Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Guð lætur ekki að sér hæða

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Guð lætur ekki að sér hæða

Á vortíma (milli 1820-1825) bar svo til að formenn nokkrir á Siglunesi nyrðra vóru þá langt var liðið á vorvertíð þeirra á gangi millum búða niður á tanganum að tala um aflabrögð sín um vorið. Fannst það á mörgum að þeim þóttu hlutir sínir með minna móti orðnir, einkum einum sem Jón hét og var Bjarnason; hann átti heima á Hrísey. Undanfarin ár hafði hann aflað með þeim beztu, en nú fengið meðalhlut. Hann kvað svo að orði að guð hefði séð til að skammta sér í vor. Orð þessi mælti hann með hálfkærings hæðnissvip og málfæri og eins konar óviðfelldnu kuldabrosi. Piltur einn ungur stóð við búðarvegg þar sem mennirnir gengu fram hjá og gáfu þeir honum engan gaum, en hann heyrði tal þeirra og atkvæði Jóns og reis honum hugur við að heyra það.

Skömmu síðar komu vertíðarlokin. Fór þá hver heim til sín, eins Jón sem aðrir, en strax og hann var heim kominn tók hann svo mikið gigtarmein í mjöðminni að hann lagðist í rúmið og lá lengi nær dauðvona. Mjöðmin og lærið holgróf allt með beini. Hann fékk góða læknishjálp. Vorið eftir kom sami pilturinn í Hrísey á bæ Jóns og lá hann þá enn í rúminu, aðeins málhress, en mjög torkennilegur, og svo lá hann það sumar. Loksins komst Jón til heilsu, en lifði þó við örkuml; mjöðmin og lærið dró saman og knýtti, svo fóturinn þeim megin varð mikið styttri en hinn og varð Jón því að hökta við hækju það hann fór. Mun hann og síðan ekki hafa verið hákarlaformaður á Siglunesi.

Þótti piltinum sem hér hefði það sannazt að guð lætur ekki að sér hæða.