Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Það var ég hafði hárið

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni á hérvistardögum sínum kom lausnarinn að konu einni sem var að kemba höfuðhárið er einasta var hýjungur utan með, en sköllótt allt höfuðið; sagan segir hún hefði haft geitur. Spurði lausnarinn hana hvort hana langaði til að verða hærð vel. Hún sagði svo vera. Reið hann þá hráka sínum með holri hendi um höfuð henni og sagði hún skyldi verða kvenna bezt hærð. Að þremur árum liðnum kom hann til sömu konu. Sat hún þá og var að kemba hár sitt einkar mikið og fagurt. „Mikið hár hefir þú, kona góð,“ segir hann. „Það var ég hafði hárið,“ segir hún. „Verði þá sem var, en ekki sem er,“ segir hann; og samstundis varð það.