Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Flautir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Flautir

Frá því er sagt að einu sinni hafi Kristur komið til fátækrar ekkju sem ekki átti sér aðra björg en eina mjólkurgeit. Hún bað hann því blessaðan að drýgja nú björg sína. Hann kenndi henni þá að búa til þyril og flautir. Svona er sagt að flautirnar sé til komnar og hafa þær jafnan verið taldar fátækra manna fæða.

En þó flautir þyki ekki góður matur til undirstöðu á allt að einu að vera meira manneldi í þeim en skyrinu, og er sú saga til þess að einu sinni voru tveir menn samferða í fannfergishríð á vetrardag. Hafði annar þeirra lifað mestmegnis á skyri og mjólk, en hinn á flautum. Þegar þeir höfðu haldið áfram um stund í snjónum og ófærðinni fór að smádraga máttinn úr þeim sem á skyrinu hafði lifað og seinast gafst hann upp með öllu. Tók hinn hann þá á herðar sér „og svo bar hann flautabelgur hann skyrbelg“ til byggða.