Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Kölski var vinnumaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kölski var vinnumaður

Einu sinni var bóndi fyrir vestan sem var svo vinnuharður að enginn tolldi hjá honum. Hann var ekki mjög guðrækinn, en átti guðhrædda konu. Þegar hann fékk engan vinnumann lengur nærri sér fór hann suður á land og fékk þar tvo vinnumenn sem treystu sér vel, en þegar þeir höfðu verið viku hjá honum rak hann annan burt. Svo leið önnur vika; þá strauk hinn. Skömmu síðar kom maður til bónda og bauðst honum til vinnumanns. Hann tók þann mann; ekki vildi konan það. Við þenna mann líkaði bónda vel því hann var ákafari en hann sjálfur að vinna, en þó ákafastur á sunnudögum. Hann var þar árið og líkaði bónda betur og betur við hann. Þeir unnu á sunnudögum eins og öðrum dögum og hætti bóndi öldungis að fara til kirkju, og þegar fram á leið bannaði hann að lesa nokkuð gott á heimilinu, því vinnumaðurinn vildi það ekki. Konan var angruð af þessu ráðlagi manns síns. Einu sinni þegar þeir voru ekki við fór hún að finna prestinn og sagði honum af öllu háttalagi á heimilinu og bað hann að hafa einhvur ráð. Hann sagði að vinnumaðurinn mundi vera kölski, sagðist lítil ráð mundi hafa, „en verða mun ég á ferð innan skamms,“ sagði hann. Hún fór heim aftur, en nokkru seinna þegar allir voru heima kom prestur þar eitt kvöld. Allir voru háttaðir og fór prestur upp á glugga vinnumannsins og guðaði. Konan tók undir, en ekki aðrir. Prestur bað ljúka upp fyri sér. Konan bað vinnumanninn að gjöra það. Hann aftók það, sagðist ekki þakka fyrir það að verið sé að gjöra sér ónæði og mætti þessi bölvaður dóni vel hírast úti. Prestur sá að ekki mundi verða lokið upp. Hann las þá þrisvar faðirvor yfir rúmi vinnumanns á glugganum. Þá kom jarðskjálfti og heyrðist brak í rúmi vinnumannsins, en þegar það leið frá fór konan ofan og kveikti ljós og leiddi prest inn. Þá sást vinnumaður hvurgi, en rúmið molað. Prestur gjörði þá bónda áminningu og viknaði hann þegar hann sá hvurnig allt hafði verið lagað. Sagði hann að svo guðlítill sem hann hefði áður verið, svo guðlaus hefði hann verið meðan kölski var þar. En eftir þetta bætti hann ráð sitt og varð guðhræddur, en ekki vinnuharðari en góðu hófi gegndi, elskaði konu sína miklu meira en áður og hafði prestinn í miklum kærleik meðan þeir lifðu báðir.