Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Komdu aftur ef þú villist

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Komdu aftur ef þú villist“

Einu sinni var bóndi einn norður í Miðfirði er útýsti öllum er til hans komu hvernig sem á stóð; bóndi þessi hét Bjarni. Einhvern tíma kom snauður maður til hans í byl og beiddist gistingar, en var úthýst. Fannst beiningamaðurinn nokkru seinna dauður skammt frá garði bónda og hafði hann orðið úti í bylnum. En bóndi fann það sér til málsbótar að hann hefði sagt hinum snauða að koma aftur ef hann villtist. Þá var prestur á Melstað er hét Bjarni[1] og gjörði hann bónda áminningu. Lauk hann orðum sínum þannig: „Eins og þú lokar dyrum húss þíns fyrir nauðstöddum bræðrum, eins mun guð loka dyrum himnaríkis fyrir þinni aumu sál.“ Þá svaraði bóndi: „Á, haldið þér það, nafni? Ég sé ekki í það, ég loka samt.“

  1. Eftir siðabótina er aðeins talinn einn prestur á Melstað sem Bjarni hafi heitið og var Pétursson; hann var þar frá 1760-1790.