Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Eitt ævintýr af hinum heilaga Vítus

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Eitt ævintýr af hinum heilaga Vítus

Sem sýnishorn af útlendu ævintýri sem einhvern tíma hefur verið snúið á íslenzku er hér:

Eitt ævintýr af hinum heilaga Vítus

Á dögum Diocletiani og Maximani heiðingjakónga gjörði heilagur sveinn Vítus margar jarðteiknir í landi því er Lybía heitir, og var hann á bænum oft nætur og daga og sneri mörgum til trúar og veitti þurfendum marga nauðsynlega hluti og ölmusugæði; en Vítus var auðugur að aurum, göfugur að kyni og kallaði á guð og mælti: „Drottinn Jesús Christus, gjör þú miskunn mér þræli þínum og rek þú mig ekki frá boðorðum þínum og skil þú mig ekki frá samlagi réttlátra.“ En er Vítus bað guð af hjarta sínu kom rödd af himni yfir hann og sagði: „Heyrð er bæn þín og mun veitast sem þú baðst.“ En faðir hans var grimmur maður og heiðinn og lét eigi af blótun skúrgoða, en hann hét Hilas og vildi kalla son sinn [til] blóta. Vítus svaraði honum: „Öngan kann ég annan guð en föður vors drottins Jesú Christi sem að er einn sannur guð og eilífur, sá er skildi ljós frá myrkri; kallaði hann ljós og varð dagur, kallaði hann myrkur og varð nótt, honum sjálfum þjóna ég, kóngi engla, þeim er skóp himin og jörð og allt annað sem þar er á milli.“ Og er þetta heyrði faðir hans lét hann festa son sinn á tré og berja og svarar: „Hvör kenndi þér þetta að mæla? Ef þetta heyrir kóngur muntu deyja.“ Vítus mælti: „Það er þú heyrðir mig mæla faðir, Kristur kenndi mér það, svo eg em hans þræll.“ Þá kallaði Hilas á Modestum fóstra sveinsins og mælti: „Gæt þú að sveinninn mæli ei oftar slíka hluti.“ Vítus segir: „Þetta er mér hunangi sætara svo sem psalmaskáldið segir: „Sætari eru munni mínum þín orð drottinn en hunang brjósti mínu, betri eru mér lög þíns munns en mikill fjöldi gulls og silfurs.““ Þá sýndist Vítus engill standa og mælti: „Ég er þér sendur af guði að ég varðveiti þig til lífláts og þekkar eru guði bænir þínar.“

En Hilas grét son sinn so sem dauðan og vildi teygja hann með blíðindum til blóta. Vítus mæli: „Hvörjum goðum viltu að ég blóti?“ Hilas mæti: „Veiztu ekki dauðleg goð vera Óðin, Þór, Freyr, Frigg og Freyju er kóngar ganga að göfga?“ Vítus mælti: „Aldrei heyrða eg so mörg goð nefnd, einn kenni ég föður drottins vors Jesú Christi, guð lifanda, hans flekklaust blóð, það burt tók heimsins syndir og frelsaði oss með sínum dauða.“ Hilas mælti: „Veit ég þann er þú kallar Krist og var krossfestur af mönnum.“ Vítus mælti: „Hans krossfesting er lausn synda vorra er á hann trúum, en ei má mig skilja frá ást hans.“ En Vítus vann mörg kraftaverk, græddi sjúka, leysti blinda og rak djöfla út frá öðrum mönnum. En er það spurði Valerianus jarl heimti hann til móts við sig föður sveinsins og mælti við hann: „Heyri ég að sonur þinn fyrirlítur goð vor, en göfgar Krist þann er var krossfestur á Gyðingalandi, af því lát þú hann hingað senda.“

