Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Austurvegsvitringar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Austurvegsvitringar

Sá fyrsti hét Caspar kóngur. Hann átti einn aldingarð nærri sínu herbergi. Þar var eitt tré sem spáð hafði verið fyrir að það skyldi standa so þangað til að Kristur fæddist. Varð það mjög gamalt að nær voru af rotnir allir kvistir, en á þeirri nótt er Kristur var fæddur þá blómgvaðist tréð og sat þar á fugl og sagði í sínum söng að frelsarinn væri fæddur. Annar kóngur hét Melchior. Í hans garði var einn fugl er hét strás. Og á þeirri nóttu er vor herra var borinn þá varp hann á móti sinni náttúru tveimur eggjum og lagði bæði eggin út, og var í öðru lamb, en í öðru leon, og þýddu meistrar það so að lausnarinn væri borinn. Þriðji kóngurinn hét Balthasar. Í hans návist varð ein kona léttari að sveinbarni, og strax er það var fætt talaði það og sagði að heimsins frelsari væri fæddur, „og til merkis á ég að lifa 33 daga eins og hann árin“.