Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Pápiskar bænir

Úr Wikiheimild

Enn fara munnmælum ekki allfáar pápískar bænir og vers á Íslandi auk þeirra sem áður eru prentaðar í kirkjusögu landsins eftir Finn biskup. Um sumar af þessum bænum vita menn með vissu að þær hafa verið lesnar og álitnar af fáfróðum múgamönnum og helzt kvenfólki sem guðrækilegar morgun- og kvöldbænir og eru það jafnvel enn í dag, meir en 300 árum eftir siðabótina, og með því móti hafa skilríkir og skynsamir menn numið þær og skrásett að þeir hafa heyrt þær hafðar um hönd í guðrækilegum tilgangi. Bænirnar sem eru nálega allar með hendingum að meira eða minna leyti eru flestallar stílaðar til helgra manna, Maríu og postulanna o. s. frv., og krossins helga, en miklu minna minnzt á persónur guðdómsins og heilags anda ekki getið nema á einum stað. Sumum þessum bænum og versum svipar mjög til særinga og í sumum koma fyrir svo afbökuð orð eða orðskrípi að ekki er auðið úr að ráða.

Niðurraðan trúarinnar

[breyta]
Bið þú föðurinn,
bjóð þú syni
af móðurligum
myndugleika;
því hönum þú eflaust
yfir drottnar.
Skynsemd og réttvísi
skilja til báðar
að móðirin sé mjög æðri.
Fyrir því bið þú
föður himnanna auðmýkt með
og undirgefni,
en skipaðu syni
af skarpleiks valdi.

Kirkjugöngubæn

[breyta]
Stíg ég í kirkju
með kristins manns fótum;
holl sé mér kirkja,
hollur sé mér prestur,
holl sé mér messubók og hvör bók
sem guð drottinn minn jók.
Leit ég utar í kirkju,
leit ég innar í kirkju
leit ég allt í kringum mig.

Sá ég hvar guð drottinn minn sat á dómstóli sínum og hafði í hendi þá helgu bæn Paternoster og mælti þessum orðum að þar skyldi enginn

í vítis eldi brenna
né kvalanna kenna,
hvör sem syngi þessa bæn
með sjö dögum öllum
Vaki vörður minn,
sofi (ei) augu mín,
renni hugur minn
til almáttugs guðs míns. Amen.

Messuupphaf

[breyta]
Situr í tignartróni
og hengir dirðildúk;
þar kemur rindilkindin syndagrú.
Ræður og stangar ríkur herra
sánkti Pétur og Máría
á dauðastundurinn.

Séra Jón Norðmann kallar þetta Gamalt sálmsvers og hefur það þannig:

„Situr á tignartróni
og hengir dirðildú,
þangað kemur rindilkind
með sitt syndagrú,
Pétur, Máría
og dauðastundurinn.“

Maríu vögguljóð

[breyta]
Sof þú, ég unni þér;
allir helgir þjóni þér:
Pétur og Páll á Rómi
hjálpi þér á dómi
og [aðrir: en] sú hin mildasta [aðrir: milda] mær
sem marga bæn af [aðrir: hjá] guði fær.
Sancta [aðrir: sankti] Máría sé þér holl,
sú [aðrir: hún] er betri en rautt [aðrir: rauða] gull.
Hvar sem þú reikar á landi [aðrir: um landið]
signi þig og svæfi
sjálfur guð og heilagur andi.

Vöggukvæði

[breyta]
Sofðu nú sælin
og sofðu nú vel.
Sofðu eins og Kordíá
undir vængjum Máríá.
Krossinn helgi lýsi þér
með öllum sínum ljósum,
hvurs helgidóm vér hrósum.
Dilli þér nú Drússíus og Pálma,
syngi yfir þér serimón og sálm[a].

Vögguljóð

[breyta]
Þig svæfi guð og guðs móðir
tíu englar og tólf postular,
Thómas hinn trausti og tveir aðrir,
Magnús og Marteinn;
þig svæfi drottinn.

Kvöld- og morgunvers til sællrar Maríu meyjar

[breyta]
Bið ég María bjargi mér
burt úr öllum nauðum
annars heims og einnin hér,
ástmær guðs, ég treysti þér;
bið þú fyrir mér bæði lífs og dauðum.

Morgunbæn

[breyta]
Geng ég út fyrir dyr,
geng ég inn fyrir dyr,
geng ég aldrei einsömul:
fylgja mér einn, tveir, þrír,
fjórir, fimm guðs englar.

Og nú snýst ég sólarsinnis frá helvíti til himnaríkis. Ámen.

Kvöldbæn

[breyta]
Grá, Grá, Gratsjá,
Mortá, lipur hnoss,
minn varnarskjöldur veri hér
Pétur og Páll á miðri mér
og Marteinn til fóta.
Syng ég sjö sálma
sinn í átt hverja.
Ljósið hans hið langa
lýsi mér í Paradís að ganga. Ámen.

