Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Gleðidagur, gulldagur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Gleðidagur, gulldagur“

Þegar Páll prestur Árnason biskups Þórarinssonar var á Barði í Fljótum[1] var þar orð haft á reimleikum. Einn vetur var það að stórköföld [bægðu] embættisgjörðum í kirkjunni þrjá sunnudaga í röð; þókti presti það mjög óviðfelldið, og er fjórði sunnudagur kom fer prestur út um dægramótin að skoða til veðurs. Er þá moldkafald; samt grillir hann kirkjuna og garðinn. Sér hann þá að ófreskjur tvær sitja á kirkjugarðinum róandi móti hríðinni. Hann gengur að baki þeim og heyrir þær aftur og aftur hafa upp orð þessi: „Gleðidagur, gulldagur, gefur aldrei að messa!“ Lætur hann þær verða vara[r] við sig og hvurfu þær þá af garðinum. Kafaldið hélzt um daginn, en prestur sendi eftir mönnum og messaði og þókti þeim sem við vóru honum segjast í betra lagi.

  1. Páll Árnason (1775-1835) var prestur á Barði 1820-1830.