Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Kirkjuprestur í Skálholti

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni var umferðadrengur í Biskupstungum sem hafði verið alinn upp á sveit og hafði engin rækt verið lögð við hann. Hann hafði bæði lús og geitur og kunni ekkert gott orð í sinn búk. Svo hafði honum verið sleppt út á húsgang þegar hann var fær um að flakka milli bæja. Hann var svo nótt og nótt á bæjum og fleiri þar sem honum líkaði vel og þar kom hann oftast. Hvurgi kom hann eins oft eins og að Skálholti því þar átti hann alltaf gott, og þegar hann fór var honum alltaf gefið nokkuð með sér. Skólapiltar spottuðu hann og hæddu, en hann kærði sig ekki um það og þótti gaman að koma til þeirra. Biskupinn átti sér frú og með henni eina dóttur efnilega. Hún var á aldur við drenginn. Einu sinni þegar drengurinn kom til skólapilta buðu þeir honum sína kökusneiðina hvur og gráða við ef hann færi til biskupsdóttur og beiddi hana að eiga sig. Hann var tregur til þess, en lét þó leiðast til og fór til hennar og sagði við hana: „Ekki vænt' ég þú vilir gera svo vel og eiga mig?“ Hún brosti og sagði: „Foreldrar minir ráða því.“ Hann fer með það til skólapilta og segir þeim. Þeir segja þetta sé ónýtt, hann verði að fara til biskupsfrúar og biðja hana að gefa sér dóttur sína. Það segist hann ómögulega geta. Þeir bjóða honum sína kökuna hvur og gráða við ef hann gjöri það. Hann lætur til leiðast og fer til frúarinnar og segir: „Ekki vænt' ég þér viljið gjöra svo vel og gefa mér dóttur yðar.“ Hún svarar: „Skólapiltarnir mínir hafa skipað þér a-tarna.“ Hann fer til skólapilta og segir þeim þetta. Þeir hlæja að, en segja samt að ekki sé fullreynt enn, hann verði að biðja biskupinn líka. Hann sagði það væri frá. Þeir sögðust þá ekki skyldu gefa honum neitt og hann skyldi hafa verra af ef hann gerði það ekki. Hann fór um síðir, gekk að stofudyrum biskups og segir til hans: „Ekki vænt' ég þér viljið gjöra svo vel og gefa mér dóttur yðar?“ Biskup anzar honum ekki, en kallar á bryta sinn og segir við hann: „Gefðu drengnum arna hálfsmánaðar matarforða og láttu hann svo fara og segðu honum að koma hér aldrei oftar svo skólapiltar hafi hann ekki að leika sér að. Ég veit ekki nema þeir drepi hann annars á endanum.“ Brytinn gjörir þetta, en á meðan hann er að taka til matinn fá skólapiltar drengnum kökurnar og gráðann, og þegar hann er búinn að taka móti gjöfunum fer hann og liggur illa á honum af því að mega ekki koma oftar í Skálholt. Hann ætlar nú yfir að Laugarási og vera þar um nóttina.

