggðina og vildi fá þar inngöngu, en þá tók ekki betra við, því að þegar kölski frétti hver kominn var neitaði hann Pétri smið um alla ásjá, kvað hann einu sinni hafa verið nær því búinn að sálga sér í pungnum á steðjanum og þann mann vildi hann alls ekki hafa í húsum sínum, ekki mundi hann verða betri viðureignar nú en áður. Pétur varð því að hverfa frá við svo búið og þótti illa á horfast er hann fékk hvergi húsnæði. Við svo búið mátti ekki standa.

Pétri varð nú reikað heim til smiðju sinnar; þar tekur hann skinnsvuntu sem hann hafði átta, vefur hana saman í böggul, stingur undir handlegginn og leggur til himnaríkis í annað sinn. Hann knýr þar á hurð og nafni hans kemur til dyranna sem fyrri. Veit þá enginn fyrri til en Pétur smiður þeytir skinnsvuntunni inn um dyrnar á himnaríki og langt inn á gólf. Þá ámálgar hann um húsnæðið við nafna sinn, en fær sömu svör og hið fyrra skiptið. Pétur smiður segir að sér verði þó líklega lofað að taka með sér skinnsvuntuna sína og leyfir Sankti-Pétur það, enda vildi hann ekki sjálfur snerta á svo vanhelgum hlut sem skinnsvuntan var né heldur að hún yrði eftir þar í himnaríki. Pétur smiður gengur þá inn í himnaríki, tekur svuntuna, breiðir hana á gólfið, sezt á hana og þar situr hann enn í dag, því að þegar á að reka hann af svuntunni og út þá svarar hann jafnan: „Ég sit á mínu.“[1]

  1. Sbr. ennfremur söguna Útskúfun úr himnaríki og helvíti.