Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Saga um afl trúarinnar

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einhverju sinni á fyrri öldum bjó bóndi vestur á Vestfjörðum. Hann var þar ferjumaður við einhvern fjörð og hafði byr hvert sem hann vildi; varð hann sökum þess orðlagður víða um sveitir. Brynjúlfur biskup Sveinsson fór eitt sinn visetatiuferð um landið og kom á Vestfjörðu og frétti til þessa kynlega ferjumanns og fýsir að reyna hvað til sé í þessu og hverju það sætti. Hann kemur til ferjumanns og biður hann um far yfir um fjörðinn og er hinn þess albúinn. En svo stóð á að vindur var hvass á móti svo að vart var fært. Þeir ganga til sjávar. Þá sér biskup að ferjumaður krýpur niður framan undir skipinu og mælti eitthvað lágt fyrir munni sér mjög andaktarlegur á svip. Þeir stíga þá á skip og óðar en þeir eru fram komnir úr flæðarmáli breytist veðurstaðan og rennur á byr blásandi. Biskup gengur nú á ferjumann hverju slíkt sætti og hvað hann hefði lesið áður þeir stigi á skip. Hann er lengi tregur til, en segir að lokum fyrstu orðin bænar sinnar. Sér biskup nú að hann hafði þulið faðirvor á latínu og segir honum það. Þegar hann nú vissi þýðingu bænar sinnar missti hann hina öruggu trú sem hann hafði áður lagt á hana og varð hún héðan af afllaus á vörum hans.