Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Samningur við kölska

Úr Wikiheimild

Einu sinni gjörði maður samning við kölska um það að kölski skyldi sjá svo um að ekki kæmist upp um hann þó hann stæli, en eiga síðan sál hans þegar hann dæi. Þessu lofaði kölski með því skilyrði að maðurinn stæli aldrei miklu í einu. Nú liðu stundir og stal maðurinn aldrei til stórmuna, en gjörði það oft. Loksins fór hann að hugsa um ástand sitt og þóttist illa kominn. Hann tók það til ráðs að hann stal stórmiklu í einu. Var þá leitað að þjófnum og fannst hann og var settur í járn og dæmdur til hengingar. Um nóttina eftir þegar hann átti að hengjast að morgni, kom kölski til hans og sagði: „Þú raufst nú samninginn, en ekki ég, og það skal ég sýna að ég vil halda hann.“ Hann tók þá af honum járnin og lét á sig, en lét hann fara og bað hann gæta samningsins betur en áður. Kölski sat í járnunum um nóttina. Um morguninn kemur böðullinn og tekur fangann og fer með til gálgans. Á leiðinni var fanginn sífellt að lesa fyri munni sér þessi orð: „Ég held ég sleppi.“ Böðullinn varð byrstur við og sagði: „Þú skalt aldrei sleppa.“ Hinn heldur áfram að staglast á: „Ég held ég sleppi,“ þar til böðullinn varð reiður og sagði: „Skrattinn hafi mig ef þú skalt sleppa.“ Þá tekur fanginn böðulinn og snýr hann úr hálsliðunum og fór með hann og sást aldrei síðan. Maðurinn sem undan slapp fór til kóngsins og fékk náð hans, bætti síðan ráð sitt og varð góður maður.