Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Bakkastaður (1)

Úr Wikiheimild

Það skeði í fyrndinni á þessum bæ (Bakkastað) að eina jólanótt var haldin vikivaka í kirkjunni með miklu kappi og af fjölda manns. Og er móðir prestsins þótti nóg um að heyra háreystið þar inni gekk hún út að kirkjudyrum, beiddi sér hljóðs og bað son sinn hætta, ella myndi ei duga, en prestur mælti: „Enn litla stund, móðir, vil ég fram halda skemmtun þessari.“ Eftir það gekk hún burt og inn í bæ. Lítilli stundu eftir hún var gengin braut kemur ókenndur maður í kirkjudyrnar og tekur annari hendinni í hurðarhringinn og horfir með undarlegu tilliti á leikinn, við hvað allir þar inni urðu sem trylltir eður hugsunarlausir hvað gjöra skyldi. Þar eftir kvað þessi kynstrakall vísu þessa, og á meðan hann kvað sökk kirkjan með öllu fólkinu:

Kann ég ekki kvæðin,
kátleg eru þau gæðin,
mér vill aukast mæðin,
minnst hefi ég lagt í kvæðabing;
held ég mér í hurðarhring
hver sem það vill lasta.
Nú hafa kappar kveðið í kring,
kemur til kasta, kemur til minna kasta.

En er móðir prestsins varð vör þessara tíðinda tók hún reiðhest prestsins sonar síns og reið austur yfir Fljótsdalsheiði um nóttina allt að Valþjófsstað með vaxkerti í hendinni. Er þessi hennar för fræg orðin þar enginn maður þykist heyrt hafa fyrir né síðan riðið yfir heiði þessa við ljós sem þessi kona gjörði sem nú hefur frá sagt verið. Nú er þessi bær í eyði og beitarhús þar höfð frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Sér enn glögg merki til að þar hefur verið kringlóttur kirkjugarður og sýnist ei óglöggt votta þar enn fyrir leiðum og hússtæði í miðjum garðinum. Hann er að ummáli hér um bil sextíu faðmar.