Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Leiðslan og sjónirnar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Leiðslan og sjónirnar

Það er upphaf þessarar sögu að einu sinni var prestur fyrir vestan. Hann var bæði ágjarn og ranglátur, dramblátur og sérlundaður. Meðal annars tók hann upp á því að hann embættaði eigi síður á rúmhelgum en helgum dögum og kallaði jafnvel helgidagsbrot að koma til kirkju á helgum dögum.

Einu sinni um vetur bar svo við að komið var með barn til skírnar til prestsins; en veður var slæmt og illt útlit. Þeir sem með barnið komu báru upp erindi sitt við prest; en hann ávítaði þá harðlega eins og vandi hans var til og sagði að þeir hefðu átt að gefa sér vitneskju um þetta áður, neitaði að skíra barnið og rak þá í burtu. En svo tókst til að bæði barnið og þeir sem með það fóru urðu úti á heimleiðinni. Prestur gjörði sér enga samvizku af þessu og hélt sama vana um framferði sitt sem áður.

Næsta sumar eftir þetta gjörði prestur boð um sóknina að hann hefði ásett sér að messa næstkomandi fimmtudag, en það var um hásláttinn. Sóknarmenn sögðu engir já til þess, en enginn þorði heldur að neita því. Þegar fimmtudagur kom bjóst prestur við embætti; en þegar honum þótti sóknarfólkinu seinka rauk hann út í kirkju og fór að ganga þar um gólf. En þegar hann hafði verið þar um stund kom til hans maður ókenndur og ætlaði að heilsa presti; prestur tók ekki kveðju hans, en spyr hann þó hvort hann hafi ekki séð fólkið koma. Komumaður spurði hvaða fólk hann ætti við. „Kirkjufólkið,“ segir prestur. Þá segir komumaður: „Því átti fólk að koma í dag þar sem nú er rúmhelgur dagur? Það er einkis dæmi; því nú eru allir við heyannir enda mun enginn koma.“ Prestur mælti: „Hvað vilt þú hér um tala? Fólk má vel koma til kirkju fyrst ég hef boðað það.“ Komumaður sagði: „Þetta kalla ég undarlega háttsemi, enda muntu kynlegur í fleiru prestur minn og ólíkur öðrum mönnum, og fleira mun hér undarlegt finnast ef að er gáð.“ Prestur varð mjög hastur við þetta og spurði hvað honum þætti þar svo undarlegt. Maðurinn sagði: „Sýnt get ég þér það og skulum við báðir út ganga.“ Þeir gjöra nú svo; þegar þeir komu út fyrir kirkjudyrnar sá prestur þar ker mikið og aflangt og fullt á barma; var blóð öðrumegin í kerinu, en mjólk hinumegin, og blandaðist ekki saman. Þetta undraðist prest svo hann gekk að kerinu, rak hendina ofan í það og vildi hræra saman hvorutveggja; en það blandaðist ekki heldur. Þá mælti prestur: „Víst er þetta undarlegt.“ Maðurinn svaraði: „Víst er svo; en fleira er þó líkt þessu.“ Prestur spurði þá komumann hvað þetta þýddi; en komumaður sagði hann skyldi seinna vita það.

Þeir gengu nú út úr kirkjugarðinum og þangað til fyrir þeim verður stöðuvatn. Þar sjá þeir þrjá fugla synda á; voru tveir þeirra fullorðnir, en einn ungi. Þessi ungi hefur sig þegar til flugs er þeir prestur komu að vatninu og sezt í hárið á prestinum og kroppar fast. Prestur ætlar að losa fuglinn úr hári sér, en gat ekki. Biður hann þá förunaut sinn að hjálpa sér. En hann sagðist ekki mega það að svo stöddu. Halda þeir nú áfram og koma að á einni mikilli; féll hún niður af háum fossi; undir honum stóð maður. Sá gein undir bununni og gleypti í sig ána, en vatnið rann aftur út um búk hans allan eins og njarðarvött. Þetta þótti presti kynleg sjón. Því næst komu þeir að annari á; hún féll og fram af háu bjargi og stóð þar einnig maður undir og drakk í sig ána; en hvergi sá prestur vatnið renna aftur frá manninum. Ekki fékk prestur að vita hvað þetta þýddi.

Enn gengu þeir lengra og komu í haglendi fagurt og grösugt. Þá sá prestur sauði tvo bæði ljóta og magra; þeir voru svo gishærðir að telja mátti hárin á þeim. Annað veifið rifu þeir grasið í sig með græðgi eins og soltnir vargar, en hinn dyntinn hlupu þeir saman og börðust og vildu reka hvor annan burtu úr haglendinu. Presti þótti þetta undarlegt og spurði förunaut sinn hvort sauðirnir hefðu lengi gengið í þessu hagkvisti; hinn kvaðst ætla að svo væri. Þessu næst komu þeir á hrjóstrugaa heiði og graslitla; var þar varla annað en grjót og sandur. Þar sá prestur enn tvo sauði. Þeir lágu hvor hjá öðrum eins og bræður og voru feitir og fallegir eins og þeir hefðu gengið í bezta haglendi. Þeir voru að jórtra og beygðu saman höfuðin, og svo virtist sem hvorugur mætti af öðrum sjá.

