Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Túnið á Tindum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Túnið á Tindum

Eitt sinn bjó sá bóndi á Tindum í Svínavatnshrepp í Húnavatnssýslu sem Árni hét Þorleifsson. Hann var búhöldur góður og þótti fremur fjölkunnugur.

Eitt sumar var það að tún spruttu mjög illa vegna kulda og hafísa. Lét þá Árni bóndi tún sitt standa óslegið lengi fram eftir svo að það sprytti sem bezt. Allir aðrir slógu tún sín um sömu mundir og vant var. Þegar þeir voru búnir að hirða tún var Árni ekki farinn að hugsa til að slá Tindatún. Nokkru eftir þetta bað hann kölska að slá fyrir sig túnið á einni nóttu. Kölski spurði til hvers væri að vinna. Bóndi bað hann sjálfan kjósa sér laun fyrir. Kölski kvaðst þá vilja fá hann sjálfan í staðinn, en aðrir segja barn það er kona Árna gengi með. Árni játti því ef hann slægi túnið á einni nóttu og væri búinn að því áður en hann kæmi á fætur um morguninn.

Tindatúni var svo farið að það var ákaflega grýtt og seinunnið, en þó tók tóftabrot eitt út yfir sem var neðarlega í túnjaðrinum og hét Gníputóft, en til forna kvað þar hafa verið bænahús; þar varð ekki slegið svo eitt ljáfar að ekki kæmi í stein.

Nokkru síðar býr Árni bóndi út mörg orf og bindur í þau dengda ljái, og um kvöldið sama segir hann heimafólki sínu að liggja kyrru og hreyfa sig ekkert út um nóttina. Fólkið gjörði eins og hann bað nema kerling ein. Hana langaði til að vita hverju fram færi úti, fór á fætur og gægðist út um rifu á bæjardyrahurðinni; sá hún þá púka á hverri þúfu, en varð jafnskjótt sjónlaus á því auganu er hún horfði út með og vitskert upp frá því.

Um morguninn þegar bóndi kom út var kölski búinn að slá allt túnið nema tóftarbrotið niður í túninu. Þar var hann að hjakka og var orðið heldur bitlítið hjá honum; var hann þá að raula, þegar Árni kom til hans, þessa vísu:

„Grjót er nóg í Gníputóft,
glymur járn í steinum;
þó túnið sé á Tindum mjótt
tefur það fyrir einum.“

Þá var hann búinn að slá allt nema tvær þúfur innan í tóftinni; á aðra þeirra hafði Árni lagt biblíuna, en á hina Davíðs saltara, og sneiddi kölski hjá þeim. Kvað Árni hann þá vera af kaupinu og bað hann aldrei aftur koma.

Gníputóft ber enn þetta nafn og sér nú móta til hennar fyrir neðan túnið á Tindum og er mýrarsund fyrir neðan hana; en auðséð er að túngarðurinn hefur áður legið fyrir utan tóftina og hún þá verið inni í túninu.