Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Himnabréf

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Himnabréf

Annað mál er með himnabréfið sem Kristur átti að hafa skrifað sjálfur og látið Mikkael höfuðengil birta á Þýzkalandi. Ein saga er það að þegar búið var að lesa það og skrifa það hafi það horfið. En inngangur bréfsins mótmælir þeirri sögn. Afskriftir af þessu bréfi hafa þótt allmerkilegar á Íslandi og sumir segja að gamlar konur beri þær enn á sér og trúi þær því að það verji sig öllum voða. Bréfið hljóðar þannig:

Útskrift af bréfi því sem drottinn Jesús hefur oss opinberað fyrir höfuðengilinn Michael og hann sjálfur skrifað hefur í staðnum Michaelsborg ekki langt frá Fríborg. Þar hékk eitt bréf; en hvar á það hékk vissi enginn. Það var skrifað með forgylltum bókstöfum. Hvör eftir því bréfi vill skrifa, til þess hneigir það sig niður. Ef nokkur til þess seilist og eftir því grípur, frá þeim sömu líður það upp og flýr í burtu.

Það byrjar sem hér segir:

Ó börn, sjáið þetta bréf og vel athugið sem fyrir engilinn Michael er befalað og útsent. Hvör sem nú vill erfiði á sunnudaga fremja fyrir góz og peninga, sá er forbannaður. Þar fyrir bið ég yður sem vera viljið guðs börn að þér um sunnudaga ekkert erfiði fremjið í mínu nafni, hvorki líkamlega né með auðæfanna ágirnd. Baktalið ekki hvör annan með yðar tungu, útsvallið ekki yðar ríkidómi ónytsamlega fyrir syndir og ljótan lifnað og vondan. Svíkið ekki þann fátæka, föðurlausa og móðurlausa né yðar náunga. Útgefið og eigi falskan vitnisburð, heldur talið sannleikann hvör við annan og verið sem bræður innbyrðis. En hvör eð ei hefur þessa trú sá sami er fordæmdur og hans sál blífur fortöpuð að eilífu. Og hvör sem þessu bréfi ekki trúir sá er öldungis glötunar sonur og hefur hvorki lukku né blessunar að vænta. Og ég segi yður, bræður, að þetta bréf hef ég sjálfur, Jesús Kristur, með minni eigin guðdómshendi skrifað og út ganga látið, og hvör mér móti segir sá er yfirgefinn og skal ekki hafa hjálp af mér að eilífu. Og hvör sem þetta bréf hefur og opinberar það ekki, hann er forbannaður af kristilegri kirkju eður guðs söfnuði og yfirgefinn af minni almættis hendi.

Þetta bréf skal hvör eftir öðrum skrifa, og þó þér hafið drýgt so margar syndir sem sandur er á sjávargrunni og lauf á trjánum, gras á jörðu, stjörnur á himni og dropar í regni þá skulu þær yðar verða fyrirgefnar að eilífu. En hvör sem þessu bréfi ekki trúir, hann skal deyja og hans börn eilíflega. Ó hó, snúið yður til mín, annars hljóti þér að pínast í helvíti. Ég mun spurja yður á þeim síðasta degi og munu þér þá ekki kunna að svara mér einu orði á móti þúsund og það sökum yðar synda og afbrota. En hvör sem þetta bréf í húsi hefur eður hjá sér eður á sér ber, hann skulu hvorki skruggur, reiðarþrumur né óveðrátta slá; hann skal verða vel forvaraður fyrir eldi og vatni og hjálplegur verða. Sömuleiðis hvör helzt sem þetta bréf ber á sér, hann skal fá gleðilega velgengni í þessum heimi og að síðustu eilíft líf. Ó börn, haldið mín boð sem ég hef fyrir minn engil Michael sent og opinberað. Ég sá sannorði Jesús með minni eigin hendi skrifað hef við Míkilborg, ei langt frá Frýborg.

Og var sent þetta bréf til Kaupinhafnar þann fyrsta dag mánaðarins janúarí, sem vér köllum vorn nýjársdag, þá skrifaðist anno Christi 1648.