Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Himnabréfið

Úr Wikiheimild

Þó að bréf þetta heyri ekki Íslandi til, hvorki heldur örnefnum, álfasögum né trölla, þá set ég það þó hér, þar eð það er þó eitt af hjátrúarflokkinum, því það bendir þó til og sýnir hverja trú almenningur hefir haft á þessleiðis fyrirheitum sem í bréfinu standa; hafa menn trúað því og trúa enn í dag – sumir hverir — að það sé einhver styrkasti verndarengill mannkynsins á götum lífsins; sem dæmi þar upp á set ég fylgjandi sögu:

Sigríður Einarsdóttir hét kvenmaður suður í Garði. Hún lá á barnssæng og greiddist ekki svo yfirsetukonur voru frá gengnar; síðan var himnabréfið tekið og lesið yfir henni. Að því framförnu greiddist hún og þakkaði hún því það. Hún var þá á Lambastöðum og sagði móður minni.

Formáli: Út í einum stað í Þýzkalandi hangir eitt bréf, en hvar á það hangir veit enginn. Það er með forgylltum stöfum, ofansent og af guði fyrir engilinn Mikael uppskrifað. Hver sem eftir þessu bréfi vill skrifa, til þess hneigir það sig og upp lætur; en hver sem það vill grípa, frá þeim sama flýr það eður burt víkur.

Bréfið: Athugið þetta boð sem ég fyrir engilinn Mikael útsendi: Hver sem á sunnudeginum erfiðar, sá er bölvaður. Þar fyrir býð ég yður að þér um sunnudaginn ekkert erfiðið fyrir góssi og peningum, heldur með alúðarfullri áheyrn gangið til kirkju guðs orð að heyra. Þér skuluð ekki prýða hár yðar með drambsemi með því að framkvæma syndir og lesti. Þér skuluð af yðar ríkidæmi meðdeila þeim fátæku og trúa því að þetta bréf er með minni eigin hendi og frá (mér) Jesú Kristó útsent, svo þér ekki gerið sem þau vitlausu dýrin. Þér hafið sex daga í viku að framkvæma erfiði yðar, en sunnudaginn skuluð þér helgan hafa. Biðið fyrir yðrum syndum, svo þær fyrirgefnar verði. Girnizt ei gull né silfur, fremjandi ekkert illt í mínu nafni, hvorki með göldrum né gjörningum, svo enginn áklagi eður baktali með tungunni. Fyrirfarið og ekki yðar góssi og ríkidæmi. Svíkið ekki þann föður- eður móðurlausa né yðar náunga eður fátæka með fölskum vitnisburði; segið heldur sannleikann hver öðrum. Hver sem ekki hefir þá trú hann er glataður.

Hver sem ekki trúir þessu bréfi hann er fordæmdur og skal hvorki lukku né blessan hafa. Þetta segi ég Jesús Kristur sem með minni eigin hendi skrifað hefi. Hver sem móti því gjörir sá er glataður og skal aldrei af mér hjálp hafa. Hver sem þetta bréf hefir og ekki opinberar það, sá er bölvaður og í heilagri kristni yfirgefinn. Þetta skal hver eftir annan uppskrifa láta; og þó að þér allareiðu hafið svo margar syndir drýgt sem sandkorn eru á sjávarströnd, grös á jörðu eður stjörnur á himnum, þá skulu þær fyrirgefnar verða. Hver sem ekki trúir bréfi þessu sá skal deyja, og smábörnin skulu annan dauða bíða, annars skuluð þér í helvítis eldi eilíflega pínast. Á þeim degi spyr ég yður sérdeilis, og munuð þér ekki svara einu orði á móti þúsund sökum yðvarra synda. Hver sem þetta bréf hefir í sínu húsi eður á sér ber, hann skal hvorki reiðarþruma né ófriður niður slá, svo og skal hann fyrir vatni og eldi verndaður verða. Hver sú jómfrú sem þetta bréf hefir eður á sér ber, hún mun fá einn gleðilegan viðskilnað og afgang við þessa veröldu.

Haldið mín boðorð, sem ég með minni eigin hendi skrifað og fyrir engilinn Mikael sent og opinberað hefi. Ég er sannarlega Jesús Kristur.