Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Niðursetukerlingin

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Niðursetukerlingin

Það var einu sinni kerling á bæ; hún var þar niðurseta. Var hún svo óánægð með þenna samastað að hún gat ekki annað en verið að útmála það með sjálfri sér hvað vondur hann væri. Eitt kvöld ber svo til að kerling er ein í bænum, en allt fólk úti að gegna skepnum. Þetta var um vetrartíð og var frost mikið. Þegar nú kerling er að mögla með sjálfri sér kemur til hennar maður mikill vexti. „Mikið áttu bágt kerlingartetur,“ segir hann. „Það verður ekki sagt frá því eins og það er,“ segir hún; „hér eru allir vondir við mig, ég fæ lítið og vont að éta, mér er alltaf kalt og alltaf er ég lasin,“ segir kerling. „Þetta er ljótt að heyra,“ segir komumaður, „og vildi ég geta bætt úr mæðu þinni. Ég vil nú bjóða þér að fara til mín,“ segir hann, „því ég aumkast yfir þig, en óvíða muntu fá betri samastað en þann sem hjá mér er ef þú vilt til mín fara.“ „Mikill ágætismaður ertu,“ segir kerling, „ég vil fegin fara til þín, en ég á svo bágt að ég get ekkert gengið.“ „Það gjörir ekkert,“ segir hann, „því það er hægt að halda á þér á bakinu.“ „Mikill dánumaður er þetta,“ segir hún, „og mikill kraftamaður má hann vera, en svo er mál með vexti,“ bætir hún við, „að ég get ekkert farið nema því aðeins að ég hafi með mér koppinn minn, hann má ég ekki missa.“ „Það er nú hægast,“ segir hann, „að halda á honum í hendinni.“

Það verður svo úr að komumaður laumast úr bænum svo enginn veit með kerlingu á bakinu og koppinn í hendinni. Hann gengur vel og lengi; kuldi var mikill og spyr nú kerling hvort hann sé nú ekki senn kominn heim. „Nú er ég senn kominn,“ segir hann. Ennþá gengur hann langan veg yfir holt og hæðir og spyr kerling hann í annað sinn hvort hann sé ekki senn kominn heim. „Mjög er nú stutt eftir,“ segir hann. Nú kólnar kerlingu svo hún sér ei annað fyrir en að hún muni deyja úr kulda, kallar hárri röddu og biður guð að bjarga sér úr þessum kvölum. En í því hún mælti þessi orð sér hún að jörðin opnast og að maðurinn sem bar hana sekkur þar í jörð niður, en hún situr á þessum ógurlega gjáarbarmi og sér hann sökkva með koppinn í hendinni. Þá kallar hún upp og mælti: „Og bölvaður, og fór með koppinn minn.“ Það er sagt að kerling kæmist til bæjar er þar var skammt frá og segði þar frá óförum sínum.