Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Skinnastaðakirkja

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er sögn gamalla manna að fyrir löngu síðan hafi prestur nokkur verið á Skinnastöðum í Axarfirði sem hafi verið óvandur bæði að sínum og annara manna lifnaði og hjá honum var að vistum móðir hans gömul. En frá því er sagt einhverja jólanótt að prestur skyldi syngja aftansöng eftir venju þeirra tíða og var margt fólk þar saman komið og safnaðist það ásamt presti allt náttúrlega í kirkjuna, en í stað messugjörðarinnar tók prestur sér annað fyrir hendur ásamt tilheyrendunum, nefnilega alls konar ólæti og óguðlegt framferði, dans, spil og leiki, samt lauslæti og hvað annað illt. Þar var komin út í kirkjuna móðir prestsins, en er hún sá athæfi sonar síns og fólksins fór henni ekki að lítast á og fór til prests og taldi um fyrir honum að hætta þessum ljóta verknaði sínum, en gæta embættis síns. En prestur hélt sinni iðju áfram og þetta ámálgaði kelling í þrjár reisur, en hann lét sér ekki að heldur segjast. Þá fór kelling út úr kirkjunni og settist á kirkjugarðinn. En þegar hún var búin að sitja þar nokkra stund og hlýða á ólætin í kirkjunni sá hún að kirkjan fór að síga niður og sökk með það sama, en kelling heyrði glauminn og gleðina á leiðinni niður þar til heima tók í helvíti. – Aðrir segja það þegar kelling fór úr kirkjunni hafi hún farið út á tún og bærinn hafi allur sokkið; en það er ótrúlegra.

Síðan er sagt þar hafi lengi verið óbyggt því enginn hafi þorað að hætta á það fyrir óhreinleika – eða að kirkjan hafi verið óbyggð – þar til ljós fór að sjást skína þar sem kirkjan nú stendur; þá var hún byggð og heita síðan Skinastaðir af því ljósskinið sást. En þar sem kirkjan sökk er síðan kringlótt lægð, það er nú fyrir utan túnið á Skinastöðum, og sunnanvert í lægðinni rennur lækur sem kallaður er Brandslækur. Og við þetta kannast þar kunnugir menn.