Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Malaðu hvorki malt né salt

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Malaðu hvorki malt né salt“

Einu sinni var ríkismaður. Hann átti eitthvert mesta höfuðból sem hann sat á sjálfur. Hann átti konu og með henni tvo syni uppkomna, og kvongaða þegar þessi saga gerðist. Annar þeirra var auðsæll sem faðir hans og átti fjögur börn, en hinn var fátækur og lifði mest á því sem hann fékk úr föðurgarði. Þegar faðir þeirra dó fóru bræðurnir að skipta með sér arfi. En svo fóru leikar með skiptin að auðmaðurinn hreppti höfuðbólið og nálega allar eigur aðrar því honum þótti bróðir sinn vera búinn að taka út arf sinn í bitum og sopum á undan. Eftir það settist ríki bróðirinn á höfuðbólið og kom bróðir hans oft heim úr hjáleigunni að hitta hann og bað hann sem foreldra sína áður um það sem hann vanhagaði um í þann og þann svipinn. Oftast lét bróðir hans eitthvað af hendi rakna við hann, en jafnan með illu, og treindi svo í honum lífið og konu hans.

Einu sinni slátraði ríki bróðirinn ógnarvænum uxa; þá hugsaði hinn sér til hreifings að nú skyldi hann biðja bróður sinn um bita. Kona hans latti hann til þess og sagði að hann mundi ekki fá hjá honum annað en ónotin ein. Hann sagðist ekkert gefa um það og fór svo heim hvað sem hún sagði þegar nýbúið var að lima sundur uxann og limirnir lágu á borðum á blóðvellinum. Ríki bróðirinn var á vakki þar í kring þegar hinn kemur. Fátæki bróðirinn biður hann að gefa sér ket í eina súpu því nú hafi hann nóg fyrir framan hendurnar og eigi hægt með það. Ríki bróðirinn snýst illa við því og segir að hann gefi honum ekkert, það komi ekki til mála með það; hann hafi ekki ætlað að láta uxann sinn skella í skoltinum á honum. Hinn er þó þangað til að nauða við hann að hann tekur annað uxalærið, fleygir því í hann og segir: „Farðu til fjandans með lærið að tarna.“ Hinn tekur lærið og fer með það heim. Þegar konan hans sá það varð hún glöð við og skildi þó sízt í, því bróðir hans var svona stórtækur, og ætlaði að fara sem fyrst að koma því í pottinn. Maður hennar bað hana að bíða svolítið við; hann bróðir sinn hefði ekki gefið sér það, heldur hefði hann skipað sér að fara með það til fjandans, og langaði sig ekki til að stela því úr sjálfs síns hendi frá skrattanum, og biður hana að fá sér nesti og nýja skó því hann ætlaði undireins á stað með það til kölska. Konan bað hann að vera ekki að heimskunni þeirri arna; hann bróðir hans hafi vissulega gefið honum lærið þó hann hafi tekið svona til orða af því honum hafi runnið í skap af nauðinu úr honum. Bóndi segir að hún megi leggja það út eins og hún vilji, en hann ætli sér að fara með lærið eins og fyrir sig hafi verið lagt. Býr hún svo mann sinn sem bezt hún gat.

Eftir það fer hann og gengur lengi lengi, en veit ekki hvert hann á að halda til að hitta kölska. Loksins mætir honum maður á vegi og spyr hann hvað hann sé að fara með nautslærið að tarna á bakinu. Hinn segist eiga að fara með það til fjandans. Ókunnugi maðurinn spyr hvort hann viti hvar kölski haldi sig. Hinn segir nei og bað hann í öllum bænum að vísa sér þangað ef honum væri kunnug leiðin. Hinn ókunnugi sagði að sér væri sú leið reyndar ókunnug, en þó skyldi hann leggja það til með honum að fá honum hnoða sem hann skyldi halda í endann á og mundi það renna á undan honum þangað til hann kæmi að hól einum, þar skyldi hann ljósta á sprota sem hann fékk honum; mundi þá hóllinn opnast og skyldi hann snara lærinu í gapið sem yrði á hólnum; en vara mætti hann sig að vera ekki mjög nærri gapinu. Þá mundi hann sjá koma upp í gapið tvær kvarnir; aðra hvíta, en hina svarta, og skyldi hann taka þá hvítu, en skipta sér ekkert af hinni; svo skyldi hann taka hnoðað og láta það renna á undan sér eins og áður og halda heimleiðis með kvörnina. Fátæki bróðirinn þakkar manni þessum tillögur sínar, kveður hann og heldur svo áfram.

Nú fór allt eins og maðurinn hafði sagt honum fyrir: Hann finnur hólinn, opnar hann með sprotanum, fleygir uxalærinu og segir: „Taktu við, fjandi; hann bróðir minn sendir þér lærið að tarna.“ Koma þá upp kvarnirnar og nær hann þeirri hvítu og heldur á stað á eftir hnoðanu þangað sem hann hafði áður mætt manninum, og var hann þar enn fyrir. Fátæki bróðirinn heilsar honum og spyr hvað hann eigi að gera við kvörnina. Hinn segir að hann skuli búa til utan um vænan og rúmgóðan kvarnarstokk og koma henni vel fyrir á hentugum stað og muni hún mala af sjálfsdáðum allt sem hann mæli fyrir og þurfi hann ekki annað en hafa þenna formála:

„Malaðu hvorki malt né salt
og malaðu í drottins nafni.“

Eftir það skildu þeir og þakkaði fátæki bróðirinn hinum innilega tillögur hans[1] við sig.

