Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Hvalurð undir Tindastól

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Milli Laxárdals ens ytra að vestan og Reykjastrandar að austan gengur Tindastóll (að fornu Eilífsfjall) í sjó fram. Á einum stað norðan undir fjallsendanum hefir heitið Hvalurð, en lítinn vott sér nú urðar þessarar. Það er í munnmælum haft að [þar] hafi eitthvert sin rekið hval sem síðan féll urðin og vildu presturinn til Hvamms og bóndinn á Sævarlandi (aðrir segja það hafi verið bóndinn á Reykjum á Reykjaströnd) báðir eiga hvalinn. Kvað bóndi hann rekinn fyrir sínu landi, en prestur sagði Hvammskirkju eiga reka allan á því sviði. Er þá mælt að prestur og djákn hans hafi farið í kirkjugarð í Hvammi og skorið sér íleppa úr garðinum innan í skó sína, farið síðan á hvalfjöruna og svarið þann eið að þar stæði þeir á landeign Hvammskirkju. En í þeim svifum hljóp skriða mikil úr bjarginu fyrir ofan og varð prestur þar undir og skipverjar hans allir nema djákninn, hann komst undan í það sinn. Hann hélt síðan heimleiðis inn Reykjaströnd og út Laxárdalsheiði og fórst í polli nokkrum mjög djúpum nálægt miðja vegu milli Hvamms og Skíðastaða. Þar heitir síðan Djáknapollur.