Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Mannabeinavatn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Mannabeinavatn

Upp á heiðunum fram og vestur frá Skagafirði liggja hinar svonefndu Ásgeirstungur. Í tungum þessum er vatn eitt æði stórt sem heitir Mannabeinavatn. Sagan segir að eitt haust hafi Skagfirðingar farið í göngur á þessar heiðar og tjölduðu að kvöldi dags í flá þeirri sem nú er vatnið; því þá var þar mosaflá, en ekki vatn. Þeir voru ölvaðir mjög og höfðu illt orðbragð og gjörðu gys að guði og öllum guðlegum hlutum, nema einn maður frá Mælifelli í Skagafirði, og er svo mælt að presturinn á Mælifelli, húsbóndi hans, hafi tekið honum vara fyrir kvöldi þessu og beðið hann að vera þá stilltan og gætinn í orðum. Þegar hann heyrði nú þetta illa orðbragð félaga sinna fer honum ei að lítast á, tók hest sinn og reið heim að Mælifelli.

Skammt frá flánni rann kvísl er hét Strangakvísl; hún er jökulvatn. Um nóttina kom jökulflóð í hana svo hún flóði upp í flána sem þeir lágu í Skagfirðingar og fyllti hana að mestu. Fórust þar mennirnir allir í tjaldinu. Myndaðist þar þá vatn og fundust síðar við það mannabein og því er það Mannabeinavatn kallað.