Milli Skálholts og Laugaráss eru keldur þær sem Draugaslóðar heita. Þegar drengurinn kemur þangað mætir honum maður vel búinn og höfðinglegur, og heilsast þeir. „Kemurðu frá Skálholti?“ spyr maðurinn. Drengurinn sagði það vera. „Voru skólapiltarnir ekki að spotta þig núna?“ segir komumaður. Drengurinn lét lítið yfir því. „Þeir munu,“ sagði komumaður, „hafa verið að koma þér til að biðja biskupsdótturinnar?“ „Til orða kom það,“ segir drengur. „Hvað viltu vinna til þess,“ segir komumaður, „að ég komi því til leiðar að biskup láti kenna þér til prests og gefi þér dóttur sína?“ „Það getur þú aldrei,“ segir drengur. „Það get ég,“ segir hinn, „en þá verðurðu að lofa mér því að koma til mín fyri vinnumann þegar þú ert þrítugur.“ „Ekki fer ég vinnumaður til þín,“ segir drengur, „en ef þú kemur þessu til leiðar skal ég gefa þér nógan gráða sem skólapiltar gáfu mér,“ því drengurinn hugsaði að þetta væri spaug, því var hann vanastur. Komumaður varð styggur við og sagðist ekki þurfa gráða hans, en sagði sér væri alvara. „Ertu vitlaus,“ segir drengur, „að ég muni þá strax skilja við konuna og fara til þín?“ „Þá þegar þú ert fertugur,“ segir hinn. „Ekki heldur,“ segir drengur. „Þá fimmtugur,“ segir hinn. „Ojá,“ segir drengur, „þá verðum við búin að lifa það glaðasta saman.“ „Jæja,“ segir komumaður, „ef ég kem því til leiðar sem ég sagði, þá skaltu standa undir kirkjugaflaðinu í Skálholti fimmtugustu nýársnóttina sem þú lifir.“ Drengur lofar því. Honum kom ekki til hugar að þetta gæti verið alvara. Þeir skilja nú og fer drengurinn að Laugarási og er þar um nóttina. Um morguninn koma þar tveir sendimenn frá Skálholti og vekja drenginn, færa honum ný föt að fara í og biðja hann að flýta sér, biskupinn vili finna hann. Drengurinn varð hræddur og hugsaði að nú ætti að launa sér dirfskuna að hann hafði beðið biskupsdóttur. Hann þorði samt ekki annað en fara með sendimönnum. Þegar þeir koma í bæjardyr í Skálholti kemur þjónustustúlka biskups móti þeim, tekur drenginn og fer með hann inn í eitthvurt afhús, gjörir honum laug og fer svo að græða úr honum geiturnar. Þegar það er búið lætur biskup drenginn fara í skóla og lagði ríkt á að skólapiltar gjörðu ekki illa við hann. Drengnum gekk vel að læra því hann reyndist gáfaður. Að fáum árum liðnum var hann útlærður og þá lét biskup hann sigla til háskólans. Þar var hann þrjú ár og útskrifaðist síðan með bezta vitnisburði, kom svo út og fór í Skálholt til biskups og varð þar mikill fagnaðarfundur. Vígði biskup hann nú til kirkjuprests í Skálholti, gifti honum dóttur sína og fekk honum bú á Torfastöðum.

Nú liðu mörg ár svo ekkert bar til tíðinda þangað til biskup var orðinn háaldraður og prestur kominn á fimmtugasta árið, þá kom honum allt í einu í hug maðurinn sem mætti honum forðum í Draugaslóðum og það sem þeir töluðust við; áður mundi hann aldrei til þess. Þykist hann nú vita að þetta muni vera kölski, og fer nú að liggja illa á honum. Kona hans spyr hvað að honum gangi. Hann sagði henni það ekki hvurnig sem hún gekk eftir honum. Hún varð óróleg af þessu og fór að finna föður sinn og sagði honum þetta. Hann sendi eftir presti og kom hann að Skálholti. Biskup fer að ganga á hann og vill vita hvað honum er til angurs. Hann var tregur að segja frá því, en svo fór að hann sagði biskupi upp alla sögu. Biskup sagði að þetta mundi hafa verið kölski og mundi nú þykjast kominn að kaupinu, „því nóttina sem þú vart í Laugarási,“ sagði hann, „dreymdi mig að það kæmi til mín ljóssins engill og segði við mig: „Það er ólukkumerki fyrir þig að kenna ekki drengnum og gefa honum dóttur þína.“ En mig hefir ekkert grunað um það fyrr en nú. Þú skalt koma hér á gamlaársdag í vetur og vitum við hvurnig fer. Vertu ókvíðinn og treystu guði.