En er Vítus var leiddur fyrir dómstól jarls þá mælti jarl við hann: „Því blótar þú ekki, eða veiztu ekki að kóngar buðu að kvelja þig mörgum píslum og alla þá er krist göfga?“ Heilagur Vítus mælti: „Eigi mun ég hneigja háls minn fyrir skúrgoðum né lúta steinum því að ég hef drottin þann önd mín þjónar.“ En er þetta heyrði faðir hans þá mælti hann: „Gangið hingað vinir mínir og grátið með mér því ég sé son minn fyrirfarast.“ Vítus mælti: „Eigi fyrirferst ég, heldur kjöri ég mér að ganga í sveit réttlátra.“ Valerianus mælti: „Nú þegar léti ég þig stöngum berja ef ei væri vinátta föður þíns, af því lút þú að mér og blóta goðum mínum.“ Vítus mælti: „Sagða eg þér nú um sinn, jarl, Christum göfga ég, son guðs.“ Þá reiddist Valerianus og lét festa Vítum á tré og berja, og sá fyrstur rétti hendur sínar að berja sveininn þá visnuðu hans hendur og hann kallaði: „Vesæll em eg, að ég glataði höndum mínum og kveljist ég í sótt.“ Þá var þangað kallaður faðir sveinsins og mælti Valerianus við hann: „Sé ég son þinn fjölkunnugan vera.“ Vítus segir: „Eigi em eg fjölkunnugur, heldur em eg þræll Krists þess er mér kennir boðorð sín, og er ég fylltur af hans anda þess er dauða lífgaði og gekk þurrum fótum um sjóinn, en ef goð yðar mega nokkuð þá gjöri þau heila hönd þessa manns.“ Jarl mælti: „Gjör það er þú mæltir.“ Vítus segir: „Í nafni drottins Jesú Chrisi mun ég það gjöra,“ og er hann kallaði á nafn Jesú gjörði hann heila hönd hans. Þá sendi jarl til föður hans og mælti við hann: „Bæt þú um fyrir syni þínum að hann lúti að oss og blóti goðum vorum.“ Þá leiddi faðir hans hann inn í hús og sýndi honum krásir og fögur auðæfi og lét leika fyrir honum vænar meyjar og fríðar og ætlaði að teygja hann með blíðindum þessa heims frá trú Krists. Vítus leit til himins og mælti: „Eigi fyrirlítur guð lítillátt hjarta.“

En klefi sá er Vítus var í luktur var innan gulli gjör og gimsteinum. Þá féll Vítus á kné og mælti: „Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, miskunna þú mér og styrk mig í krafti þínum að eigi megi illgjarn dreki fremja vilja sinn, og gegn þræli þínum að ei þurfi heiðnar þjóðir að spyrja: „Hvar er guð?““ Þá kom ljós mikið í hús það er Vítus var í luktur og ilmur dýrlegur so menn þóttust aldrei hafa slíkan fyrr kennt. Þá mælti Hilas: Guð vor mun vera þar kominn.“ En er hann leit í klefann í gegnum gluggann sá hann sjö engla standa hjá sveininum og styrkja hann, en er hann sá þetta varð hann blindur og kallaði dárlægri röddu og mælti: „Vesæll em eg að [ég] glataði ljósi augna minna.“ En Vítus bað fyrir föður sínum og mælti: „Drottinn Jesús sem getinn ert af heilögum anda, skil þú mig eigi frá föður mínum, heldur leið hann til heilagrar hallar þinnar;“ þá varð mikill hryggðleiki allra hinna og fóru þessi tíðindi um borgina.