Enn gengu þeir lengra fram og sá þá prestur höll svo mikla og fagra að aldrei hafði hann áður slíkt séð. Umhverfis höllina voru grænir vellir og angaði lyktin af blómunum í móti þeim. Þar voru alls konar söngfuglar og sungu þeir mjög yndislega. Í höllinni sjálfri heyrði glaum og gleði, söng og hljóðfæraslátt. Allt var þar svo unaðslegt og fagurt að ekkert mátti indælla hugsast. Prestur segir þá við förunaut sinn: „Nú ætla ég ekki að fara lengra; lofaðu mér að vera hér.“ „Nei, hér máttu ekki vera,“ sagði aðkomumaður; „þér er ætlaður annar staður.“ Gengu þeir þá enn nokkra stund. Þá sér prestur hús eitt. Það var að öllu gagnstætt hinu fyrra; ódaun lagði þar á móti þeim, og allt var þar andstyggilegt og ljótt. Einnig voru þar fuglar ef fugla skyldi kalla; þeir emjuðu og veinuðu í sífellu. Þegar prestur heyrði það greip hann bæði ótti og leiðindi og biður hann förunaut sinn að fara þaðan sem skjótast í burtu aftur. Þá segir aðkomumaður: „Nei, hér skaltu vera; þetta er sá staður sem þú og allir illir menn eiga að vera á.“ „Æ,“ segir prestur, „lofaðu mér burtu héðan og kenndu mér ráð til þess að þetta verði ekki minn bústaður.“ „Það skal ég gjöra,“ segir aðkomumaður; „en vita skaltu að þetta er kvalastaður vondra manna og lítið sýnishorn af helvíti sem þú hefur unnið til með langvinnum vonzkuverkum, og getur þú umflúið þann stað með því að bæta við þitt og iðrast gjörða þinna.“ Prestur lofaði þá bót og betran.

Snéru þeir nú aftur og komu að hinu fagra húsi. „Þetta er sá staður sem búinn er góðum mönnum og guðhræddum,“ segir aðkomumaður, „og indæli þessa staðar er lítill forsmekkur eilífrar gleði guðs barna sem þú hefur hafnað með syndum þínum og löstum.“ Síðan koma þeir til sauðanna hinna spöku og sællegu. „Þessir sauðir þýða fátæklingana sem lifa ánægðir af því sem drottinn úthlutar þeim og æðrast eigi þó ekki sjái þeir allt fyrir augum sér sem hafa þarf, en lifa í ástúðlegri sambúð hver við annan.“ Þá komu þeir til hinna ljótu sauða og óværu. Aðkomumaður mælti: „Þessir sauðir þýða ríkismennina sem sýnast hafa allsnægtir, en eru þó aldrei ánægðir og þrífast aldrei af því þeir fíkjast æ eftir meiru; en ósamlyndi sauðanna merkir úlfbúð þá og fjandskap sem auðmennirnir ala hver til annars.“ Þessu næst komu þeir að ánni þar sem maðurinn gleypti hana alla í sig undir fossinum. Þá mælti aðkomumaður: „Þessi á merkir illgirnissyndina sem börn þessa heims drekka í sig og vilja aldrei aftur sleppa og deyja svo í syndum sínum svo að fyrr yfirgefur syndin þá en þeir hana.“ Nú halda þeir þangað sem áin rann ofan í manninn og alls staðar út um hann aftur. „Þessi á merkir breyskleikasyndina,“ segir förunautur prests, „sem jafnan yfirstígur guðsbörn, en sem þeir óðar reka burt úr hjarta sínu.“[1] Eftir það komu þeir að vatninu sem fuglarnir þrír sátu á. Þá segir aðkomumaður: „Þessir stóru fuglar tveir merkja menn þá tvo sem þú rakst frá húsi þínu um vetur út í illviðri með óskírða barnið.“ Því næst komu þeir að kerinu við kirkjudyrnar og var það enn óbreytt og óblandað. Þá segir aðkomumaður: „Hér sér þú blóð það er þú hefur sogið út af þeim fátæku og það er þú hefur tekið af þeim ríku. Það getur aldrei blandast saman og máttu nú bæta þeim fátæku og gjöra meiri jöfnuð á því er þú tekur af fátækum og ríkum.“

Nú var ferð þeirra lokið. Gengu þeir þá inn í kirkjuna og biður prestur förunaut sinn að losa fuglinn úr hári sínu. „Það skal ég gjöra,“ segir hann, „en þú skalt vita að það er hefndarandi barns þess er þú synjaðir skírnar og skaltu nú skíra það.“ Losar svo aðkomumaður fuglinn úr hári prests, en prestur skírði; eftir það flaug fuglinn burtu og hvarf. Síðan féll prestur á kné og baðst fyrir. Þegar hann hafði lokið bænagjörð sinni gengu þeir báðir út úr kirkjunni, hann og förunautur hans, og hvarf hann presti sjónum í kirkjugarðinum. Prestur gekk þá heim til bæjar; en þá mætti honum annar prestur. Sá heilsar honum og spyr hver hann sé. Gamli presturinn segir honum það og spyr hvernig á honum standi. Hann segist hafa þjónað þar síðan presturinn hefði horfið þaðan hérna um árið, „og eru það nú sjö ár,“ segir hann. Gamli presturinn varð mjög undrunarfullur við þetta og sá nú að engill guðs hafði leitt [hann] og að hann hafði verið í leiðslunni í sjö ár. Lét hann sér sjónirnar að kenningu verða, bætti ráð sitt og gekk í klaustur það sem eftir var ævinnar. Og lýkur svo þessari sögu.

  1. Ævintýrin fara skemmra yfir þýðinguna; þar stendur: Þessu næsta koma þeir að fossunum. Þá segir aðkomumaður: „Hér sér þú dæmi þess er drekkur í sig ranglætið sem vatn, en lætur það ei festa rætur hjá sér; en hinn maðurinn er dæmi þess sem drekkur í sig ranglætið eins og vatn og elur það æ með sér.“