Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Brytinn í Skálholti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Brytinn í Skálholti

Eitt sinn var biskup nokkur í Skálaholti sem mjög var harður við bryta sína og ónærgætinn. Var það því bæði að þeir undu illa hjá honum og fóru með ósæmd burtu. Vóru þeir nokkrir sem báðu biskupi illa fyrir hörku sína og báðu fjandann koma til hans í sinn stað, og þar að kom að biskup vantaði bryta og varð ráðfátt um. Kom þá maður til hans, roskinligur, rauðhær og riðvaxinn, og bauð honum þjónkun sína og að verða bryti hans. Biskup þiggur þetta því fúslegar sem hann var vandara viðkominn og maður þessi áskildi ekkert um kaupgjaldið og kvað slíkt mætti bíða þess að hann færi burt frá honum. Ekki gjörði hann biskupi neina grein ættar sinnar og uppruna eða hvaðan hann væri að kominn; kvað hann það engu varða; hitt væri á að líta hvernig hann reyndist, og tekur hann nú við búsforráðum og farnast það svo að biskupi líkar vel og er nú kyrrt nokkra stund.

Gamall bóndi var í sókninni, málkunnugur biskupi og fær í forneskju, og varð brátt mjög stirt millum bónda þessa og bryta. EInu sinni kemur bóndi að máli við biskup og kveðst ugga að bryti hans muni ekki verða honum nein heillaþúfa að lokum. Spyr hann biskup því hann vandi ekki um það við hann að hann komi aldrei í kirkju fyrr en eftir guðspjall og fari jafnan úr kirkju áður blessað sé yfir söfnuðinn. Biskup kveðst ei hafa að slíku hugað, og sem honum reynist það karlinn mælti gjörir hann bryta áminningu um það, en bryti bregzt reiður við og mælir að svo hafi hann mörgu að sinna að sér henti ekki að vera lengi í kirkju, og meini hann sér að ráða sjálfum kirkjusetum muni hann á burt fara. Við þetta lætur biskup slævast og er nú bryti hjá honum í sex ár að ekki ber til tíðinda annað en það að hann var þá hverjum manni hvumleiður orðinn nema biskupi einum; og hélt þó við að biskupi ægði ójafnaður hans. Á páskadagsnótt um lágnætti kemur gamli bóndinn hver áður ræddi við biskup um brytann heim að Skálholti; fer hann hljóðlega undir kirkjugarðinn. Sér hann að þrír menn eru í kringum kirkjuna og er bryti einn þeirra. Hann sér þeir eru að slá böndum og sigum um og yfir kirkjuna og hefur bryti alla forsögn þess, og þykist bóndi vita að hinir tveir séu þjónar hans. Báðir vóru þeir ljótir og illmannligir. Og sem þeir höfðu vafið böndum kirkjuna sem þeim líkar heyrir hann að bryti segir þeim að á morgun þegar hann komi út úr kirkjunni skuli þeir vera sinn við hverja hlið hennar og taka í sigin, en hann ætli að vera við dyrnar og halda þar [í] bandið, og muni þeir þá fá sökkt kirkjunni með öllum sem í henni eru. Þegar bóndi hefur séð viðurbúnað þennan og orðið áskynja um illa ráðagjörð þeirra dregur hann sig burt frá garðinum og fær komizt í staðinn og þar inn sem biskup hvíldi; vekur hann biskup og segir hvar komið var. Biskupi var ósvipt við, en bóndi kvað nú ekki ráðleysi duga, nú skuli hann vaka það eftir sé nætur og búa sig undir að fara sjálfur í stólinn og draga þá ekki af. „En ég,“ mælti bóndi, „ætla að sitja í krókbekknum og ef svo fer að bryta verði nokkur töf að mér þegar hann ætlar út þá skuluð þér gæta þess að hefja strax upp blessanina á stólnum, og mun þá duga með guðs hjálp.“

Biskup gjörir nú sem bóndi gaf ráð til og er að því kemur að samhringt er til messu gengur bóndi að kirkjunni, tekur vasakníf sinn og ristir hér og hvar krossstrik á kirkjuna. Enginn sá hvað hann gjörði með það nema sjálfur hann; var hann að skera böndin sem bryti fléttaði um hana um nóttina. Biskup fór í stólinn og bryti kom í kirkju að loknu guðspjalli; var hann gustmikill og ófrýnn og brá honum þó enn meir er hann sá og heyrði að biskup var í stólnum. Þetta sér biskup og herðir nú ræðu sína eftir því sem andinn gaf honum út að tala. Ekkert mannsbarn var í kirkjunni sem ekki táraðist við ræðu hans, en bryti varð ýmist fölur sem nár eða svartur sem sót og er á ræðuna leið stekkur hann upp og ætlar út. Bóndi stendur á fætur og þokar sér fyrir hurðina, segir honum liggi ekki á og skuli hann nú í hátíðar nafni bíða eftir blessaninni. Bryti æstist við og ætlar að ryðja bónda frá hurðinni, en þess var ekki kostur. Biskup sér nú hvar komið er og fer að blessa með upplyftum höndum; fór bryti þá að síga niður í gólfið, en bóndi hafði í barmi sínum Davíðs saltara, tekur hann og slær á haus honum. Var það jafnsnemma að biskup lauk blessaninni á stólnum og haus bryta hvarf undan saltarahöggum karlsins niður í gólfið. Hóf biskup þá fagra þakklætisræðu fyrir svo augljóst frelsi sitt og safnaðarins af vígvélum og umsátrum hins vonda, og síðan varð hann bezti maður við bryta sína.