Þá kom Valerianus jarl þangað og spurði með hvörjum aðburðum Hilas hefði blindur orðið. Hilas svarar: „Þá ég sá í klefann sonar míns sá ég þar eldleg goð og mátta eg ei standast viðlit þeirra.“ Valerianus mælti: „Goð vor munu græða það:“ þá var Hilas leiddur til Þórs hofs að ráði Valerianus jarls og hét Þór miklum gáfum og mælti: „Þór guð, ef þú gjörir mig heilan þá mun ég færa þér gullhyrndan uxa.“ En Þór svaf og veitti honum önga hjálp, heldur stundi hann eður æpti af ofurverkjum, en sæli sveinn Vítus féll á kné og bað til guðs og mælti: „Þú guð, er leystir Tobbiam og græddir Jobb af sárum, gjör þú nú miskunn þína við föður minn ef hann vill að þér lúta.“ Þá var leiddur blindur faðir til sonar og féll til fóta honum og mælti: „Sonur, gjör þú mig heilan og gjör þú miskunn við mig.“ Vítus mælti: „Viltu heill verða?“ Hann svarar: „Víst vil ég.“ Vítus mælti: „Mátti ekki Þór og Óðinn, Freyr, Frigg og Freyja gjöra þig heilan?“ Hilas svarar: „Hvörsu máttu þeir þetta gjöra?“ Vítus mælti: „Veit ég hjarta þitt er harðnað í villu, en fyrir hjáverandi lýð mun ég gjöra þér miskunn í nafni drottins vors Jesú Christi so lýðurinn viti hann er guð.“ En er Vítas gjörði krossmark fyrir augum föður síns féll hreistur af augum hans og varð hann heill, kallaði og mælti: „Þakkir gjöri ég goðum mínum er mig gjörðu heilan.“ Vítus brosti og mælti: „Þú óvinur Krists, Kristur gjörði þig heilan, en ei goð þín.“

En er Hilas vildi bana sínum syni, þá vitraðist engill guðs Modestum fóstra sveinsins og sagði: „Far þú niður til sjávar og munu þið finna þar skip er guð mun senda yður og mun ég færa yður til annars lands.“ Modestus mælti: „Drottinn, ekki kunnum við leið til sjávar.“ Engillinn mælti: „Ég mun leiða yður til annars lands.“ Þá var Vítus sjö vetra gamall. En er þeir komu til sjávar fundu þeir skip það er drottinn sendi þeim. Engillinn freistaði sveinsins og mælti: „Til hvörs héraðs vilji þér fara?“ Vítus svarar: „Þangað sem drottinn vill oss senda.“ Engillinn mælti: „Hvar er skipleigan?“ Vítus svarar: „Krists þrælar erum vær, hann mun gjalda þér verðkaupið.“ En er þeir stigu á skip voru þeir þegar staddir í öðru landi og sáu ekki til skipsins, en þeir komu að á þeirri er Ciler heitir og hvíldust undir tré nokkru. En Vítus gjörði margar jarðteiknir, og sögðu djöflar til hans er mæltu fyrir munn óðra manna og kom margur lýður til hans og tóku margir trú er sáu jarðteiknir hans, og kenndi hann þeim guðs orð.

