Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Dálkstirtlufiskstykkið

Úr Wikiheimild

Bóndi nokkur sem bjó góðu búi hélt vinnumann sem stóð yfir fé hans á vetrum. Einu sinni þá er hann hafði hýst féð á köldum vetrardegi kemur hann inn og sezt á rúm sitt að vanda. Réttir húsbóndi hans honum þá miðdegismatinn; var það dálkstirtlufiskstykki og roðið rifið frá og smjörið milli fisksins og roðsins. Maðurinn tekur við, lítur á og segir: „Hvern andskotann á ég að gjöra með þetta?“ og fær bónda það aftur. Bóndi tekur við þegjandi og ber það fram úr baðstofunni og kemur stundu síðar inn með annan mat sem vinnumaður hans þáði; er nú ekki meira rætt um þetta.

Eftir fá ár liðin vistast maðurinn burt frá bónda í fjarlæg héröð. Nokkru síðar koma hallærisár og mannfellir af hungri; leituðu margir sér þá lífs með því að flakka víðs vegar um landið. Bóndi þessi var undirkominn að efnum, jafnan þrifinn og sparsamur búhöldur. Hélt hann sig og hyski sitt sæmilega hverju sem áraði og gjörði gott vegfarendum. Kemur nú eitt sinn hinn fyrnefndi vinnumaður hans til hans; hafði hann verið á vergangi og var horfallinn og svangur mjög. Biður hann nú bónda ásjár. Bóndi segir hönum að draga sig í bæinn og megi hann vera eina nótt. Hann gjörir það og sem hann er nýsetztur kemur bóndi inn og heldur á dálkstirtlufiskstykki með smjöri undir roði og réttir honum og spyr hvert hann geti snarlað þetta. Maðurinn tekur við þessu tveim höndum og biður grátandi guð að launa, etur nú með mestu græðgi og er, á meðan á nautninni stendur, ýmist að lofa guð fyrir gjöf þessa eða blessa bónda. Bóndi stendur þegjandi hjá, en þegar hinn er búinn að éta og þakkar honum matinn segir hann: „Vissirðu nú hvað þú áttir að gjöra með þetta?“ Hinn rankaði þá við gömlu stirtlunni er bóndi áður fékk honum. Bóndi mælti þá nokkrum þungum orðum við hann svo hann þurfti ekki meira; tók hann síðan til vistar og hélt hann meðan þeir lifðu báðir, og var maðurinn jafnan síðan hið auðsveipasta og þakklátsamasta hjú húsbónda sínum.