Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Peningavettlingur undir jökli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Peningavettlingur undir Jökli

Frá því var mér sagt vestra að drengur einn reri undir Jökli vetrarvertíð og átti að vera hálfdrættingur. Nú reri hann allan veturinn og varð aldrei var þó hlaðafli væri, og aldrei gáfu skipverjar honum neinn fisk. Oft bað hann þá á kvöldin að bíða unz sól væri komin á hnjúka á Barðaströnd, og aldrei gerðu þeir það. Loksins kvöldið fyrir vertíðarlok sögðu þeir nú að bezt mundi að bíða unz sól væri komin á hnjúkana, og var svo gert, Þegar sól var komin á hnjúkana dró drengur drátt, og er það kom upp var það sjóvettlingur fullur af peningum. Nú vildu þeir fá helming af, en dreng var ei um að missa, og lagði dómarinn þann úrskurð á að drengur skyldi eiga alla peningana, þar þeir hefðu verið svo stakir aldrei að gefa honum neitt.