Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Paradísarhellar og Víti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Paradísarhellar og Víti

Undir Eyjafjöllum, skammt frá bænum á Seljalandi, hátt uppi í snarbröttu klettabelti, er hellir æði stór og er allerfitt að klifrast þangað upp; hann heitir Paradísarhellir. Í þeim helli eru fornar rúnaristingar. Dr. Maurer las úr nokkrum þeirra. En þótt hellir þessi sé alkunnur og nokkrum sinnum í hann farið er mönnum allt að einu ókunnugt um af hverju hann hafi fengið nafn sitt.

Í bæjarfellinu hjá Hítardal er enn fremur hellir sem Paradís heitir og annar sem kallaður er Víti. En ekki tókst dr. Maurer heldur að fá neina sögu sem lægi til þeirra heita.

Auk Vítishellis í Hítardal eru eldgígir tveir hjá Kröflu og heitir hvor tveggja Víti, og lýsir Eggert Ólafsson svo öðrum þeirra sem þeir Bjarni Pálsson komu að að hann líti út eins og afar stór ketill með bláleitri vatnsleðju í eins og hálfþykkur grautur. Gígbarmarnir eru fimm faðma háir niður að vatninu og leggur þar æ upp af reyk svo þykkan og svartan að ekki sér til vatnsins í gígnum nema þegar hvasst er og reykinn svipar til. Eggert telur það og líklegast að gígum þessum hafi verið gefið nafnið af sömu trú sem Ítalir hafi á dalnum Solfatara að þar niðri sé annaðhvort hreinsunareldurinn eða helvíti. – Ekki hefur Jónasi heitnum Hallgrímssyni heldur litizt hóti betur á gíg þenna þar sem hann kveður:

„Bar mig á brenndum auri
breiðar um funa-leiðir
blakkur að Vítis-bakka,
blæs þar og nösum hvæsir.
Hvar mun um heiminn fara
halur yfir fjöll og dali
sá er framkominn sjái
sól að verra bóli?
Hrollir hugur við polli
heitum í blárri veitu –
Krafla með kynjaafli
klauf fjall og rauf hjalla;
grimm eru í djúpi dimmu
dauðaorg þaðan er rauðir
logar yfir landið bljúga
leiddu hraunið seydda.“

Það er enn náskylt þessu máli og þó skyldara fyrra atriðinu um Paradís að til er sá staður hér á landi sem Ódáinsakur heitir; er það grösugur sléttur og fagur flötur í dal þeim milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar í Eyjafjarðarsýslu sem Sýrdalur heitir. Flötur þessi heitir svo af því það var trú manna að þar yxi grös og jurtir sem verðu manndauða. Olavíus sem fór hér um land á seinni hluta fyrri aldar kom í Ódáinsakur og hefur hann skoðað og skýrt frá grösum þeim sem þar vaxa og telur sum þeirra jafn sjaldsén hér á landi sem annarsstaðar, en efast þó um að þau hafi þá náttúru að lengja líf manna.