Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Skipamál

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skipamál

Stundum heyrist marra í skipum þó logn sé og þau standi í naustum. Það er mál skipanna sem fáum er gefið að skilja.

Einu sinni var maður sem skildi skipamál. Hann kom að sjó þar sem tvö skip stóðu og heyrir hann að annað skipið segir: „Lengi höfum við nú saman verið, en á morgun verðum við að skilja.“ „Það skal aldrei verða að við skiljum,“ sagði hitt skipið, „höfum við nú bæði verið saman þrjátíu ár og erum við orðin gömul, en ef annað ferst þá skulum við farast bæði.“ „Það mun þó ekki verða. Gott veður er í kvöld, en annað veður mun verða á morgun og mun enginn róa nema formaður þinn, en ég mun eftir verða og öll skip önnur. En þú munt fara og aldrei aftur koma; munum við eigi standa hér saman oftar.“ „Það skal ekki verða og mun ég ekki fram ganga.“ „Þú munt þó verða að ganga fram og er þessi nótt hin síðasta sem við verðum saman.“ „Aldrei skal ég fram ganga ef þú fer ekki.“ „Það mun þó verða.“ „Ekki nema andskotinn sjálfur komi til.“ Eftir þetta töluðu skipin so hljótt að heyrandinn í holtinu nær heyrði ekki hljóðskraf þeirra.

Morguninn eftir var veður ískyggilegt mjög og sýndist engum ráð að róa nema einum formanni og skipshöfn hans. Gengu þeir til sjóar og margir fleiri sem ekki varð úr að réru. „Skinnklæðið ykkur í Jesú nafni,“ segir formaður sem títt er. Þeir gjöra svo. „Setjum fram skipið í Jesú nafni,“ segir formaður eins og vant var. Þeir taka til, en skipið gekk ekki fram. Heitir þá formaður á sjómenn aðra sem þar voru staddir að duga þeim, en það kom fyrir ekki. Þá heitir hann á alla sem við voru að setja fram skipið og gekk þá maður undir manns hönd, og kallar nú formaður: „Setjum fram skipið“ með sama formála sem áður. En skipið gekk ekki að heldur. Þá kallar formaður hátt: „Setjið fram skipið í andskotans nafni.“ Hljóp þá skipið fram, og so hart að ekki varð við ráðið og á sjó út. Höfðu skiphaldsmenn nóg að vinna; síðan var róið, en ekki hefur sézt til þess skips síðan og ekki spurzt til nokkurs sem á því var.