“ Prestur fer nú heim og er glaðari eftir en áður. Á gamlaársdag fer hann í Skálholt og kona hans með honum. Biskup tekur þeim vel og eru þeir mágar á tali til kvölds og fær enginn að koma til þeirra. Seinast um kvöldið leiðir biskup prestinn út í kirkju fyrir altarið og færir hann í messuskrúðann, helgar vín á kaleikinn og fær hönum í hönd og segir: „Þú skalt ekki fara héðan með neinum nema hann gjöri áður bæn sína í skriftasætinu og drekki upp úr kaleiknum.“ Síðan fer biskup frá honum og líður nú fram á nótt. Þá kemur kona prestsins til hans og segir: „Nú ertu laus við allt þetta; komdu nú með mér inn í bæ og vertu ekki að standa hér einn lengur.“ „Þá verðurðu fyrst að gjöra bæn þína í skriftasætinu og drekka úr kaleiknum.“ „Ekki fer ég að drekka það svona misreitis,“ segir hún, „það er ekki svo langt síðan við vórum til altaris. Þú getur komið með mér þó ég geri það ekki.“ Hann sagðist ekki mundi þá fara með henni. Þá varð hún reið og sagðist ekki mundi ganga eftir honum næsta sinni og með það fór hún út. Stundarkorni seinna kemur inn til hans maðurinn sem mætti honum í Draugaslóðum forðum, og sagði við hann: „Ekki efndir þú vel orð þín við mig. Þú lofaðir að standa undir kirkjugaflaðinu í Skálholti.“ „Ég stend þar,“ segir prestur, „þú tókst aldrei fram hvorum megin ég átti að standa undir því.“ „Komdu þá með mér,“ segir maðurinn. „Ég get ekki farið héðan,“ segir prestur, „fyrr en þú ert búinn að gera bæn þína í skriftasætinu og drekka úr kaleiknum. Muntu ekki láta það standa lengi í vegi.“ „Þú þarft ekki að setja mér neina afarkosti,“ segir maðurinn, „það er annaðhvort þú kemur með mér skilmálalaust eða þú svíkur mig.“ „Það eru ekki svik,“ segir prestur, „því þetta er þér neyðarlaust, en ekki fer ég héðan fyrr en þú ert búinn að því.“ „Þú ætlar þá að svíkja mig,“ segir hinn og stökkur út með reiðisvip og skellir í lás eftir sér. Stundu seinna kom biskup til prestsins og gjörði áður bæn sína í skriftasætinu; hún var samt ekki löng. Síðan segir hann við prestinn: „Nú er komið að degi og nú er þrautin unnin, komdu nú með mér.“ Prestur segir hann verði þá að drekka úr kaleiknum. „Trúirðu mér þá ekki heldur?“ segir biskup; „það var aldrei tiltekið að ég skyldi drekka úr honum.“ „Það var ekki heldur undantekið,“ segir prestur. „Komdu með mér ef þú heldur ég vilji þér ekki illa,“ segir biskup. „Ég vona þú hafir ekki reynt það af mér að þú trúir mér ekki nema ég drekki það.“ Þá hugsar prestur að biskup muni reiðast ef hann hlýði ekki; snýr hann sér þá að altarinu og ætlar að setja þar kaleikinn. Þá var hringt. Biskupinn sem stóð hjá prestinum sökk þá allt í einu og gólfið luktist saman yfir honum. Og nú kemur biskupinn sjálfur og gerir bæn sína í skriftasætinu, tók síðan við kaleiknum og drakk úr honum og sagði: „Komdu nú með mér, það er nú óhætt með guðs hjálp. Það var í dögun þegar ég hringdi, og nú vona ég þú verðir ekki ásóktur framar.“ Þeir ganga þá inn í bæ. Biskup hafði verið úti í kirkju alla nóttina og vitað hvað leið. Þegar þeir komu inn spurðu þeir biskupsdóttrina (prestskonuna) hvort hún hefði farið út í kirkju um nóttina og hafði hún ekki gjört það. Síðan sagði prestur öllu fólkinu allt sem gerzt hafði, og sannaði biskup sögu hans. Allt fólkið lofaði guð fyrir frelsi prestsins. Hann var nú í Skálholti fram yfir þrettánda og fór svo heim til Torfastaða. Nokkru seinna dó biskupinn af elli og harmaði prestur hann mikið. Hann var líka hræddur um að hann mundi fremur verða ásóktur af kölska eftir það, en það varð þó ekki. Lifði hann svo farsæll og ánægður með konu sinni og var kirkjuprestur í Skálholti til ellidaga.