Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Skraddarinn, menið og herramannshjónin

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er sagt það hafi verið eitt sinn einn ríkur herramaður. Hann átti sér unga konu sem að hönum þótti mikið vænt um. Einu sinni var herramaður ekki heima svo kona hans gjörir einum skraddara orð að koma á sinn fund og taka af sér máta, því hún ætli að láta hann sníða sér og sauma föt, en hún var ógnarlega vel búin vanalega og hafði ævinlega gullmen um hálsinn. Svo kemur skraddarinn snemma morguns og er þá ekki herramannskonan komin úr rekkju svo hún lætur segja hönum að koma inn. Hann gjörir það og tekur af henni mátann og fer síðan heim aftur, en þegar herramannskonan fer að klæða sig þá finnur hún hvurgi hálsmenið; svo er leitað um allt húsið og finnst ekki. Svo [þegar] herramaður kemur heim þá segir hún hönum þetta svo þau halda að skraddarinn hafi stolið því. Síðan er hann tekinn fyrir og krafinn til sagna, en það kemur allt fyrir eitt, og þó hann meðgangi ekki þá er hann vægðarlaust dæmdur til dauða. Svo kemur að því að á að taka hann af og þá fylgdi fjöldi fólks til að vera við, meðal hvurra að var herramaður og kona hans, en þegar á að höggva hann þá segist hann þurfa að tala við herramanninn. Hönum er leyft það. Svo víkur hann sér að herramanni og segir þannin: „Að ári liðnu stefni ég þér í staðinn Sikkem,“ – og svo gengur hann til aftökustaðarins og er svo höggvinn.

Nú líður þangað til að herramaður einu sinni ætlar að halda veizlu og skipar að sópa húsið eins hátt sem lágt, en þegar það var gjört þá kemur gullmenið af hillu sem var upp undir lofti í húsinu og herramaður hafði bækur á, svo þeim verður ógnarlega illt við hjónunum og geta ekki vitað hvurnin á því stendur nema að þau áttu einn apa sem að þau höfðu mætur á, að hann hefði farið með það upp á hilluna.

Svo segir ekki frá því fyrr en að einu sinni er klappað upp á húsið það er herramaður var í; hann sendir svo til dyra og það koma þau orð inn aftur að það sé maður kominn sem að vilji finna herramann. Hann fer svo út. Maðurinn heilsar herramanni og segist vera sendur eftir hönum fyrir skraddarann. Herramaður þykist nú vita hvurs kyns er og biður hann að lofa sér að ganga inn og kveðja konuna sína. Hinn leyfir hönum það. Hann biður svo konu sína að skipta eigum þeirra og gefa fátækum helminginn, en hafa hitt sér til viðurlífis og hann segir henni að þeim muni ekki verða auðið að sjást aftur. Svo kveður hann hana og fer með manninum. Svo ganga þeir þangað til þeir koma í eitt fagurt rjóður. Þar sér herramaður að standa þrír stólar og einn þeirra er gullstóll og hann er í miðið. Þegar þeir eru búnir að vera litla stund þá heyrir hann bresti og sér hvar líða í loftinu tveir menn og þegar þeir koma þá þekkir hann skraddarann og með hönum er ógnarlega fallegur maður. Svo heilsa þeir hönum og þessi fallegi maður sezt á gullstólinn og segir þeim að setjast niður og svo fer þessi fallegi maður að tala á milli þeirra og það fer svo að hann sættir þá, og þegar það er búið þá líða þeir í burtu, en fylgdarmaðurinn spyr hann að hvurt hann vilji heldur fara heim eða fara sömu leið og þessir, en hann kýs sér heldur að fara sömu leiðina og þeir hafi farið, en hann spyr hann að hvurt hann megi skrifa bréf til konu sinnar, og hinn leyfir hönum það og lofar hönum hann skuli koma því til hennar; þess vegna er sagan komin svona, og þess er ekki getið annað en að konan hafi gjört það sem að hann lagði fyrir – og svo er ekki sagan lengri.