Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Púkinn á kirkjubitanum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Púkinn á kirkjubitanum

Einu sinni var prestur, en ekki er þess getið hvar hann hafi verið. Hann messaði einn sunnudag sem oftar og fór allt í sniðum hjá honum eins og vant var, og bar ekki neitt á neinu fyr en eftir það að hann var kominn upp í stólinn og farinn að flytja ræðuna að þá var einn maður í framkirkjunni sem skellihló undir ræðunni. Ekki var þessu neinn gaumur gefinn hvorki af presti né öðrum að sinni enda bar ekki svo til nema í þetta eina skipti. Prestur lauk svo ræðu sinni, fór úr stól og fyrir altari eftir messuna og gjörði öll prestsverk sem vera bar og gekk að lokinni embættisgjörð úr kirkju.

Þegar úti var fór prestur að spyrjast fyrir um mann þann er gjört hafði hneykslið í söfnuðinum um messutímann og var honum sagt hver verið hafði. Lét þá prestur kalla manninn fyrir sig og spurði hann hvort honum hefði þótt það svo hlægilegt sem hann hefði farið með í dag í stólnum að hann hefði ekki getað varizt hlátri og hneyksla með því söfnuðinn eða hvað honum hefði til þess gengið. Maðurinn kvað því fjærri fara að sér hefði dottið í hug að hlæja að kenningu prestsins. „En ég sá nokkuð,“ segir hann, „sem þér hafið líklega ekki séð, prestur góður, og trauðlega nokkur annar af söfnuðinum“. „Hvað var það?“ segir prestur. „Þegar þér, prestur minn, voruð nýkominn upp í stólinn,“ segir maðurinn, „fóru tvær kerlingar sem sátu kvenmannamegin í krókbekknum að rífast og jós þar hvor yfir aðra óbótaskömmum. Í því bili varð mér litið upp á kirkjubitann, sá ég þá að þar var kominn púki. Hann hafði í annari krumlu skorpna skinnbót, en í hinni hélt hann á hrosslegg. Púkinn lagði kollhúfurnar við hverju fúkyrði er úr kerlingunum fór og hleraði grannt að og ritaði jafnóðum með hrossleggnum á skóbótina allt sem þær sögðu meðan hún entist til. En þar kom um síðir að skóbótin varð of lítil; varð fjanda þá eigi ráðafátt því hann fer þá til og teygir hana, tekur í hana með tönnunum öðrumegin, en með krumlunum hinumegin, og endist hún honum þá enn um hríð. Heldur hann þá áfram í óðakappi unz skóbótin er útskrifuð. Gjörir hann þá enn sem fyrr, að hann teygir bótina og fer svo aftur að skrifa. Gengur þetta svo koll af kolli, að púkinn teygir bótina á alla vegu í hvert sinn sem rúmið þrýtur á henni. Loksins kemur þó þar að að hann er búinn að rita bótina í æsar og þenja hana svo að öll teygja er úr henni. En með því bæði að kerlingar létu enn dæluna ganga og púki vildi fyrir engan mun missa af fúkyrðum þeirra fer hann enn til og teygir allt sem hann má. En í því hann tekur sem fastast í með tönnunum rifnar skóbótin og við það hrýtur púkinn aftur á bak ofan af kirkjubitanum og hefði líklega skollið kylliflatur niður í kirkjugólfið hefði hann ekki um leið og hann rauk ofan fest klónum í kirkjubitanum. Og þá varð mér það, prestur góður, að ég hló og bið ég nú bæði yður og söfnuðinn auðmjúklega fyrirgefningar á því ef hneyksli hefur af mér orðið.“

Presturinn fann að manninum var vorkunn að honum hefði þetta á orðið og setti honum hægar skriftir til aðvörunar fyrir aðra, en prestur kvaðst vija að kerlingar þessar ættu annað erindi næst til kirkju en skemmta skrattanum með skammyrðum í kirkjunni.