Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Tólfæringurinn Skúta

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tólfæringurinn Skúta

Tólfæringurinn Skúta fylgdi Strönd í Selvogi langa ævi. Skúta hafði lag á nóni á Strandarsundi hvursu mikið brim sem var. Aðrir segja að þau ummæli hafi fylgt Strandarsundi að þar kæmi alltaf lag á nóni, enda var Strandarsund kallað bezta sundið í Selvogi þangað til það grynntist af því sandfok barst þar ofan í. Nú er það ekki tíðkað, en þó haldið allgott.

Það var mörgum (57?) árum eftir dauða Erlendar lögmanns að Skúta forgekk. Svo er sagt að næstu nótt áður en það skeði gat einn af Skútu hásetum ekki sofið. Hann fór á fætur og gekk ofan til nausta. Þar stóðu tvö skip sem gengu í Strandarsundi þann vetur, Skúta og annar tólfræðingur sem hét Mókollur. Þegar hásetinn kom til naustanna heyrði hann að skipin töluðu saman. Mókollur byrjaði: „Nú munum við verða að skilja á morgun.“ „Nei,“ sagði Skúta, „ég ætla ekki að láta róa mér á morgun.“ „Þú mátt til,“ sagði Mókollur. „Ég læt hvurgi hræra mig,“ sagði Skúta. „Formaður þinn skipar þér þá í andskotans nafni,“ segir Mókollur. „Þá má ég til,“ segir Skúta, „og mun þá ver fara.“ Síðan þögnuðu þau. Maðurinn gekk heim og var þungt og lagðist niður. Um morguninn eftir var sjóveður og bjuggu menn sig til róðurs. Maðurinn sem fyrirburðinn heyrði sagðist vera veikur og ekki geta róið og bað formann sinn að róa ekki. En það tjáði ekki að nefna slíkt. Hvorutveggju fóru að setja fram. Mókollur hljóp af stokkum, en Skútu var ekki mögulegt að mjaka úr stað og hættu menn við það. Þegar þeir höfðu hvílt sig kallaði formaðurinn þá aftur og bað þá leggja hendur á í Jesú nafni eins og hann var vanur, og ekki gekk Skúta enn. Þeir reyndu til í þrjár reisur og gekk ekki um þumlung. Þá reiddist formaður og kallaði menn í fjórða sinn og sagði í bræði sinni: „Leggið þið þá hendurnar á í andskotans nafni.“ Þeir hlýddu. Þá hljóp Skúta svo hart fram að menn gátu valla fótað sig.

Nú var róið í fiskileitir. Þegar á daginn leið gjörði aftaka brim og fóru menn í land. Tólfæringarnir frá Strönd sátu í lengra lagi, en fóru svo heim. Þegar þeir komu að sundinu mælti Mókolls formaður: „Nón mun ekki vera komið og skulum við bíða við.“ Skútu formaður sagði að nón væri liðið. Þeir þrættu um það þangað til Skútu formaður staðréði að hleypa út að Herdísarvík og fór af stað. Rétt á eftir kom lag. Þá kallaði Mókolls formaður: „Nú er Skútulag.“ Skútu formaður heyrði það ekki og hélt áfram út í Herdísarvík og hleypti þar að í Bótinni. En svo var brimið mikið að Skúta stafnstakkst þar og fór í spón, og drukknuðu allir mennirnir. Mókollur naut Skútulags og komst með heilu og höldnu til lands. Þá sagði maðurinn frá fyrirburðinum.