Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Kerlingin og kölski

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það var einu sinni að kölski hitti förukellingu á leið milli bæja og segist nú ætla að biðja hana bónar. Kelling spyr hvað það sé. Hann segir þar í sveitinni á einum bæ sem hann til tekur séu hjón (og nafngreinir þau) sem sér sé ómögulegt að spilla á milli, hvörnin sem hann reyni til þess, en segist ómögulega geta vitað þau unnist svo heitt eins [og] þau gjöri og því ætli hann nú að biðja hana að reyna til þess hvört hún geti ekki raskað samlyndi þeirra fyrir sig. „Ja, það er minna,“ segir kelling, „en ég komist neinstaðar fyrir skóleysi; sona má ég ganga á beru holdinu gegnum sokkaræflana mína og enginn vill gefa mér skæði á fæturnar.“ „Ég skal gefa þér gagnleg leðurskæði ef þú getur orðið við bón minni,“ segir kölski. „Ha, ha, jæja, ég skal bera mig að skjökta þangað,“ segir kelling.

Svo skilja þau nú þarna og kelling gengur leið sína og hættir ekki fyrr en hún er komin að bænum sem þessi góðu hjón voru á og bað þau nú að lofa sér að vera. Þetta voru mestu gæða- og góðgjörðahjón og tóku nú meðaumkunarsamlega móti kellingarskrokknum og gjörðu henni vel til góða um kvöldið. Þegar maðurinn er lagztur út af og sofnaður þá fer kelling að virða hann fyrir sér þangað til hún tekur til orða og segir: „Mikið gæfulegan mann átt þú kona, en þó sé ég nokkuð á honum sem er ólánsmerki.“ „Hvað er það?“ segir konan. „Það eru hárin sem eru undir kverkinni á honum,“ segir kelling, „ég segi þér satt, hann hlýtur einhvörn tíma illt af þeim, því þeim fylgir mikið ólán. Eg vil nú ráðleggja þér að raka þau í burtu og gjöra það strax á meðan hann sefur. Ég skal lýsa þér til þess.“ Konuskepnan var einföld og trúði kellingunni, tekur skegghnífinn mannsins og fer að raka af kverkunum á honum. Í því talar kelling hastarlega til hans: „Vaknaðu maður, konan þín ætlar að skera þig á háls.“ Maðurinn hrökk fljótt upp og varð dauðillt við þetta sem kellingin sagði. Honum virtist að hann mundi eiga henni líf sitt að þakka, því konuna sá hann þar hjá sér með nakinn hníf í hendi. Konan varð nú hrædd líka og sagðist ekki hafa ætlað að gjöra honum mein; annars var hún fáyrt í það sinn, en hann gaf öngvan gaum að því sem hún sagði, heldur miklu framar að óðamælgi kellingarinnar sem var því þverstæðileg. Nú varð hann bæði hryggur og reiður við konuna sína og rak hana svo í burt.

Um morguninn fór nú kelling á stað og getur ekki um ferð hennar fyrr en hún kom að einnri á; þá sá hún hvar kölski kom hinumegin að ánni með stöng og hefur skæðin á öðrum endanum á henni og réttir þau svo á stönginni að kellingu yfir um ána og segist nú ekki geta komið nær henni af því hún sé orðin verri en hann því henni hefði nú tekizt það sem sér hefði aldrei getað tekizt. Kelling þakkar honum fyrir skæðin og segist nú muni geta komizt það sem hún þurfi að fara. Kölski segir að þetta sé nú lítið fyrir greiðann sem hún hefði gjört sér; hún skuli nú biðja sig einhvörs meira í staðinn. Kellingu þykir nú ógna vænt um [að] heyra þetta og segist þá ætla að biðja hann nokkurs, það sé að gjöra allar kellingarnar þar í sveitinni að gulli (gulllegar, held ég), en hún segist vilja verða ein með í þeirra tölu. Kölski lofast til að gjöra þetta og segir henni þá að safna þeim öllum þangað að ánni. Kelling gjörir þetta og kölski var þar nú hinumegin við ána. Hérna segist hún nú vera komin með kellingarnar ef hann ætli að gjöra það sem hún hefði beðið hann, og kellingarnar tóku nú undir hvör með annari og sögðust vera komnar. Kölski segir þær skuli þá allar nema vonda kellingin fara þar á einn hól. „Nú, hvað er þetta, á ég ekki að fara þangað líka?“ segir kelling. „Þú munt þó valla geta gjört þær að gulli, hugsa ég, nema ég verði hjá þeim.“ „Jæja, farðu þá með þeim,“ segir kölski. Svo fóru þær nú allar á hólinn og ekki kom kölski til þeirra. Þegar þeim var nú farið að leiðast þá tala þær til hans og spurja hvört þær eigi nú að sitja hérna lengi til einkis. Hann segir þær munu mega fara heim aftur eins og þær séu, því ein þeirra sé langtum verri en hann og fyrir það geti hann ekki komið nærri þeim. Vonda kellingin lét nú sem sér þætti mikið við kölska og segir hann skuli aldrei hafa neitt að gjöra með sig fyrst hann hefði ekki getað gjört það sem hún hefði beðið hann. Svo fóru kellingarnar óumbreyttar heim aftur hvör til síns bæjar.