Svo kemur hann heim og segir konu sinni allt af sínum ferðum; fer hann svo til og smíðar vænan kvarnarstokk, mesta búmannsþing, og setur til kvörnina; malar hún allt sem hann mælir fyrir, matvæli og allar nauðsynjar þeirra hjóna, svo þau hafa allsnægtir.

Einu sinni hugsar bóndi með sér að gaman væri nú að eiga skildingaráð þó þau þurfi þeirra ekki við þar sem þau hafi nóg af öllu. Hann mælir þá svo fyrir að kvörnin mali gull og hefur allan sama formála sem áður er sagt. Kvörnin tók til að mala og malaði eintómt gull. Þetta bragð lék hann hvað eftir annað svo hann varð á skömmum tíma vellauðugur af gulli. Þá segir hann við konu sína að sér leiki hugur á að vita hvað mikið gull þau eigi. Það segir hún sér þyki óþarfi; þeim sé nóg að þau eigi miklar nægtir af því sem öðru. Bóndi var þó ekki í rónni með það fyrr en hann fann ráð til að vita þetta, og var það með því móti að mæla gullið í mælikeri. En af því þau áttu ekkert mælikerið sjálf brá hann sér heim til bróður síns og bað hann að ljá sér mæliker. Bróðir hans segir konu sinni að ljá honum það. Hún tekur mælikerið, en hugsar með sér hvað það muni geta verið sem hann ætli að mæla; tekur hún þá kvoðu og lætur renna í laggirnar á kerinu og fær svo mági sínum. Hann fer og mælir gullmélið og þegar hann er búinn að því skilar hann mælikerinu aftur.

Mágkona hans fer að gá að kerinu þegar hann er farinn, og sér að gullsandur er fastur í öllum löggunum á því; gengur hún svo með það til manns síns, sýnir honum og segir að bróðir hans mæli gull þar sem þau mæli korn. Hann segist og hafa tekið eftir því að bróðir sinn hafi aldrei beðið sig neins núna lengi síðan hann hafi fengið hjá sér uxalærið, og eitthvað muni þau hafa í hjáleigunni því þau séu orðin sælleg og farin að færa út kvíarnar. Húsmóðirin biður mann sinn að grennslast eftir hvernig á þessu standi því ekki sé einleikið með þessa velsæld mágs síns.

Ríki bróðirinn fer nú á stað því honum var annt um að vita hvernig bróðir sinn hefði komizt að þessum auð. Þegar þeir finnast spyr heimabóndinn hann hvað hann hafi verið að mæla og segir hinn honum satt frá því. Ríki bróðirinn spyr hvernig á þessu standi. Hinn segir að kölski hafi gefið sér kvörn sem mali allt sem nöfnum tjái að nefna eftir formálanum sem hann hafi sent sig með til hans fyrir nokkru. Heimabóndinn kannaðist ekki við að hann hefði nokkurn tíma sent bróður sinn til fjandans, heldur hefði hann gefið honum lærið. „Nei, nei,“ segir hinn: „þú skipaðir mér að fara með það til fjandans og það gerði ég; fyrir það gaf hann mér kvörnina og síðan hef ég hvorki verið kominn upp á þig né aðra.“

Eftir það skildu þeir og gekk bóndi heim heldur hugsandi og sagði konu sinni frá öllu. Þau öfunduðu nú hjáleigubóndann af kvörninni og voru lengi að velta því fyrir sér hvernig þau ættu að fara að því að fá hana; loksins datt þeim í hug að bjóða hjáleigubóndanum alla aleigu sína fyrir hana; skyldu þau svo kaupa sér skip og fara úr landi með kvörnina. Heimabóndi fer nú og falar kvörnina af bróður sínum. En hann var tregur til þess. Bróðir hans býður honum þá alla aleigu sína og höfuðbólið með. Hinn sagði að sér væri ekkert annt um að fá höfuðbólið því hann gæti keypt sér jafngóða jörð nær sem hann vildi; en af því bróðir sinn legði svo sterkar fölur á kvörnina og hann þættist nógu auðugur undir vildi hann gera bróður sínum það til geðs að láta hann fá hana fyrir aleigu hans. Gera þeir svo kaupin og flytur hjáleigubóndinn heim og sezt þar að öllu sem bróðir hans átti eins og það var. En hinn bróðirinn kaupir sér skip, stígur þar á með konu og börn og hefur ekkert með sér nema kvörnina og þóttist þó hafa vel veitt. Þegar þau eru komin nokkuð frá landi ætlar hann að láta kvörnina mala handa þeim nauðsynjar þeirra og hafði upp formálann:

„Malaðu hvorki malt né salt
og malaðu í drottins nafni.“

En kvörnin stóð hvernig sem hann fór að og hvað sem hann sagði. Reiddist hann þá kvörninni og sagði í bræði sinni:

„Malaðu bæði malt og salt
og malaðu í djöfuls nafni.“

Tók þá kvörnin til og malaði bæði malt og salt svo að skipið varð drekkhlaðið, og af því engin ráð voru til að stöðva kvörnina lauk svo að skipið sökk með öllu saman og hefur aldei sézt neitt eftir af því. En haft er það eftir kölska að hann hafi orðið feginn eigendaskiptum kvarnarinnar því þar hafi hann fengið sex sálir fyrir eina.

En það er frá fyrra kvarnareigandanum að segja að hann hafði jafnan nógan auð eftir að hann sleppti kvörninni, fór þá að hugsa fram í veginn fyrir sig og sálu sinni, tók tvö munaðarlaus fósturbörn, mannaði þau vel og arfleiddi að öllu sínu eftir sinn dag og konu sinnar, og voru þau hjón mestu lánsmenn síðan alla ævi.


  1. Þessi maður var engill.