Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Norðlenzki bóndinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það var einu sinni ríkur bóndi í Norðurlandi. Hann var alltaf að dreyma að hann ætti sálusamfélag með ríkum fursta fram í löndum og hann væri so mektugur og byggi sig praktuglega og færi aldrei í kirkju og æti við tólf menn. Hann varð aumur í huganum af því so það ráðlagði vinur hans hönum að reisa til hans. So hann fer með mönnum á skipi. Hann segir konunni sinni hún þurfi ekki að vænta sín framar ef hann komi ekki þegar þrjú ár eru liðin. So fer hann og siglir land af landi þangað til hann fréttir hvar hann er. Hann gengur þar á land með öðrum fleirum; hann biður skipverjann að koma sér fyrir hér því hann væri öllum ókunnugur. Hann kemur hönum fyrir hjá sterkríkum bónda. Bóndinn spyr hvurt hann ætli að fara. Hann segir upp alla sögu. Bóndinn segir hann sé til og sé eins og hann lýsi hönum. Hann segir sig langi til að finna [hann]. Þá segir bóndinn að það sé ekki so auðgert, þegar hann fari til kirkju komi hann þegar tekið sé til og standi úti undir kirkjuveggnum, en fari strax eftir blessan og hann komi aldrei til kirkju nema þegar gott var veðrið.

So líða fram stundir. Þeir fara oft til kirkju og hann kemur aldrei. Einu sinni fara þeir í góðu veðri og það segir bóndinn að nú muni hann koma til kirkju. So allt fólk er komið í kirkjuna, en þeir standa úti; þeir sjá hvar koma fjórir menn með mann í vagni. Hann fór alltaf að heiman þegar samhringt var. Þeir koma að sáluhliðinu. Þá fer hann úr vagninum og tekur ofan og gengur suður fyrir kirkjuna undir gluggann og stendur þar, hinir fara í kirkjuna. So ettir blessan rjúka þeir út sem eiga að aka hönum og þessir tveir á ettir. Norðlingurinn segir að hann langi til að hafa tal af furstanum, en furstinn segir hann hafi ekkert tal við hann, hann megi ef hann vilji stíga upp í vagninn, so hann gerir það. So er þeim akað [í] herbergi hans, og þá rýkur furstinn af baki og fer inn so hann hefur ekki meira af hönum. Þegar hann er lengi [búinn] að vera þar biður hann einn af þeim sem ökuðu hönum að biðja hann að lofa sér að [hafa] tal af hönum. Þeir skila því so hann fær það. Hann er látinn fara inn í mjög praktugt hús. Hann situr þar lengi þangað til kemur stúlka með mat á diski handa hönum. Þegar hún er farin kemur furstinn, og þegar liðin er dálítil stund kemur þessi stúlka með mjög mikinn mat handa furstanum og so fer hún. Hann sezt niður og étur þrjá bita af hvurju. Þegar hann er búinn að því þá lýkur hann upp húsi og tekur matinn og fer inn í það og skellir í lok og kemur ekki aftur með diskinn fyr en hann er tómur. Maðurinn hugsar að satt muni það vera að hann æti við tólf, hugsar hann mundi ekki vilja láta sig sjá það hvað mikið hann æti, hann hafi víst gert það í þessu húsi. Furstinn segir að nú megi hann tala við sig. Hann segir hönum drauminn og spyr hann so af hvurju hann fari ekki í kirkjuna. Fursti segir það sé af því að ef hann sé í kirkjunni þá glepji það fyrir sér fólkið, það sé verið að rápa út og inn og taki hann þá ekki ettir, en þegar hann sé úti geti hann tekið so vel ettir. Hann spyr af hvurju hann sé so praktugur og mektugur við alla. Hann segir það sé af því að sé so ljótur siður í landinu og geri hann það til þess fólkið hafi dálítinn ótta af sér og segir að hann skuli sjá hvað hann sé og hneppir utanyfirhöfnina. Hann er þá í strigafötum með ólarbelti um sig og herðir það. Hann spyr af hvurju hann hafi þessa ól yfrum sig; hann segir af því hann þyldi ekki við fyrir hungri. Þá segir maðurinn að það sé þá ekki satt sem sagt sé að hann æti við tólf menn. Hann lýkur upp húsi og þar sita tólf menn; hann spyr hvurnin standi á þessum mönnum. Fursti segir að þeir hefðu mátt deyja út um jörðina og so hann hefði tekið þá og fæddi þá so enginn vissi. Hann segir við furstann að hann sé ánægður að eiga sálusamfélag með hönum. Þeir skilja so með mestu vináttu og so fer hann til húsbónda síns og er þar um tíma og so siglir hann aftur í sitt land og finnur konu sína. Það verður fagnaðarfundur og hann er búinn að vera í þrjú ár. Hann og furstinn eru alltaf að skrifast á. Og endar so þessi saga.