Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Syndapokarnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Syndapokarnir

Einu sinni var prestur mjög vandlætingasamur. Hann kenndi mönnum hart og sagði tilheyrendum sínum hræsnislaust til syndanna. Í sókninni bjó kona ein gömul. Hún kom sjaldan sem aldrei til kirkju og átaldi prestur hana oft fyrir það og kvað hún mundi naumast fá inngöngu í himnaríki ef hún vanrækti svo mjög kirkjuna. Kerling hirti ei um það. Leið svo nokkur tími.

Einu sinni sýktist kerling. Lætur hún þá sækja prest og biður hann að þjónusta sig því hún segist vera mjög angruð orðin af illgjörðum mannanna. Prestur bregður við skjótt og finnur sjúklinginn. Ætlar hann nú að fara að telja um fyrir kerlingu því hann sá að hún var mjög angruð. Kerling segir að hann skuli fyrst heyra hvað sig angri mest. Prestur játti því og hlustar nú vandlega á sögu syndarans. Kerling segir þá: „Mig dreymdi fyrir skömmu að ég þóttist koma til himnaríkis. Þar barði ég að dyrum því mér var kalt og vildi ég komast í húsaskjólið. Þar kom maður til dyra og hafði stóra lyklakippu í hendinni. Ég spurði hann að heiti. Hann sagðist heita Pétur. Kannaðist ég þá við manninn og bað hann að lofa mér inn. Pétur segir: „Nei, hér áttu ekki að vera.“ „Æ, lof mér inn,“ sagði ég, „mér er svo ógnarlega kalt; lof mér rétt inn fyrir hurðina.“ „Nei, það er af og frá,“ segir Pétur. Ég sá að þar var ógnar stór skemma á hlaðinu og bað ég þá Pétur að lofa mér þar inn. Það sagði hann ég skyldi fá og lauk nú upp skemmunni. Þá varð ég fegin og hljóp inn, en Pétur stóð í dyrunum. En þegar ég kom inn sá ég þar ógnarlega stóra hlaða af pokum, stórum og smáum. Þeir voru allir fullir af einhverju og bundið fyrir opin. Þar voru líka sjóvettlingar og þeir voru líka fullir sumir, en ekki nema í þumlunum á sumum. Ég spurði Pétur hvað í þessum pokum væri. Hann segir það sé syndir mannanna. „Má ég ekki fá að sjá pokann prestsins míns,“ segi ég, „hann er víst ekki stór.“ „Nokkuð svona,“ segir Pétur, „skoðaðu, hann er þarna,“ og um leið benti hann mér á ógnarlega stóran sekk. Þá gekk öldungis yfir mig því það var langstærsti sekkurinn. „Hvaða ósköp,“ segi ég, „en hvar er pokinn minn þá? Hann held ég sé ekkert smásmíði.“ „Ég læt það vera,“ segir Pétur og bendir mér á einn sjóvettlinginn sem ofurlítið var í þumlinum. Nú gekk hreint yfir mig, og fór út. Skelldi þá Pétur aftur skemmuhurðinni og hrökk ég upp við það. Þetta er nú það sem angrar mig,“ segir kerling „og því lét ég sækja yður að ég vildi segja yður frá þessu.“

Presti fór nú ekki að finnast til og hafði sig á burt hið skjótasta.