Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Krossbæn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Bænin sem engill guðs kom með af himnum og færði þeim heilaga páfa í Róm sem var bróðir Karlamagnúsar keisara og skrifaði fyrir nefndan páfa og færði þá bæn keisaranum.

Kraftur bænarinnar er svo mikill að hvor sem hana á sér ber hann skal aldrei í sjó eða vatni drukkna, ei heldur brenna, ekki heldur galdur granda, ekki uppvakningar eða draugar og enginn vondra manna ásetningur. Og sú dándiskvinna sem bæn þessa á sér ber mun aldrei sitt fóstur með miklum harmkvælum fæða, ei heldur dautt bera, heldur skal móðirin líf og heilbrigði hafa, en barnið skírn og sköpun rétta.

Fleiri dyggðir fylgja þessari bæn sem of langt er upp að telja.

Bænin er þetta:

Jesú Kristí kross er eitt öruggt vígi. Jesú Kristí kross er einn dásamlegleiki. Jesú Kristí kross yfirvinnur hvört sverð. Jesú Kristí kross yfirgengur hvört vatn. Jesú Kristí kross heilbrigði mig og veri mér í dag og alla tíma yfir og eftir og hvar sá grimmi djöfull og andskoti sér mig þá flýi hann frá mér í míns herra Jesú nafni. Jesú Kristi kross taki frá mér allt vont. Jesú Kristí kross taki alla pínu. Jesú Kristí kross varðveiti mig og mitt líf. Í Jesú Kristí heilögu krossmarki gjöri ég alla varðveizlu fyrir mig. Jesús Kristur gekk grátandi milli þeirra sem hann krossfestu. Jesús Kristur guðsson varðveiti mig frá allri ólukku. Í nafni föðurs, sonar og anda heilags. Amen.