En sonur Diocletiani var kvalinn af djöfli og kallaði óhreinn andi úr munni hans og mælti: „Eigi mun ég út fara nema Vítus komi.“ Kóngur mælti: „Hvar munum vér finna hann? Óhreinn andi sagði: „Hjá þeirri á er Ciler heitir munu þér finna hann.“ Þá sendi kóngur vopnaða menn að þeir kölluðu heilagan Vítus á hans fund. Riddarar fóru og fundu Vítus standandi á bæn og mæltu þeir við hann: „Ertu Vítus?“ En hann sagði: „Eg em hann.“ Riddarar mæltu: „Kóngur sendi oss eftir þér.“ Vítus mælti: „Hvað þarf kóngur so lítils sveins?“ Riddarar mæltu: „Sonur hans er kvalinn af djöfli.“ Vítus mælti: „Förum vér þá.“ En er þeir komu í Rómaborg þá lét Diocletianus leiða sveininn fyrir dómstól sinn, en Vítus var vænn að áliti, og var guðs miskunnar þokki sén á honum. Diocletianus mælti: „Ertu Vítus?“ En hann þagði. Þá spurði kóngur Modestium, en Modestius var gamall og kunni hann öngu að anza. Þá mælti Vítus við kóng: „Við hvörn mælir þú, hinn eldri eður þann yngri? Þar fyrir svara ég þér ekki að þú áttir fyrri að spyrja þann eldri.“ Kóngur mælti: „Hvört styggist þú í gegn oss?“ Vítus mælti: „Eigi styggist ég, heldur erum vér einfaldir sem dúfa því lærifaðir vor er góður og einfaldur í sínu eðli.“ En óhreinn andi kallaði úr sveininum og mælti: „Vítus, hví kvelur þú mig fyrir tímann?“ Kóngur mælti: „Máttu heilan gjöra son minn?“ Vítus mælti: „Eigi má ég, heldur Jesús Kristur, sonur guðs lifanda.“ Þá gekk Vítus til sonar kóngs og lagði hendur yfir hann og mælti: „Far þú óhreinn andi frá skepnu guðs.“ Þá varð fjandinn hræddur, flýði og drap marga menn; þá hræddist allur lýður. Þá varð Diocletianus hræddur so hann féll í óvit, en er hann réttist við mælti hann við Vítus: „Lút þú að mér og blóta goðum mínum, og mun ég gefa þér mikið eður helming eigu minnar og ríkis míns og göfga þig gulli og silfri og dýrlegum klæðum.“ Vítus mælti: „Ríki þitt og fé fari með þér, það er mér ekki nytsamlegt því ég hef með mér guð lifanda, en ef ég er staðfastur í ást hans mun hann skrýða mig ódauðlegum skrúða þeim er drottinn mun mér gefa.“ Kóngur mælti: „Gef þú heilt ráð öndu þinni og blóta goðum mínum, að eigi kveljist þú í píslum.“ Vítus mælti: „Þess fýsist ég að koma til þeirrar dýrðar og sannrar náðar er drottinn hét vinum sínum.“ Þá lét kóngur setja Vítus og Modestum í járn og setja þá í myrkvastofu so að enginn kæmi að vitja þeirra að færa þeim drykk né fæðu.

Og er þeir voru komnir í myrkvastofu þá kom ljós mikið af himni og fyllti upp myrkvastofuna so varðhaldsmenn undruðust, en Vítus kallaði hárri röddu á guð og mælti: „Hygg þú að hjálp vorri drottinn og skunda að leysa oss, so sem þú leystir þrjá sveina úr brennandi ofni.“ Þá varð landskjálfti mikill og vitraðist engill guðs Vítum og mælti: „Rís þú upp Vítus;“ þá bráðnaði af honum festin sem vax í eld, og sungu lof guði og mæltu: „Lofaður sé guð Ísraels sem frelsaði og gjörði lausn þjóðar sinnar.“ En er myrkvastofuvörður heyrði þetta og sá þessa hluti rann hann til kóngshallar, kallaði mikilli rödd og mælti: „Fyrirfarast mun borgin og eru menn í háska staddir.“ Kóngur mælti: „Hvað er nú orðið?“ Myrkvastofuvörðurinn mælti: „Ljós mikið er yfir þeim mönnum er þú seldir oss til varðveizlu; ilmur dýrlegur er og með þeim manni so mannkyn má ei í gegn standa.“ Diocletianus mælti: „Dýrum skal selja andir þeirra og mun ég sjá hvört Kristur þeirra megi leysa þá úr höndum mínum.“

