Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Snemma beygist krókurinn sem verða vill

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Snemma beygist krókurinn sem verða vill

Ekki var guð fyrr búinn að skapa manninn en djöfullinn fékk öfund á honum og vildi reyna að gera honum mein. Kölski leggur þá krók á hala sinn, hittir guð almáttugan og biður hann að gefa sér misjöfnurnar framan af öllum fingrunum mannsins svo að allir fingurnir verði jafnlangir. Guð hét honum því að hann mætti eignast misjöfnur þessar ef fingurnir yrði ekki allir jafnlangir þegar höndin er kreppt. En vara má sig að missa ekki framkögglana ef ekki verða allir jafnir þegar í lófann koma. – Þegar kölski sá að hann mundi lítið græða á þessu loforði drottins bað hann drottin aftur um saurindi þau sem maðurinn legði af sér þegar hann gengi á jörð. Drottinn leyfði honum það með því móti að maðurinn líti ekki aftur fyrir sig þegar hann er búinn að ganga erinda sinna. En svo er sagt að það verði flestum að líta aftur. Þegar kölski sá að hann mundi hvorugt fá af þessu bað hann guð um neglur þær sem menn skera af sér eða klippa. Guð hét honum þeim ef öll nöglin væri skorin af í einu og ekki hlutuð sundur á eftir, en væri hún skorin af í þrem hlutum skyldi kölski ekkert af þeim hafa. Þess vegna sker hver maður af sér neglur í þremur eða fleiri hlutum; því annars hirðir kölski neglurnar ef þær eru skornar í einu lagi og ekki skipt sundur og eykur sér saman úr þeim skæði þangað til hann fær sér í skó sem nokkrum sinnum hefur borið við.