Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Súlnasker og skerpresturinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Súlnasker og skerpresturinn

Sker eitt liggur í suður-útsuður af Vestmannaeyjum, hér um bil tvær vikur sjávar; er það ýmist kallað Súlnasker, Almenningssker eða Skerið. Súlnasker heitir það af því þar er mikið af súlu, Almenningssker af því allar jarðir á eyjunni hafa jafnan rétt til ínytja þess og Skerið og jafnvel stundum „Skerið góða“ er nokkurs konar gælunafn. Skerið á það og skilið að því sé sómi sýndur því Vestmannaeyingar fá þaðan á ári hverju hér um bil 4-5000 fýla og 4-500 súlna; þar er og helzta eggjatekja eyjabúa.[1] Skerið sjálft stendur á fjórum bergstöplum upp úr sjónum, svo hátt að róa má undir það ef gott er í sjóinn. Í skerið er farið einu sinni á ári til fugla og verður að velja til þess góðan veðurdag því bæði er brimsamt við það og sjálf uppgangan í skerið einhver hin hættumesta og örðugasta. Sá dagur sem farið er í skerið er nokkurs konar hátíðisdagur fyrir eyjabúa; þá fara vanalega heldri menn á skipi sér til að skemmta sér og horfa á hina sem í skerið ganga eftir fuglinum. Er þá einatt kátt á hjalla því þá liggur vel á öllum ef vel veiðist og enginn slasast.

Skerið hallast töluvert til útsuðurs og segir sagan tildrögin til þess þannig: Fyrst framan af kom engum manni til hugar að reyna að fara upp í skerið því engum þótti það fært nema fuglinum fljúgandi. Loksins gerðu þó tveir hugaðir menn tilraun til þess og tókst það vel þó glæfraför væri. Sá þeirra sem fyrri komst upp á skerið sagði: „Hér er ég þá kominn fyrir guðs náð,“ en hinn síðari: „Hér er ég kominn hvort guð vill eða ekki.“ Við þessi orð brá svo að skerið snaraðist á hliðina og hristi guðleysingjann af sér út í hyldýpið og týndist hann þar. En stórvaxinn maður kom fram og greip í hinn manninn og studdi hann svo hann skyldi ekki fara sömu för. Upp frá þeim degi hefur skerið hallazt, en stórvaxni maðurinn var skerpresturinn sem bæði hjálpaði manninum niður og einnig að leggja veg upp á skerið sem lengi var farinn eftir það, en nú er með öllu af lagður og nýr vegur fundinn. Framan af var það í mæli að skerpresturinn kæmi fram á skerið og bandaði á móti eyjabúum ef þeir vildu leggja þar að og allt eins gaf hann þeim bendingu um að leggja til eyjanna aftur ef hann vissi fyrir illt veður. En ef þeir sinntu ekki þessum bendingum hans hlekktist þeim ævinlega eitthvað á, löskuðu skipið eða maður slasaðist af þeim og annað því um líkt. Stundum bar það og við að þó illt væri við skerið benti hann þeim að leggja að því allt að einu enda var þess þá víst að vænta að sjór og vindur gekk til bötnunar þegar svo vildi til. Fyrir þetta voru eyjabúar skerprestinum jafnan þakklátir og enn í dag helzt það við að hver sá sem í fyrsta sinn kemur upp á skerið leggur fáeina skildinga í steinþró eina sem er uppi á skerinu. Á það að vera gjöf til skerprestsins og alltaf eru skildingarnir horfnir þegar komið er í skerið í næsta sinn.

Auk þess sem nú er sagt af skerprestinum er hann bezti prestur bæði fyrir altari og í stól og flytur ómengaða kenningu, annars gæti hann ekki verið eins góður vinur Ofanleitisprestsins[2] eins og hann er. Skerprestur heimsækir Ofanleitisprest einu sinni á ári; kemur hann þá róandi tveim árum á steinnökkva að Ofanleiti á gamlárskvöld og tekur Ofanleitisprestur við honum báðum höndum, leiðir hann til stofu og setur fyrir hann kaffi, brennivín, hangiket og ýmsar kræsingar. Þegar skerpresturinn fer aftur frá Ofanleiti fylgir heimapresturinn honum til skips um miðnættið ofan í „Víkina“ þar sem skerprestur lendir nökkva sínum, og hjálpar honum til að setja á flot sem Jón skáldi segir í Vestmannaeyjabrag:

„Prestur skers um Ránar reiti
rær oft upp að Ofanleiti
nóttina fyrir nýjárið.
Það er líka satt að segja,
sóknarprestur Vestmannaeyja
höklabúkla hýrt tók við:
stofuna til staupa benti,
steinnökkvann í „Vík“ sem lenti
setti á flot um svartnættið.“

Á seinni árum hefur þó ekki orðið vart við skerprest og eru því líkur til að hann sé annaðhvort dáinn eða þá orðinn svo hrumur af elli að hann sé ekki ferðafær þó það hafi hvorki frétzt að brauðið sé veitt öðrum eða gamli presturinn sé búinn að taka sér kapellán.


  1. Hver fýll er virtur á 4 skildinga og hver súla á 16 skildinga og gefur þannig skerið af sér í beztu árum allt að 290 rdl. í fugli auk eggjanna.
  2. Ofanleiti heitir annað prestsetrið á Vestmannaeyjum.