En er þeir voru leiddir til dýragarðs og stóðu þar þá mælti Vítus við Modestum: „Hræðstu ekki dauðann því nú nálgast dýrð okkur.“ En þar stóð hjá 2000 karla og ótal konur og börn. Þá mælti kóngur: „Hvar þykist þú nú kominn vera?“ Vítus mælti: „Til dýragarðs sé ég mig leiddan vera.“ Kóngur mælti: „Vertu heilráður öndu þinni og blóta goð mín.“ Vítus mælti: „Sé þér aldrei vel, óvinur skæður, vargur og svikari, ef mælt væri við hund að hann þegði mundi hann skammast sín, en ég hef með mér Krist þann er ég þjóna.“ Þá reiddist kóngur og lét kynda ofn brennandi og hella ofan í vellandi biki, viðsmjöri og blýi. Þjónar gjörðu sem þeim var boðið og köstuðu heilögum Vito í ofninn. Kóngur mælti: „Nú mun ég reyna hvört guð þinn mun leysa þig úr höndum mínum.“ En er Vítus var kastað í ofninn gjörði hann krossmark fyrir sér og söng guði lof í miðjum ofninum og mælti: „Þú drottinn er leiddir son Ísraels af Egyptalandi fyrir þénara þína Moises og Aron og leystir úr ánauðum, gjör nú miskunn þína við oss fyrir nafn þitt.“ Þá mælti Vítus við kóng: „Hvar eru nú píslir þínar? Þakkir gjöri ég þér að þú lætur gjöra mér laug.“ Þá tók allur lýður að kalla og mælti: „Aldrei sáum vér slíkar jarðteiknir og mikill er guð sveina þessara.“ Þá gekk Vítus óskaddaður úr ofninum og eigi var flekkur á líkama hans, heldur var þar hold hvítt sem snjór. Þá mælti Vítus við kóng: „Far þú með djöfli föður þínum.“ Þá fylltist kóngur reiði og lét hlaupa að þeim hið óarga dýr er hvör mann hræddist, er þess rödd heyrði. „Mun nú,“ sagði kóngur, „fjölkynngi þín mega við dýri þessu?“ Vítus segir: „Skilur þú það ekki, hinn heimski, að Kristur er með mér?“ Þá gjörði Vítus krossmark móti dýrinu og sté yfir kverk þess, en það kom og féll til fóta honum. Þá mælti Vítus við kóng: „Þessir hlutir gjalda veg guði, en ekki mér.“ Þá mælti kóngur við Vítum: „Er so römm fjölkynngi þín að þú mátt stöðva eld og dýr?“ Vítus mælti: „Eigi em eg fjölkunnugur, því þessir hlutir gjalda veg guði, en þú kennir eigi skapara þinn, en þú mundir hjálpast ef þú vildir kenna hann.“ Kóngur mælti: „Trú á hann og allt kyn þitt.“ Vítus mælti: „Vel mælir þú kóngur og æskir þú mér sannrar blessunar.“ Þá tóku 5000 manna trú er þeir sáu þessar jarðteiknir.

Þá lét kóngur festa þá báða í stagl; en er þeir voru kvaldir mjög í stagli mælti Vítus: „Drottinn minn Jesús, leys þú oss nú.“ Þá gjörðist landskjálfti mikill og féllu mörg hof skurgoða og margir menn er í þeim voru. Þá hræddist kóngur og flýði og mælti: „Vesæll er ég að ég er yfirstiginn af so litlum smásveini.“ Þá kom guðs engill og leysti þá úr stagli og setti þá niður hjá á þeirri hvar þeir höfðu fyrr hvíldir tekið undir tré nokkru; þá bað Vítus til guðs og mælti: „Drottinn Jesú Christe, sonur guðs lifanda, meðtak þú andir vorar og fyll í góðum hlutum vilja þíns þá er gjöra minning píslar minnar, og leið þú þá til dýrðar þinnar, bjóð þú drottinn að í þessum stað er líkamir vorir hvíla, verði aldrei að mýi mein“ (því að í þeim stað hafði verið so mikið mý að mönnum þótti ekki byggjandi). En er Vítus lauk bæn sinni kom rödd af himni so mælandi: „Vítus, þjón minn, gef ég allt það sem þú baðst og framar mun veitast en þú baðst.“ Og sofnuðu þeir í friði guðs og voru séðnar andir þeirra í dúfulíking snjó hvítari sólu og bjartari. Þeir heyrðu englarödd mælandi þessi orð: „Rétt er gjörð gata réttlátra og brautstígur heilagra.“ En ernir tveir stórir komu og varðveittu líkami þeirra so engin kvikindi þorðu nærri þeirra líkömum að koma. Og er haldin minning þeirra níu nóttum fyrir Jónsmessudag Baptistæ, guði til lofs og dýrðar um allar aldir veraldarinnar. Amen.