Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Abi male spirite

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
„Abi male spirite“

Einu sinni átti pokaprestur nokkur að skíra barn. Það var í þá tíð þegar siður var að særa hinn óhreina anda út af barninu og það á latínu. Þá segir prestur:

„Abi male spirite.“[1]

En kölski sat út í einu kirkjuhorninu, gellur við og segir:

„Pessime grammatice.“[2]

Þá segir prestur:

„Abi male spiritu.“[3]

Þá segir kölski:

„Laugstu fyrr og laugstu nú.“[4]

Þá segir prestur:

„Abi male spiritus.[5]

Þá segir kölski og fór burtu um leið:

„Sic debuisti dicere prius.“[6]

Þar sem dr. Maurer hefur snúið þessari sögu á þýzku hefur hann sett aðra sögu til samanburðar sem gengur á Þýzkalandi um sams konar prestlega athöfn og er hún hér um bil svona: Klerkurinn byrjar særinguna þannig: „Exi tu ex hoc corpo.“ Djöfullinn svarar: „Nolvo.“ Þá spyr prestur: „Cur tu nolvis?“ Djöfullinn svarar: „Quis tu male linguis.“ Þá segir prestur: „Hoc est aliud rem,“ og fór með það burtu.

  1. Burt með þig, illur andur, nú.
  2. Afleitur bögubósi ert þú.
  3. Burt með þig, illur anda, nú.
  4. Laugstu fyrr og laugstu nú.
  5. Burt með þig illur andi, nú
  6. Svo áttir fyrr að segja þú.