Kvöldbæn stúlku

[breyta]
Nú leggst ég í sængina mína
sem drottinn minn sæll í gröf sína.
Liggur minn búkur ber,
blessaður guð á höfði mér,
englar hans á fótum mér
og Pétur og Páll á miðri mér,
[allir heilagir utan með og amen].

Kvöldjátning

[breyta]
Ég hef lifað í aumum heim,
eins og versta tófa;
blessaður, sem býtir seim,
brjóttu’ ekki’ í mér lófa.

Kvöldvers

[breyta]
Kominn er ég í kúruna mína,
kann mig engin þar snerta pína.
Og nú sendu englana þína
allt í kringum kúruna mína.

Kvöldbæn (Dyrabæn)

[breyta]
Geymdu dyrnar, drottinn minn
dásamlegur fyrir krossinn þinn,
glugga, húsin, gólf og skúm,
guðs á meðan stendur húm.
Guð gefi hér rúm heilögum anda,
svo óhreinn andi kunni oss ekki að granda.
og árar hans fái hér ekkert rúm.

Guð geymi dyr og Crux lok, María mey í innidyrum, en Michael engill út í frá. Brjóti enginn upp búmanns dyr.

Út Gurgur (Karkur),
inn Jesús,
út Gassagull,
inn guðs engill,
út Ragerist,
inn Jesú Christ,
út Valedictus,
inn Benedictus.

Við gefum oss alla á guðs vald og góða nótt.

Önnur dyrabæn

[breyta]
Hvað viltu hrella mig,
hundspottið leiða.
Herrann minn hreki þig
í helvítið breiða.
Falsrefur, fá þú skamm,
farðu ekki inn í mín hús;
haf þig í burtu héðan
því hér stendur Jesús.

Bæn þá maður klæðist

[breyta]
Kristur, ljáðu mér kyrtil þinn,
María, ljáðu mér möttul þinn,
sankti Pétur, ljáðu mér sjóhettuna þína
Péturs klöpp,
klöpp, klöpp,
þá hef ég nóg
og þá hef ég nóg.
Geng ég út og inn,
ber ég koppinn minn
Fylgja mér frægir
fjórir guðs englar.

Hef ég staf í hendi mér; það sé og veri að eilífu. Ámen.

Eitt bænarkorn þá maður þvær sér

[breyta]

Þvæ ég mig í dögg og í dagleiði; þvæ ég frá mér fjandmenn mína og óvini mína. Renni reiði þeirra. Ber ég blíðskap minn, drottinn minn, á milli brúna mér. Verði mér svo hvur maður feginn sem í dag með augum lítur eins og María mín guðs móðir varð honum syni sínum, þá hún fann hann á friðarhellunni fyrir austan ána Jordan. Áin Mará, Grasá, Plená, Domine-ste kum, Benediktatum, fructus, Herbus benedictus.

Bæn móti kveisu

[breyta]
Kristur sat fyrir kirkjudyrum;
kyndil hafði í hendi
barnið það blessaða,
bók í annari.
„Hvað syrgir þú, son minn?“
sagði sæl María.
„Ég er sár og sjúkur,“
sagði guð drottinn minn.

„Ég skal lækna þér beinkveisu, steinkveisu, fótakveisu, handakveisu, iðrakveisu, heilakveisu og þá alla römustu reginkveisu.“ Hann varð laus af krankleika sínum. Hvör þessa bæn hefur að varðveita frelsast af allri kveisu.

Krossvers

[breyta]
Kross í kross
datt ofan fyrir foss
rak hann upp á eyrinni,
sé hann með öllum oss. Ámen.

Ákall (almennt)

[breyta]
Drottinn minn dýri,
dragðu mig upp úr mýri,
leggðu mig upp á steininn
og brjóttu’ ekki’ í mér beinin.

Draumur sankti Péturs (að draumur ráðist vel)

[breyta]

[Pétur segir:] Draum dreymdi mig, drottinn guð minn: Ég þóttist sjá þig, drottin drottnanna og kóng kónganna; vaknaði ég við og var það svo. „Hvör sem segir þinn draum fyrr en sinn,“ sagði herrann Kristur, „hann skal altíð ráðast til betri vegar.“

Bæn á móti hiksta

[breyta]
Kristur í brjósti mér,
burt fari hiksti;
fyrri var ég í huga guðs
en hiksti.

Guð friði þess manns sál sem dó af hiksta. Hvör sem í einu andartaki les þessa bæn níu sinnum mun laus verða við allan hiksta.

Ein gömul bæn

[breyta]
Velkominn sértu sunnudags herra.
Þú ert mönnum mætastur,
sjálfum Kristi kærastur.
Þú munt bera vort boð
fyrir voldugan guð
undir eið og gullstíl.
Þar kom inn einn sannkristinn mann,
sankti Jóhannes heitir hann.
Settu þig niður, sankti Jóhannes,
og skoðaðu mínar undir.
Hver hefur liðið neyð og stríð
fyrir allan kristinn lýð,
fyrir konu og fyrir mey,
fyrir svein og fyrir mann?
Hver sem þetta versið lesa kann
níu nóttum áður maður deyr,
sá er frí við alla vítis neyð.

