Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Kölski hræðist kerlingu
Kölski hræðist kerlingu
Hjón ein voru það sem svo vel kom saman að aldrei bar á milli. Þar hjá þeim hjónum var kerling ein, fóstra konunnar, en fleiri manna er ekki getið til sögunnar. Kölski kom að máli við kerlingu þessa og gat þess að hann hann hefði öll sín brögð og ráðkróka í frammi haft til að komast upp á milli þeirra hjóna, en engu geta áorkað. Kerling tók þetta óstinnt upp fyrir honum; sagði það líklegt að hann sem væri þúsund véla smiður skyldi auðvirðast þannig. Kölski varð hissa af því hvað kerling hældist yfir honum og lofaði að gefa henni það hún óskaði af honum ef hún gæti áorkað því að samlyndi þeirra hjónanna bilaði. Það varð akkorð milli þeirra að hann skyldi gefa henni skæði til þess.
Kerling kom nú að máli við konuna og taldi henni trú um ef hún rakaði févörtuna[1] sem væri á hálsi manns hennar með hníf af honum sofandi þá mundi ást þeirra aldrei verða endaslepp. Konan var auðtrúa og gerði þetta að manninum sofandi. Vaknaði hann og ætlaði hún mundi hafa ætlað að myrða sig sofandi; gréri aldrei um heilt með þeim upp frá því.
Nú varð kölski ánægður og kom með skæðin, en svo var hann hræddur við kerlingu að hann þorði ekki að rétta henni skæðin nema með stöng.
- ↑ Févarta er kölluð varta með löngum hárum sem oft er á kinn eða í hársrótum á mönnum. [Hdr.]