Dýrt er drottins orðið um aldir alda. Amen.

Bæn

[breyta]

Krossa ég mig og signi mig í bak, krossa mig og signi mig í fyrir með því heilaga sigurmerki sem St. Barbára merkti sig á sjálfa kyndilmessu drottins síns og Máríu sinnar. Sittu hjá mér Máría hin sæla; signdu mig með vinstri hendi, verndaðu mig með hægri hendi fyrir hönum illa Lússímund og börnum Loðin Ásbjarnarsyni og fyrir afturgöngunni við Þrándarholtsstekk og útburðinum í Andrésarmýri. Varðveittu minn andardrátt sem Elítómasar og ins stóra Abístors og Córí. St. Þorlákur standi í mínum anddyrum og syngi mér sjö sinnum Paternoster. Svo sungu Máría og Pétrónell á sinn upprisudag. Ámín. Ámín.

Hvur þessa bæn les þrisvar á dag,
hönum mun ganga allt í hag. Ámín. Ámín.

Maríu reisuvers

[breyta]
Móðir Jesú veri með oss,
mildur guð og helgi kross;
aldafaðir, engla lið,
allir helgir búi frið;
fríðir spámenn, frúr og postular
fyrir oss bið.

Ferðabæn

[breyta]

Í þínu nafni, Dominus, Deus Zebaoht, ferðast ég á leið mína og signi mig í kross í nafni allra heilagra svo og með innsigli þessara kónga nafns merkja, Jaspars, Balthasars og Melkiors, Austurvegsvitringa, í von leiðtogunar einnar stjörnu sem þeim dýra Dromedariam á nóttu níðsvartri

Fældust enga
féndur myrkva;
fær svo leið mína
á farveg réttan
frá slysum, óföllum
og illum dauða.
Hræðst mig djöfull
og heljar árar;
allir þeir flýi
og undan renni
fyrir Krists benjar
og kónga nöfn þessi.
Þoka ei mæði
né þaulvindur;
standi mökkur
sem múrveggur
mér að báðum hliðum;
en leið lýsist
og liðug braut standi
sem Hafið rauða
hrökk fyrir Móises staf.
Straumæðar allar
standi í skorðum
skelfing engin
svo skaða kunni.
Brynja ég mig
með bæn þessari
fyrir óvinum öllum
og illviðra gýgjum.
Renni þær allar
í rásir bjargbúa
og af leið mig
öngvar hreki.
Ég fæ farveg sléttan
fram og aftur
fyrir þessa bæn
og þrjá konunga.
En sé sá nokkur
óvina minna
er mér illt hugsi
á leið minni,
að mér mæta skuli
af mannkynngi,
galdraklemmu
og glettum öllum,
augna myrkurs
og illþoku hjaldurs,
úða dökka mistur
og Moríána,
flugneista flas
og frosskruggum, –
þá sendi ég það aftur
í sekk þeirra og skrokk
svo sjálfa umkringi
þeirra útþanin snara
fyrir Krists benjar
og kraft bænar þessarar
og útlesin orð sem standi svo
stöðug sem orð Davíðs kóngs
og postulans Péturs
þá Ananías
og Safíram
heitorður
til heljar leiddi,
einnin Krists
þá eikin visnaði,
upp frá því aldrei
ávöxt bera kunni.
Nú signi ég mig í kross
í nafni Krists
og kónga þriggja
er ég í fyrstu
og áður nefndi.

Ljáðu mér, María, ljósstjörnu þína á leið mína að hún lýsi fótum mínum á friðarveginn. Enda ég svo þessa mína auðmjúka bæn í vissri von um hentuga bænheyrslu.

Amen. Amen, það sé já,
samsyngjum halelújá.

Þessa bæn höfðu þeir gömlu lesið í hljóði þegar þeir byrjuðu ferð sína og hafði þeim jafnan vel gengið bæði til og frá.

Sigurfræði (sem lesast skulu á móti reiði)

[breyta]
Sigurfræði vil ég syngja og tala;
þau skulu mér til sigurs og frelsis vera:
Signi ég mig af bræði
signi ég mig og mín klæði,
signi ég mig fram að gá,
signi ég mig upp að stá.
Sigur sé mér í höndum,
sigur sé mér í höndum,
sigur sé mér í fótum,
sigur sé mér í öllum liðamótum
Bak mitt af járni,
fætur mínir af stáli,
höfuð mitt af hörðum hellusteini,
hendur mínar harðar í greipum.

Enginn maður verði mér svo sterkur, megn eða reiður, að mér megi skaða gjöra eða mein.